Gerum betur, hjálpumst að!

06. maí

Nú er mótahaldið komið á fullt og heilmikið framundan á Landsmótsári.

Mótahaldið fer fram eftir lögum og reglum LH og Feif og allir sem að mótahaldinu koma, mótshaldarar, keppendur, dómarar og starfsfólk móta vinna undir lögum og reglum ásamt siðareglum LH.

Á borð skrifstofu berast upplýsingar um flest þau mál sem upp kunna að koma í mótahaldinu og er þeim safnað saman til gagns og lærdóms fyrir okkur inn í mótahaldið til framtíðar.

Dómarar mótanna eru starfsmenn sem hafa farið í gegnum námskeið til sinna réttinda, endurmenntun, upprifjunarnámskeið, skrifa undir siðareglur og skila inn upplýsingum úr sakaskrá til þess að hafa réttindi til þess að dæma mót. Þeirra hlutverk er að tryggja að framgangur mótsins sé reglum samkvæmt og dæma keppni mótsins í öllum greinum.

Dómarahópurinn er metnaðarfullt fólk sem leggur sig fram við að vanda til verka og hefur mikinn áhuga á störfum sínum, því er miklvægt að keppendur og aðstandendur þeirra virði störf þessa fólks.

Fyrir kemur að dæma þarf keppendur úr leik, til dæmis ef hestur reynist vera með áverka eftir sýningu, og er alltaf leitt þegar knapi og hestur lenda í slíku en óhöpp geta orðið og í anda hestavelferðar eru skýrar reglur um það að slíkt leiði til þess að parið hljóti ekki einkunn. Keppendur og aðstandendur þeirra eru ekki alltaf sáttir við dómara þegar slíkt gerist og hleypur stundum kapp í kinn.

Við viljum brýna fyrir keppendum og aðstandendum þeirra á að sýna dómurum og starfsmönnum móta virðingu og gæta kurteisi í samskiptum.

Hjálpumst að við að bæta menninguna í mótahaldinu og megi keppnissumarið verða farsælt og skemmtilegt.