Ljóð frumflutt í tilefni Landsmóts 2008

30.11.1999
Við mótsetningu Landsmóts 2008 frumflutti Steinunn Arinbjarnardóttir ljóð eftir föður sinn Arinbjörn Vilhjálmsson. Landsmót ehf. þakkar Arinbirni og Steinunni fyrir þeirra skemmtilega framlag og birtir ljóðið hér í heild sinni.Við mótsetningu Landsmóts 2008 frumflutti Steinunn Arinbjarnardóttir ljóð eftir föður sinn Arinbjörn Vilhjálmsson. Landsmót ehf. þakkar Arinbirni og Steinunni fyrir þeirra skemmtilega framlag og birtir ljóðið hér í heild sinni.

LANDSMÓT HESTAMANNA 2008

 

Nú komin er á keppnisvöll

um kvöld á úrvalshestum

sú hofmannlega hersing öll

er heilsar landsmótsgestum

og  óskar þess að eigi  þjóð

hér unaðslega  daga,

að ríki fjör og gleði góð

svo gangi allt án baga.

 

Nú  látum  rætast lífsins draum

sem leiddi skáldið forðum,

að finna í æðum  fjörsins straum

sem fæst vart lýst með orðum;

sem kóngar saman koma um stund

án kórónu en glaðir,

á sumarbjörtum sælufund

við saman þéttum raðir.

 

Og hlátrasköll og hófadyn

mun hátíð þessi bjóða.

Við hyllum íslenskt hestakyn,

já ! hestinn okkar góða.

Nú lífsfákinn skal leggja á skeið

svo líki mönnum öllum,

og glöð svo höldum heim á leið

frá Hellu á Rangárvöllum !

 

                                    Arinbjörn Vilhjálmsson