Hvað er félagshesthús?
Hugmyndin á bakvið félagshesthús er að auðvelda aðgengi að hestamennsku fyrir þá sem hafa ekki tök, vilja eða getu til að reka sjálfir hesta og/eða hesthús. Félagshesthús er staður þar sem þátttakendur stunda hestamennsku undir leiðsögn starfsmanns. Með þessum hætti þarf þátttakandinn ekki að eiga hest, hesthús, hnakk né annan búnað nema mögulega eiginn öryggisbúnað. Þetta fyrirkomulag hentar ákaflega vel þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestamennsku og hafa lítið hestatengt bakland, hvort sem umræðir barn eða fullorðinn einstakling.
Nú þegar eru starfrækt nokkur félagshesthús á Íslandi. Starfsemi þeirra er almennt með svipuðum hætti. Starfsárið miðast við skólaárið, hefst að hausti og lýkur að vori. Þátttakendur mæta einu sinni til tvisvar í viku að meðaltali. Þá læra þau um umhirðu auk þess sem þau fá tækifæri til þess að ríða út og stunda hestamennsku með flestu sem því fylgir.
Með því að taka þátt í félagshesthúsi greiðir þátttakandinn fast verð fyrir hverja önn/tímabil líkt og tíðkast í öðrum íþróttagreinum.
Fyrirkomulag félagshesthúsa
Nokkur hestamannafélög reka félagshesthús fyrir börn. Þau eiga það sammerkt að þar hafa þátttakendur aðgang að hestum, leiðbeinendum og búnaði. Hesthúsin eru ýmist í eigu hestamannafélagsins, sveitarfélag eða leigð af einstaklingum. Einn til tveir starfsmenn sinna daglegum rekstri hússins og hrossanna. Hestarnir eru ýmist í eigu reiðskóla, hestaleigu eða einstaklinga sem lána eða leigja hesta til verkefnisins.
Reiðtygi eru almennt eign hestamannafélagsins, en í flestu tilfellum er gert ráð fyrir að þátttakendur mæti með eiginn öryggisbúnað.
Þátttakendur í félaghesthúsi mæta einu sinni til tvisvar í viku og taka þátt í starfinu líkt og á við um hefðbundið íþróttastarf.
Einkaaðilar hafa einnig boðið upp á svipuð verkefni undir yfirskriftinni útreiðarhópar eða hestur í fóstur. Þar eru það aðilarnir sjálfir, yfirleitt hestaleigur eða reiðskólar sem bjóða fullorðnum knöpum að koma reglulega í útreiðartúr og fá tækifæri og grunn til þess að verða sjálfstæðari í sinni hestamennsku. Langtíma markmið er gjarnan að þátttakendurnir fari sjálfir í hestana. En þetta fyrirkomulag hentar líka þeim ákaflega vel sem vilja vera í hestum án frekari skuldbindinga.
Að reka félagshesthús – hvernig hefst það?
1. Finna góðan hestakost
Hestakosturinn í félagshesthúsi þarf að taka mið að þeim þátttakendum sem þar gert er ráð fyrir. Í ljósi þess að almennt er um að ræða þátttakendur sem hafa lítinn bakgrunni í hestamennsku þurfa þetta fyrst og fremst að vera geðprýðishross sem þola áreiti í umhverfinu og geta verið þátttakendum góðir kennarar. Slík hross eru einkar verðmæt og ekki alltaf hlaupið að því að fylla hús af svona hestum. Því er um að gera að reyna að vera í samstarfi við hestaleigur og reiðskóla og fá að nýta hestakost sem gjarnan er í minni brúkun á veturna í félagshesthúsin. Þá er einnig möguleiki á leigja eða fá lánaða hesta hjá félagsmönnum.
- Samvinna við hestaleigu
- Samvinna við reiðskóla
- Lánað frá félagsmönnum
- Þátttakendur koma með eigin hest
2. Finna hentugt húsnæði – ekki endilega þarft ef t.d. reiðhöll er til taks
Húsnæðismál fara eftir því hvaða rekstrarleið er valin. Einfaldasta fyrirkomulagið þar sem aðallega er einblínt á útreiðar og þjálfun er að þátttakendur eða starfsmenn sæki hestana og hittist með þá inn í reiðhöll eða við æfingagerði. Þar eru hestarnir undirbúnir fyrir verkefni dagsins og þeim svo skilað aftur í sín heimahús að æfingunni lokinni. Í öðrum tilfellum er hægt að vera í samstarfi við hestaleigu eða reiðskóla og nýta þá aðstöðu sem fyrir er og í þriðja aðferðin er að hestamannafélagið kaupi eða leigi hesthús undir starfsemina. Þau hestamannafélög sem hafa farið þessa leið hafa fengið styrk frá sveitarfélaginu til að standa undir kostnaði.
- Hesthús leigt undir starfsemina
- Hestarnir sóttir úr húsum eigenda sinna, safnað í eitt hesthús eða reiðhöll á meðan á starfinu stendur.
- Hesthús eða aðstaða hestaleigu/reiðskóla leigð.
3. Búnaður
Öll reiðtygi og annar nauðsynlegur búnaður þarf svo vel megi vera að ýmist að vera eign hestamannafélagsins eða hestaleigunnar sé slíku samstarfi fyrir að fara. Oft er mikið til af búnaði í hesthúsahverfunum og auðvelt að koma upp nægu magni með því að auglýsa eftir reiðtygjum. Í sumum félagshesthúsum hefur einnig verið stefna að allir ríði út í sambærilegum hnökkum. Félagshesthúsið þarf að vera með öryggisbúnað í boði þó svo að eðlileg krafa sé að þátttakendur kaupi sér sjálfir hjálma og brynjur séu þær notaðar. En það að þátttakandi gleymi hjálminum sínum heima ætti ekki að útiloka hann frá reiðtíma dagsins.
- Fá lánað frá hestaleigu/reiðskóla
- Reiðtygi fylgja hverjum hesti
- Hestamannafélagið kaupir/óskar eftir styrkjum.
4. Starfsmenn
Umsjónarmenn og/eða þjálfarar sem koma að félagshesthúsum þurfa að hafa reynslu af því að vinna með börnum og unglingum. Þessir aðilar skulu vera skimaðir áður en þeir taka til starfa. Þá skulu skýrar reglur vera um starfsemina. Vinnuframlag og greiðslur fara að sjálfsögðu eftir umfanginu. Í mörgum tilfellum er greitt fyrir umsjón með félagshesthúsinu með stíuplássi. Hafa skal í huga að tveir starfsmenn séu ávallt á staðnum þegar þátttakendur eru í hesthúsinu eða í reiðtúrum. Mikill kostur ef starfsmaðurinn er með menntun sem nýtist í starfinu auk þess sem mikil reynsla á sviði hestamennsku er skilyrði.
- Fer að miklu leyti eftir umfangi starfseminnar en tryggja þarf að starfsmaðurinn hafi reynslu og þroska til að bera ábyrgð á ungu fólki og misreyndu í kringum hesta.
- Aldrei skyldi vera einn starfsmaður með hóp.
- Menntun og reynsla af hestum mikilvæg.
Samskipti og utanumhald
Starfsmenn/leiðbeinendur sjá um að tengja saman hópinn gjarnan í gegnum facebook. Þar geta umsjónarmenn, foreldrar og þátttakendur átt samskiptum og skipst á upplýsingum. Það skiptir miklu máli að skipulagið sé allt skýrt í upphafi sér í lagi ef skipulagði gerir ráð fyrir þátttöku foreldrana í rekstri félagshesthúsins.
Þá þarf opnunartími félagshesthúsins að vera skýr, hvenær ætlast sé til að búið sé að sinna gjöfum og hvenær á að vera komin ró í húsið.
Þá er mikilvægt að hvetja þátttakendur til þátttöku í öðru starfi innan félagsins svo sem námskeiðum, viðburðum og keppni.
Starfsemin í félagshesthúsum er viðlíka og starfsemi annarra íþrótta, því er mikilvægt að umsjónarmenn kynni sér stefnu og viðbragðsáætlun ÍSÍ. Þátttakendur eru alltaf fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og skulu vera tryggð í gegnum tryggingar foreldra, t.d frístundatryggingu.
Tímabilið
Best er að miða starfið við skólaárið eins og gert er í öðrum íþróttagreinum. Starfsemin ætti að byrja að hausti helst strax í september og vera líkt og skólinn fram á vor.
Tekjur og kostnaður
Tekjur og kostnaður við reksturinn fer að miklu leyti eftir því fyrirkomulagi sem unnið er út frá í hverju tilfelli fyrir sig.
Mögulegir kostnaðarliðir:
Kaup eða leiga á hestum
Leiga á aðstöðu
Hey/annað fóður
Spænir
Vinna við gjafir
Starfsmaður/utanumhald
Reiðkennari/leiðbeinandi
Reiðtygi
Járning
Dýralæknar
Snarl fyrir þátttakendur (getur verið gott ef þátttakendur eru að koma beint úr skólanum)
Tekjur
Þátttökugjöld
(vinnuframlag sjálfboðaliða)
Styrkir
Leiðir til að mæta kostnaði:
Hægt er að virkja félagsmenn og sjálfboðaliða til ýmissa starfa í kringum rekstur félagshesthúss, t.d. járningar, morgungjafir, umsjón með fasteign og fleira þess háttar. Þá er víða mögulegt að kalla eftir þátttöku foreldra til dæmis með því að tileinka hverri fjölskyldu að sinna hesthúsinu með reglulegum hætti. Þetta fer auðvitað eftir fyrirkomulaginu og umfangi félagshesthúsins. En í sumum tilfellum eru það þátttakendur og foreldra sem sjá um alla hirðingu á hestinum en í öðrum tilfellum fá þau úthlutað t.d. einum degi einu sinni á önn þar sem fjölskyldan sér um að setja út, moka og gefa kvöldgjöf. Passa verður þó að þetta sé ekki skylda þar sem bakland þátttakenda getur verið misjafnt.
Ávinningurinn
Með því að bjóða upp á fyrirkomulag eins og félagshesthús er hægt að opna leiðina fyrir nýliða inn í hestamennskuna. Það er mikilvægt fyrir framþróun greinarinnar að þátttakendur sem hafa ekki endilega bakland geti stigið sín fyrstu skref í íþróttinni undir leiðsögn. Með þátttöku ungmenna í félags hesthúsum hafa oftar en ekki fleiri úr fjölskyldunni fylgt í kjölfarið.
Áskoranir
Kostnaður við rekstur félagshesthúsa er töluverður. Hestamannafélögin þurfa því að vera klók í að sækja um styrki frá sveitarfélögunum eftir því sem við á. Flest sveitafélög bjóða upp á frístundar ávísun sem kemur til niðurgreiðslu kostaðar þátttakenda í starfinu og þarf að hafa í huga að verðleggja starfið þannig að það fjárhagslegt bakland foreldrana komi síður niður á möguleikum barna og unglinga til þátttöku. Samstarf við félaga í hestamannahverfinu, reiðskóla og hestaleigur getur haft mikið að segja.
Hér má finna samantekt um félagshesthús frá 2020
Hestaval í Grunnskóla Grundarfjarðar í nóvember 2020