Nú þegar ræktunartímabilið er að bresta á vill Félag hrossabænda minna á gátlista fyrir stóðhestahólf, en
þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og ábendingar varðandi stóðhestahald.
Nú þegar ræktunartímabilið er að bresta á vill Félag hrossabænda minna á gátlista fyrir stóðhestahólf, en
þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og ábendingar varðandi stóðhestahald.
Minnispunktar fyrir umsjónarmenn stóðhestahólfa
• Fjöldi hryssna hjá stóðhesti
➢ Æskilegur hámarksfjöldi hryssna sem hleypt er í hólf hjá stóðhesti þar sem tímabilið er 4-6 vikur
eru 25 hryssur.
➢ Þó um lengra tímabil sé að ræða er ekki æskilegt að fleiri en 30 - 35 hryssur séu hjá séu hjá
hestinum í senn.
➢ Ef hryssu er bætt inn í hóp hjá stóðhesti þarf að fylgjast mjög vel með því hvernig
stóðhesturinn tekur hryssunni en það getur verið mjög breytilegt milli stóðhesta.
➢ Hæfilegt er að nota hvern stóðhest á 50 – 60 hryssur á ári. Notkun þarf þó að taka mið af aldri
og ástandi hestsins. Ungfolum og gömlum hestum er ekki hægt að ætla sama fjölda og fullþroskuðum hestum í góðu formi. Yfirleitt
ná stóðhestar ekki fullri frjósemi fyrr en við 6 vetra aldur.
➢ Stóðhestar sem fá mikla notkun og eru notaðir í meira en einu gengi ættu að fá nokkra daga hvíld á milli
tímabila til þess að endurnýja krafta sína.
• Áreiti frá umhverfi
➢ Óæskilegt er að utanaðkomandi hross komist að stóðhestagirðingu, en það getur haft mjög truflandi áhrif
á stóðhestinn og jafnvel skapað hættu á að hross fari í eða á girðingar.
• Beit
➢ Grundvallaratriði er að beitin endist allt tímabilið og sé það góð að hún dugi hryssum til viðhalds og
mjólkurmyndunar og folöldum til eðlilegs þroska. Verði afturkippur í fóðrun hrossanna getur það haft neikvæð áhrif á
frjósemina.
➢ Ástand hólfsins ætti aldrei að fara niður fyrir ástandsflokk 2 samkvæmt riti Landgræðslunnar og Rala
“Hrossahagar”.
➢ Góður kostur getur verið að bjóða upp á hey með beitinni en það eykur fjölbreytni fóðurs og léttir
beitarálagið.
➢ Nauðsynlegt er að hrossin hafi aðgang að salti.
➢ Nánari leiðbeiningar um landgæði fylgja í viðauka sem birtur er á heimasíðu Fhb.
➢ Héraðsfulltrúar Landgræðslunnar eru fúsir að veita leiðbeiningar um beitarmál.
• Vatn
➢ Vatn þarf að vera í nægilegu magni, hreint og ómengað. Því er best að rennandi vatn sé í hólfinu,
ekki treysta á tjarnir, skurði eða dý.
• Girðingar
➢ Yfirfara þarf allar girðingar svo tryggt sé að þær þjóni tilgangi sínum og/eða valdi ekki slysum.
Í reglugerð nr. 748/2002 er kveðið á um hvaða lágmarks skilyrði girðing þarf að uppfylla til þess að teljast fullnægjandi
varsla fyrir hross.
• Hættur
➢ Tryggja þarf að ekki finnist hættur í hólfinu s.s. gamlar girðingadræsur, dý eða jarðföll.
➢ Ef skurðir eru í hólfinu þarf að meta hvort þeir séu hættulausir, annars að girða þá af.
• Ormalyfsgjafir
➢ Æskilegt er að öll hross fari ormahreinsuð í stóðhestahólf. Það dregur verulega úr ormasmiti í
haganum.
➢ Þrátt fyrir að ormalyf sé gefið áður en hrossum er hleypt í hólfið er nauðsynlegt að gefa folöldum og
hryssum ormalyf þegar þau koma heim úr stóðhestahólfum.
• Merking hrossa
➢ Öll hross sem koma í hólfið ættu að vera einstaklingsmerkt.
➢ Þó að folöld séu merkt er það góð regla hjá stóðhesthaldara að skrá niður kyn og
litareinkenni þeirra.
• Stóðhestaskýrslur
➢ Stóðhestaskýrslur og fyljunarvottorð frá BÍ eru góð form til að halda utan um skráningu á hryssunum
og niðurstöðum sónarskoðana.
➢ Skýrslunum er hægt að skila inn til næsta búnaðarsambands til skráningar í WorldFeng.
• Eftirlit
➢ Umráðamenn stóðhesta skulu hafa daglegt eftirlit með stóðhestahólfum, enda er kveðið á um það í
aðbúnaðarreglugerð fyrir hross (reglugerð 160/2006 um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa). Umráðamenn stóðhesta bera
með því ábyrgð á að hross sem verða fyrir áreiti eða slysum í slíkum girðingum séu tekin frá og eigendum
þeirra gert viðvart. Eigendur skulu sjá til þess að slösuð hross fái þá meðferð sem nauðsynlegt er.
➢ Fylgjast skal með heilbrigði hrossanna og að nægt framboð sé af fóðri og drykkjarvatni.
➢ Fylgjast þarf með atferli hrossanna því hegðun einstakra hryssna í hólfinu getur valdið verulegri truflun fyrir
stóðhestinn og hamlað því að fyljun verði eðlileg í hólfinu.
➢ Ekki er ráðlegt að setja hryssur í stóhestahólf sem ekki hafa haldið undangengin 1-2 ár án
dýralæknisskoðunar.
• Samningar
➢ Góð regla er að gera skriflega samninga þegar stóðhestar eru teknir á leigu. Þar komi skýrt fram
ákvæði um verð og ábyrgð, hámarksfjölda hryssna og annað er leigunni tengist.
• Ábyrgð
➢ Algengast er að hryssur séu á ábyrgð eigenda sinna í stóðhestahólfum.
➢ Umsjónarmaður stóðhestahólfs getur þó verið skaðabótaskyldur ef um tjón er að ræða,
verði hann uppvís að vítaverðu gáleysi sem brýtur í bága við reglugerð um aðbúnað hrossa.
Gátlisti þessi er gerður að vori 2007 í samstarfi fulltrúa Félags hrossabænda, Bændasamtaka Íslands, Hólaskóla,
Landbúnaðarstofnunar, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.