Frá formanni LH

18.10.2024

Frá því að ég hóf að starfa fyrir hestafólk fyrir um sjö árum, fyrst í landsliðsnefnd og síðar sem formaður LH, hef ég lagt nánast allan þann tíma sem ég hef átt aflögu í það að reyna að vinna hestafólki og hestaíþróttinni í sínum víðasta skilningi, gagn. Ég hef starfað af heiðarleika, einurð og samviskusemi að framgangi hestamennskunnar í landinu öllu og kappkostað að hafa fagmennsku, samvinnu og sátt sem meginstef í starfi mínu, eins og í lífinu.

Ég hef gefið það út að ég sé tilbúinn til að leiða okkar mikilvægu samtök áfram og á von á því að þingfulltrúar á landsþingi sýni mér það traust að veita mér áframhaldandi brautargengi til þeirra starfa.

Þó að ég telji næsta víst að flest hestafólk þekki til verka minna og minna stjórna á undanförnum árum þá tel ég ekki óeðlilegt að stinga niður penna í aðdraganda landsþings og stikla þar á því helsta sem upp kemur í hugann. Slík upptalning verður þó aldrei annað en stutt yfirlit af því helsta og augljóst að eitthvað gleymist, enda verkefnin óteljandi.

Samstaða og samvinna

Í gegn um tíðina hefur fólki verið tíðrætt um sundrungu innan hreyfingarinnar. Ég hef í störfum mínum lagt áherslu á að sameina hestafólk um land allt og draga ekki taum eins hóps frekar en annars. Þeir sem mig þekkja vita að ég er bæði fastur fyrir en einnig afar lipur samningamaður, enda starfað við samningagerð í 20 ár við góðan orðstýr.

Stór liður í þessu er sú nýlunda sem ég kom á og fólst í því að formaður og stjórn fari í reglulegar fundaferðir um landið þar sem við hittum stjórnarfólk í hestamannafélögunum, segjum frá starfi sambandsins og hlustum eftir því hvað brennur á félögunum vítt og breytt um landið.

Ég held að flest séum við sammála um að sjaldan hafi verið uppi jafn mikil sátt og samstaða innan LH eins og nú. Sundrung og óeining er það síðasta sem hestafólk þarf á að halda og hef ég ekki minnstu trú á að það sé vilji hins almenna hestamanns í landinu.

Afreksmál

Eins og áður segir þá kem ég fyrst inn í starf LH í gegn um landsliðsnefnd, haustið 2017. Ég er ekki viss um að margir átti sig á þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur á þeim vettvangi frá þeim tíma sem liðinn er. Vissulega hafði verið unnið frábært starf í landsliðsnefnd og landsliðin okkar oft náð góðum árangri undir stjórn góðra þjálfara. Þegar ég kom í landsliðsnefnd var starfrækt landslið í kring um stórmót og en ekki hafði verið byggt upp markvisst afreksstarf á ársgrundvelli. Afrekshópur yngri knapa hafði verið settur á laggirnar en var heldur illa sóttur, einhverra hluta vegna. 

Á sama tíma tilkynnti Afrekssjóður ÍSÍ um að LH hefði verið fært niður í C flokk þróunarsambanda og að afreksstyrkir sambandsins yrðu mjög lágir. Þar var þetta, eitt stærsta sérsamband landsins komið í hóp með mörgum af minnstu sérsamböndum og var uppgefin ástæða sú að lítið sem ekkert formlegt afreksstarf væri í gangi hjá sambandinu.

Niðurstaða þeirrar vinnu sem ráðist var í á þessum tíma var að endurskipuleggja afreksstarf LH frá a-ö. Mikilvægur þáttur í því var að endurhugsa stöðu knapa í landsliðinu. Sett voru á stofn tvö landslið sem störfuðu á árs grundvelli. A-landslið og U-21 árs landslið. Megin breytingin fólst þó í því að fókusinn var settur á knapann sem íþróttamann. Leitað var í smiðju annarra íþrótta hvað þetta varðar, öll aga- og hegðunarviðmið sett til samræmis við aðrar íþróttagreinar og áhersla lögð á virðingu fyrir sjálfum sér, liðsfélögum, starfsfólki og þjálfurum auk þess sem andleg og líkamleg heilsa knapa var sett í forgrunn.

Árangurinn af þessu starfi hefur skilað undraverðum árangri og má segja að í dag séu starfræktir þrír afreks- eða landsliðshópar á árs grundvelli.

Fyrst er að nefna hæfileikamótun LH sem er hugsuð fyrir efnilega keppnisknapa á aldrinum 14-17 ára. Ásókn í starfið hefur farið stigvaxandi og er nú kennt í tveimur hópum. Vetrastarf hæfileikamótunar hefst á ferð á Hóla þar sem hópurinn fær innsýn inn í námið þar, sýnikennslu og reiðkennslu hjá kennurum skólans.

Markmið hæfileikamótunar LH er að hjálpa þeim að verða betri þjálfarar og reiðmenn en einnig að kynnast landsliðsumhverfinu og verða að flottum fyrirmyndum fyrir aðra unga knapa.

Þátttakendur úr hæfileikamótun eru þegar farin að skila sér inn í afreksumhverfið og vakti það athygli á Landsmótinu í sumar hversu stór hluti knapa í úrslitum í unglingaflokki eru þátttakendur í hæfileikamótun. Einnig verður að hrósa uppeldisstarfinu í félögunum og sá metnaður sem augljóslega er settur í barna- og unglingastarf hestamannafélaganna er að skila sér í þessum miklu framförum sem hafa átt sér stað í yngri flokkum. Kynslóðabilið verður sífellt minna þar sem okkar yngstu keppendur eru þegar farnir að narta í hælana á eldri og reynslumeiri knöpum. Að byggja upp afreksstarf í íþróttum er flókið og vandasamt verk. Hvað þá í íþrótt þar sem ekki einungis þarf að hafa í huga að efla og styrkja knapann heldur líka hestinn. Á þessu móti sannaðist það að með markvissu og metnaðarfullu starfi er hægt að byggja undir heimsklassa árangur. Yfirþjálfari hæfileikamótunar er Sigvaldi Lárus Guðmundsson.

Hér eru nokkur mögnuð dæmi af árangri knapa hæfileikamótunar í unglingaflokki í sumar:

LANDSMÓT
13 af 15 knöpum í úrslitum
22 af 30 knöpum í milliriðli

ÍSLANDSMÓT
T1 - 10 efstu
V1 - 10 efstu
T4 - 9 af 10 efstu
F2 - 9 af 10 efstu
PP1 - 8 af 10 efstu
100m. - 9 af 10 efstu
Gæðingatölt 9 af 10 efstu

RVK. MEISTARAMÓT
T3 - 10 efstu
V2 - 10 efstu
T4 - 5 af 6 efstu
F2 - 4 af 6 efstu
PP1 - 8 af 10 efstu
P2 - 9 af 10 efstu

U21 starfið undir stjórn Heklu Katharínu Kristinsdóttur hefur einnig skilað gífurlegum árangri og sést það til að mynda á árangri U21 landsliðsins á nýafstöðnu Norðurlandamóti. Þar vöktu ungmennin verðskuldaða athygli fyrir frábæran árangur, öll á lánshestum fyrir utan einn knapa. Okkar ungu knapar á mótinu voru í hvívetna dásömuð fyrir seiglu og reiðmennskuhæfileika en þau náðu víðast hvar að blanda sér í toppbaráttuna og voru alls staðar til fyrirmyndar bæði innan og utan vallar. Árangurinn talar sínu máli með 3 gull, 6 silfur og 3 brons í ungmennaflokki mótsins.

Þá átti U21 landsliðið gífurlega gott mót á HM 23 þar sem allir keppendur komust á pall og allir nema einn lönduðu heimsmeistaratitli í sinni grein og skyldu hreinlega aðrar þjóðir eftir.

A- landslið Íslands undir stjórn Sigurbjörns Bárðarsonar er flaggskip afreksstarfsins og hefur náð undraverðum árangri og eru framfarir undanfarinna ára augljósar. Á HM23 í Hollandi náði A-landsliðið lang besta árangri sem íslenskt lið hefur náð á HM hingað til. Árangur liðsins er ekki hvað síst eftirtektarverður fyrir þær sakir að nær allir knapar liðsins voru að keppa á sínum fyrstu heimsleikum í fullorðins flokki. Þetta sýnir þá breidd sem við höfum yfir að ráða og einnig að nýliðun í afreksstarfinu er farin að skila sér upp á hæsta stig. Ég tel ljóst að við séum rétt farin að sjá glitta í þær framfarir sem eiga eftir að eiga sér stað á næstu árum.

Það er ekki hægt að nefna afreksstarfið öðruvísi en að minnast á þá fagmennsku, liðsheild, gleði og samheldni sem einkennir liðin okkar. Rétt er að nefna líka þátt landsliðsnefndar, en án slíkra sjálfboðaliða værum við klárlega ekki að tala um svo glæstan árangur sem raun ber vitni.

Landsmót

Þegar ég tók við sem formaður voru nokkrir reynslumeiri einstaklingar gjarnir á að benda mér á að það væri lítið mál að vera formaður þangað til kæmi að umræðum um næstu landsmótsstaði. Raunin varð hins vegar sú að búið er að úthluta og semja um landsmótsstaði til næstu ára og það í nær fullkominni sátt. Þetta getur eingöngu gerst með því að halda uppi virku samtali, hlusta á vilja félagsmanna og ná sátt um málin fyrirfram.

Landsmót í Víðidal s.l. sumar var án nokkurs vafa eitt glæsilegasta landsmót sem haldið hefur verið! Þar sneru tvö stærstu hestamannafélög landsins saman bökum eftir að í ljós kom á vormánuðum að hestamannafélagið Sprettur treysti sér ekki til að halda mótið á félagssvæði sínu. Það var aðdáunarvert að sjá samstöðu félagsmanna þegar þessi staða kom upp undir styrkri forystu formanna og stjórna félaganna.

Landsmót er einn stærsti íþrótta- og menningarviðburður sem haldinn er hér á landi! Landsmót eru fjöregg okkar hestafólks sem við þurfum að hlúa vel að um ókomna tíð.

Það sýndi sig á landsmóti að áhugi á hestamennskunni eykst með hverju árinu. Sjaldan hafa jafn margir mætti á mótið, en talið er að 10.000 manns hafi setið í brekkunni þegar mest var. Þá eru ótaldir þeir sem horfðu á útsendingar RÚV og Alendis bæði innan lands og utan.

Stemmningin í þéttsetinni brekkunni var einstök! Í veðurblíðu er fátt eins dásamlegt eins og horfa á bestu gæðinga og knapa landsins sýna listir sínar. Stuðningurinn úr brekkunni, spennan og gleðin var allt að því áþreifanleg. Munu flestir þeirra sem þar sátu lifa á minningunni um þetta mót um ókomna tíð. Orkan sem stafaði frá mannfjöldanum þegar úrslit í tölti voru riðin í kvöldsólinni á laugardagskvöldinu var ógleymanleg, þvílík gleði og stemning!

Að öllu öðru ólöstuðu verður þó að segjast að það sem stóð upp úr eru stórkostlegar framfarir í yngri flokkunum, þar sem reiðfærni fjölmargra yngri keppenda var með þeim hætti að aldrei áður hefur annað eins sést. Er þar klárlega að þakka öflugu starfi innan hestamannafélaganna og almennt innan sambandsins.

Framkvæmd móta eins og t.d. Landsmóts væri ómöguleg nema vegna þess ótrúlega mannauðs sem býr í sjálfboðaliðum hestamannafélaganna.

Markaðs-, kynningar- og nýliðunarmál

Það er áskorun að ýta undir nýliðun i hestamennskunni þegar keppt er um um athygli og tíma fólks öllum stundum og úr öllum áttum, sér í lagi fyrir íþrótt eins og okkar sem er dýr og nokkuð óaðgengileg á margan hátt. Það voru því gleðitíðindi að sjá í nýútkominni tölfræði ÍSÍ að félögum í hestamannafélögum hefur fjölgað um 10% á milli ára. Er þetta mesta fjölgunin meðal 10 stærstu íþróttagreinanna ÍSÍ. Þá gleður það einnig hversu jöfn kynjaskipting er í íþróttinni okkar. Hestamennska er fjórða stærsta íþróttin, sé tekið mið af fjölda skráðra iðkenda, en gera má ráð fyrir að töluvert fleiri stundi hestamennsku en þeir sem skráðir eru í hestamannafélög landsins. 

Í sífellt hraðara umhverfi þar sem flæði upplýsinga er mikið þarf að halda vel utan um kynningarmál bæði til að ná til nýrra áheyrenda og þeirra sem hafa alla tíð haldið tryggð við hestamennskuna. Við hjá sambandinu höfum reynt að mæta þessu og hefur skrifuðum fréttum á heimasíðunni fjölgað um 40% á tímabilinu auk þess sem sýnileiki á samfélagsmiðlum hefur aukist um 200% og hlutfall þeirra sem opna síðu sambandsins á Facebook aukist um 500%.

Þá hef ég sem formaður, ásamt starfsfólki og öðrum, lagt mikla áherslu á sýnileika í fjölmiðlum og mætt á ófáa fundi með það að markmiði að koma hestaíþróttinni í almenna fjölmiðla. Hefur það tekist ágætlega og t.a.m. hefur RÚV verið með töluvert af beinum og óbeinum útsendingum frá mótum okkar á undanförnum árum. Svo sem Íslandsmótum, Landsmóti, HM, Reykjavíkurmeistaramótum o.s.frv.

Þá hef ég sem formaður verið duglegur að mæta fyrir hönd okkar hestafólks í þau viðtöl í sjónvarpi, útvarpi og netmiðlum sem hægt hefur verið og aldrei skorast undan viðtölum þó oft á tíðum séu óþægileg eða erfið mál til umfjöllunar. Enda er það hlutverk formanns LH að vera talsmaður samtakanna og undir þeirri ábyrgð hef ég reynt að rísa.

Viðburðir eins og Miðbæjarreiðin sem ég stóð fyrir að endurvekja og hef barist fyrir með kjafti og klóm, t.d. gagnvart borgarskipulaginu, hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli en hefur jafnframt sýnt hversu mikilvægt er að við stöndum í lappirnar og gefum ekkert eftir í því að taka okkur rými.

Eitt af tækifærum okkar til að auka nýliðun í hestamennsku er í gegnum svokölluð félagshesthús. Nýliðunarnefnd tók saman hvernig þessu hefur verið háttað og birti samantekt sem var bæði send á formenn og birt á heimasíðu LH. Þá skiptir miklu máli að halda vel utan um æskulýðsmálin og er það ljóst af skýrslum æskulýðsnefnda að víða er ákaflega blómlegt barna- og æskulýðsstarf. Þá hafa ungir fulltrúar hestamannafélagana verið áhugasamir um þátttöku í erlendum verkefnum svo sem Youth Camp og Youth Cup sem haldin eru á vegum FEIF. Þá hefur æskulýðsnefnd LH hafið undirbúning og skipulagningu Youth Camp hér á landi næsta sumar.

Jafnrétti

Þegar ég bauð mig fyrst fram sagði formaður eins af stóru hestamannafélögunum að ég hefði flest til brunns að bera til að verða góður formaður, fyrir utan það að ég væri ekki kona. Ég svaraði að ég gæti líklega ekki breytt því en ég myndi sýna það að ég hefði jafnrétti í fyrirrúmi í öllum mínum störfum. Það hef ég gert. Ég hef kappkostað að reyna að leiðrétta þann kynjahalla sem í áratugi hefur einkennt viðurkenningar og heiðranir sambandsins. Í dag er stjórn LH í fyrsta skipti skipuð konum í meirihluta, bæði í aðal- og varastjórn, en ég hef verið duglegur að hvetja konur til framboðs. Konur eru í meirihluta í starfsliði sambandsins og svo mætti lengi telja. Ég tel kynjajafnrétti vera eitthvað sem alltaf þarf að hafa í huga, sér í lagi í stórum félagasamtökum og um það mun ég standa vörð, hér eftir sem hingað til.

Mótamál

Í fundarferð stjórnar um landið kom fram skýrt ákall frá hestamannafélögunum um að móta,- og dómaramál yrðu tekin fastari tökum innan sambandsins. Í framhaldinu var ráðinn sérhæfður starfsmaður móta,- og afreksmála. Hefur tilkoma starfsmannsins náð að auka verulega fagmennsku og stuðning við hestamannafélögin, bæði í mótahaldi og verið félögunum innan handar með aðstoð og ráðgjöf. Þá hafa verið haldnir fundir og kynningar fyrir mótshaldara sem nýst hafa vel. Hlutverk mótasviðs sambandsins er að vera þjónustuaðili við félögin í landinu með sérfræðiþekkingu á mótahaldi, regluverki og öðru tengdu mótamálum, ásamt því að vinna að stefnumótun í málefnum mótahalds í greininni til framtíðar, hafa yfirsýn yfir sviðið og vinna tillögur að endurbótum í hinum ýmsu málum tengdum mótahaldinu. Er þetta afar mikilvægt starf sem þarf að efla enn frekar á næstu árum.

Tölvu- og upplýsingamál

Á síðustu árum hafa orðið miklar og hraðar framfarir í stafrænni upplýsingagjöf til hestamanna undir forystu tölvunefndar. Má þar nefna samstarf við Horseday, Alendis, Eiðfaxa, framsetningu upplýsinga á skjám á landsmóti o.s.frv., allt með það fyrir augum að bæta upplýsingagjöf til hestafólks um allan heim. Enn er stefnt að miklum framförum og uppbyggingu á þessu sviði og er sú vinna í fullum gangi.

Öryggismál

Lögð hefur verið mikil áhersla á öryggismál í tíð núverandi stjórnar enda eru öryggismál okkur mjög mikilvæg. Eitt af því sem hefur vakið mikla athygli eru myndbönd öryggisnefndar en á árinu voru gefin út tvö slík. Annað um mikilvægi þess að yfirfara reiðtygi en hitt um mikilvægi þess að nýta þann öryggisbúnað sem í boði er, sérstaklega hjálma. Auk þess hefur Öryggisnefndin verið ötul í því að benda á þegar knapar án hjálma eru nýttir í auglýsingar eða sjónvarpsefni.

Þá hefur öryggisnefndin einnig gefið út viðbragðsáætlun vegna höfuðhögga sem framkvæmdaaðilum móta hefur verið kynnt og gæti átt eftir að koma í veg fyrir alvarlegan skaða sem hlotist getur af röngum viðbrögðum við slysum.

Ofbeldi og áreitni

Mikill tími og orka hefur farið í það að reyna að uppræta ofbeldi, einelti og annað áreiti innan hreyfingarinnar. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem eru flókin, erfið og oft á tíðum lítt skemmtileg. Þessi verkefni eru þó að sama skapi afar mikilvæg enda á það að vera krafa okkar sem samfélags að allir okkar iðkendur eigi að geta treyst því að geta stundað íþrótt sína án þess að eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi eða áreiti og að tekið sé hart á slíkum málum ef þau koma upp.

Alþjóðamál er sá málaflokkur sem oft gleymist en er engu að síður afar mikilvægt að sinna vel. Ísland á að vera í fararbroddi í alþjóðlegu umhverfi Íslandshestamennskunnar og mikilvægt að sinna því vel. Ég hef sem formaður lagt mikla áherslu á að byggja upp tengingar og sambönd á alþjóðasviðinu og tel að rödd okkar heyrist vel. Öflugt starf hefur verið á vegum formanna Norðurlanda, og höfum fundað nokkrum sinnum á árinu, síðast nú í byrjun október, til að undirbúa tillögur fyrir FEIF-þing í janúar.

Betur má þó ef duga skal og er nú unnið að því hörðum höndum að styrkja stöðu Íslands enn frekar á alþjóðavettvangi og byggja á þeim samböndum sem hafa myndast.

Reiðvegamál

Hestamennska er ekki bara stunduð af keppnisknöpum. Langflestir félagsmenn í hestamannafélögunum eru það vegna ástríðu sinnar fyrir íslenska hestinum og almennum útreiðum, enda er hestamennska lífstíll og samofin menningu okkar.

Eitt það mikilvægasta fyrir okkur hestamenn er að standa vörð um reiðvegina okkar en þeir eru líkt og golfvellir golfarans. Þetta eru okkar íþróttamannvirki og ber að umgangast þá sem slíka. Það skiptir miklu máli að við hestamenn stöndum vörð um reiðgöturnar okkar en þar mætum við sífellt nýjum áskorunum og var því þátttaka formanns í samgönguþingi nú á haustdögum einkar mikilvægt innlegg í það samtal.

Samningur náðist einnig við Vegagerðina um lagningu reiðvega þar sem stofn- eða tengivegir eru lagðir bundu slitlagi. Samningurinn er tímamótasamningur sem mun án efa koma okkur hestamönnum vel.

Hestavelferð

Hestavelferð er undirstaða þess að hestamennskan geti þróast sem íþróttagrein til framtíðar. Hestavelferð þarf að endurspeglast í öllum okkar störfum og eru menntamálin þar ákaflega mikilvægur hlekkur. Menntanefnd LH hélt í samstarfi að Horses of Iceland námskeið sem rúmlega 400 manns sóttu þar sem fjallað var um ýmis málefni tengd hestavelferð. Það er okkar mat að LH þurfi að vera leiðandi í umræðunni um hestavelferð og vera í virku samtali með Háskólasamfélaginu um það sem betur má fara í þessum málaflokki.

Hólaskóli og LH gerðu með sér samkomulag um stóraukið samstarf haustið 2023 en skólinn hefur verið brautryðjandi í námi og rannsóknum á sviði reiðmennsku á íslenska hestinum og hefur það að markmiði að efla námið og rannsóknirnar enn frekar.

Við sem landssamband þurfum þó að gera enn betur á þessu sviði og setja fókusinn enn frekar á hestvæna og sanngjarna reiðmennsku í keppni. Það gerum við með meiri og betri menntun dómara þar sem það eru dómarar sem leggja línurnar og setja viðmiðin. Sett hefur verið af stað markviss og metnaðarfull vinna í þessu samhengi sem mun án efa skila okkur enn hraðari framförum í reiðmennsku og dómgæslu.

Kostnaður og rekstur

Ein af áskorunum þeirra sem standa að baki félagsstarfi líkt og haldið er úti á vegum hestamannafélagana er kostnaðarliðurinn. Nefnd á vegum stjórnar tók saman alla þá opinberu styrki sem hestamannafélögin geta nýtt sér og kynnti fyrir formönnum og gjaldkerum félagana með það fyrir augum hjálpa til við fjáröflun og nýjungar í starfinu.

Það er líka áskorun fyrir félag eins og LH að standa undir eins viðamiklu starfi og raun ber vitni. Í stjórn LH eru 12 einstaklingar sem sinna verkefnum sínum fyrir sambandið í sjálfboðavinnu auk þess sem það eru þrír starfsmenn á skrifstofu, þar af bara einn í 100% starfi. En til samanburðar má nefna að hjá þeim félögum innan ÍSÍ sem eru með álíka umfangsmikið starf, starfa á bilinu 5-9 starfsmenn og hjá þýska Íslandshestasambandinu IPZV starfa 9-10 manns.

Að lokum

Ég er stoltur af sambandinu okkar og tel að við eigum öll að vera það. Við getum borið höfuðið hátt. Það hefur margt áunnist þó að enn sé af nægu að taka og verkefnin fram undan mörg, krefjandi og spennandi.

Ég vil þakka frábærri og samheldinni stjórn fyrir sitt framlag í þágu okkar hestafólks. Öllu nefndafólki, en í nefndum sambandsins starfar mikill fjöldi fólks og leggur þar fram óeigingjarnt starf í þágu okkar allra.

Starfsfólk LH eru klettarnir sem halda starfinu gangandi og tel ég á engan hallað þó að ég leyfi mér að fullyrða að sjaldan eða aldrei hafi skrifstofa LH verið mönnuð jafn frábæru, duglegu og kláru starfsfólki.

Þá erum við einstaklega heppin með það fólk sem valist hefur til starfa fyrir landsliðin okkar, eins og árangur þeirra ber vitni um.

Stórt samband eins og LH getur ekki vaxið og dafnað nema þeir sem innan þess starfa séu boðnir og búnir til að leggja sitt af mörkum og tilbúnir til að nálgast verkefnin með jákvæðum og uppbyggjandi hætti. Við hestafólk erum heppin með að það hefur okkur tekist á undanförnum árum.

Í krafti samtakamáttarins eigum við eftir að byggja ofan á það góða starf sem verið hefur unnið og ná enn betri árangri á næstu árum!

Skrauthólum á Kjalarnesi
Guðni Halldórsson
Formaður Landssambands hestamannafélaga