Fjölgar um 10% milli ára

14.10.2024

Nú á dögunum birtist ný tölfræði yfir aldurs og kynjaskiptingu þátttakenda í íþróttastarfi á vegum ÍSÍ. Landssamband hestamannafélaga er fjórða stærsta sérsambandið með alls 13697 skráða þátttakendur árið 2023 og fjölgaði þeim um 10 prósent á milli ára og er það mesta fjölgunin innan 10 stærstu íþróttagreinanna.

Ef litið er til þátttöku kynjanna, 18 ára og eldri eru 4690 konur sem stunda hestamennsku og 4642 karlmenn. Ef við lítum hins vegar á yngri en 18 ára þá eru 2933 stúlkur sem stunda hestamennsku og 1429 drengir. En fá sérsambönd geta státað af jafn jöfnu kynjahlutfalli heilt yfir líkt og LH. 

Hestamennskan hefur einnig einna jafnasta hlutfall milli þátttakenda undir 18 ára aldri og yfir en 68% þátttakenda er kominn á fullorðins aldur og 32 er á barnsaldri. Einungis Blaksambandið er með jafnari tölfræði með 54% þátttakenda yfir 18 ára aldri.

Hafa skal í huga að þessi tölfræði nær einungis yfir þá hestamenn sem skráðir eru í hestamannafélög, en líklegt er að  fjöldinn allur stundi hestamennsku að staðaldri án þess að vera með virka félagsaðild og hvetjum við auðvitað alla hestamenn að tryggja að þeir séu skráðir í félag.

Skoða má samanburð gagna hér: Samanburður gagna 2023 - 2022 (isi.is)