Dýravelferð

Dýravelferð

Því fylgir mikil ábyrgð að vera hestamaður og ætti velferð hestana alltaf að vera grunnstefið í hestamennskunni. Miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum þegar kemur að þekkingu og rannsóknum á atferli og líðan hrossa og er mikilvægt að við stefnum alltaf að því að gera betur.

Ræktunarmarkmið íslenska hestsins ,,miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan reiðhest – hraustan íslenskan hest.“

Hestavelferð er undirstaða þess að hestamennskan geti þróast sem íþróttagrein til framtíðar. Hver sá sem stundar útreiðar ætti að hafa hestvæna og sanngjarna reiðmennsku að leiðarljósi. Hólaskóli og LH gerðu með sér samkomulag um stóraukið samstarf haustið 2023 en skólinn hefur verið brautryðjandi í námi og rannsóknum á sviði reiðmennsku á íslenska hestinum og hefur það að markmiði að efla námið og rannsóknirnar enn frekar. 

Þá tók LH undir yfirlýsingu alþjóðasamtaka íslenska hestins, FEIF, sem gefin var út árið 2021 og fordæmir slæma meðferð á hryssum við blóðtöku, styður ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (e. European Commission) um að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG og styður aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að stöðva blóðtöku úr hryssum á Íslandi.

Við hvetjum alla hestamenn til þess að kynna sér Lög um velferð dýra og reglugerð um velferð hrossa

Höldum áfram að gera vel, hestinum og hestamennskunni til framdráttar.