Siðareglur LH

Siðareglur Landsambands hestamannafélaga

  1. Hlutverk

Hlutverk siðareglna þessara er að veita þeim sem koma að starfi Landsambands hestamannafélaga (LH) og þeirra sem eru í LH almennar leiðbeiningar þegar kemur að því að gæta siðferðislegrar ábyrgðar og eins að gera þeim grein fyrir þeim skuldbindingum sem fylgja þátttöku í starfi sambandsins. Þær eru hluti af þeim anda sem við viljum að sé ríkjandi í okkar störfum. Þær eru ekki tæmandi, heldur leiðbeinandi og hvetjandi.

  1. Gildissvið

Siðareglur þessar eiga við um alla fulltrúa og starfsmenn Landsambands hestamannafélaga í öllum þeim verkefnum sem þeir taka þátt í fyrir hönd LH, og í öllu starfi undir hatti þess. Til fulltrúa og starfsmanna teljast allir stjórnar- og nefndarmenn sambandsins, starfsfólk þess og iðkendur í aðildarfélögum LH og aðrir þeir sem koma að starfi og verkefnum LH.

Knapar og starfsmenn í landsliðshópi og landsliði undirgangast agareglur landsliðsnefndar og reglur um keppnisferðir sem byggja m.a. á þessum siðreglum.

Reglurnar skulu kynntar þeim sem undir þær falla og vera aðgengilegar á vef LH.

  1. Markmið

Markmið siðareglna þessara er að tryggja að störf okkar séu stunduð af heilindum og að orðspor LH og hagaðila okkar sé í heiðri haft. Þessu markmiði náum við með því að hvert og eitt okkar axli ábyrgð á því að heiðarleiki, sanngirni og gagnkvæm virðing einkenni samskipti og framkomu okkar.

  1. Reglur um hegðun

Við leggjum áherslu á fagmennsku, heiðarleika og sanngirni í þeim verkefnum sem við tökum að okkur og samskiptum sem við eigum fyrir hönd LH.

Við sýnum og berum virðingu fyrir hvort öðru, umhverfi, dýrum, samstarfsaðilum, búningum og öðru er við kemur starfsemi LH í verkefnum þess.

Við berum virðingu fyrir tíma hvors annars og mætum á réttum tíma í verkefni og fundi á vegum sambandsins.

Við virðum mannréttindi í hvívetna. Við mismunum ekki vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, félagslegrar stöðu, skoðana eða annars.

Einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og önnur ósæmileg hegðun innan sambandsins, verður ekki liðin.

Við gætum fyllsta trúnaðar og þagmælsku um öll þau atriði sem við fáum vitneskju um og ber að fara með sem trúnaðarmál.

Við gætum þess að okkar eigin hagsmunir eða hagsmunir aðila okkur nákomnum hafi ekki áhrif á ákvarðanir okkar á vettvangi félagsins.

Við þiggjum hvorki gjafir eða hlunnindi sem geta leitt til þess að rýra trúverðugleika, sjálfstæði eða hlutleysi þitt.

Við kynnum okkur vel þessar siðareglur svo við getum eflt velgengni í leik og starfi LH.

  1. Tilkynning um brot og viðurlög

Hafi einhver grun um ósæmilega hegðun eða brot gegn reglum þessum, ber viðkomandi að gera formlega viðvart og leita til formanns, eða framkvæmdastjóra LH. Allar ábendingar um brot verða teknar alvarlega.

  1. Samþykkt og gildistaka

Siðareglur þessar eru settar með stoð í 1.2 grein laga LH. Þær voru samþykktar á fundi stjórnar þann 31. október 2024 og tóku gildi þá þegar.