Þjálfarastig LH
Þjálfarastig LH eru nám þar sem hægt er að öðlast réttindi til þjálfunar í hestaíþróttum. Námið skiptist annarsvegar í almennan hluta sem ÍSÍ sér um og ber ábyrgð á og hinsvegar í sérgreinahluta sem LH ber ábyrgð á, en í samstarfi við Háskólann á Hólum sem ber ábyrgð á faglegu innihaldi námsefnis sem eru sértækir fyrir íþróttagreinina.
Stefna íþróttahreyfingarinnar er að hafa á að skipa nægilega mörgum menntuðum og hæfum þjálfurum, til að tryggja öllum iðkendum þjálfun við hæfi. Kröfur almennings um innihald og gæði þess starfs sem unnið er í íþróttahreyfingunni fara vaxandi, ekki síst vegna þess að þar fer fram þýðingarmikið uppeldisstarf. Íþróttaþjálfarar eru mikilvægir áhrifavaldar í lífi ungs fólks og því er brýnt að þeir afli sér menntunar. Með hugtakinu þjálfari er hér átt við hvern þann sem skipuleggur og stjórnar íþróttaæfingum. Nánar hér.
Aldurstakmörk á námskeiðin eru 16 ára á 1.stig, 18 ára á 2.stig og 20 ára á 3 stig.
Leiðir sem hægt er að fara
Þjálfarastig 1-3:
Þjálfarastig LH, sérgreinahluta, er hægt að taka með því að sækja námskeið í knapamerki 1-5. Til að ljúka almenna hluta ÍSÍ þarf að klára viðeigandi námskeið hjá ÍSÍ. Upplýsingar um námskeið á vegum ÍSÍ er hægt að nálgast á heimasíðu þeirra https://isi.is/fraedsla/thjalfaramenntun-isi/. Skila þarf inn staðfestingu að afloknum námskeiðum bæði knapamerkja og ÍSÍ hluta til skrifstofu LH eða á netfangið lh@lhhestar.is
- Hestamannafélögin: Hestamannafélögin geta boðið upp á nám í þjálfarstigum LH og bera þá ábyrgð á því að auglýsa námskeið og dagsetningar í báðum hlutum þ.e.a.s. annarsvegar Knapamerkjanámskeið (sérgreina hlutann) og hinsvegar ÍSÍ hlutann en það er möguleiki á því að það námskeið geti verið haldið sérstaklega fyrir þann hóp með áherslu á hestamennsku ef nægileg þátttaka næst, annars þarf að sækja námskeiðið í húsakynnum ÍSÍ eða í fjarnámi. Sérgreinahlutann er hægt að taka í gegnum almenn Knapamerkjanámskeið, stig 1-5. Ekkert knapamerkjanámskeið verður viðurkennt til þjálfarastigs nema það sé kennt af menntuðum reiðkennara sem viðurkenndur er af Háskólanum á Hólum og hann metinn hæfur til að kenna knapamerki 1-5.
- FT félagar: Atvinnumenn með Tamningapróf Félags Tamningamanna tekið fyrir 2005 og eru auk þess með að lágmarki 10 ára reynslu af atvinnugreininni geta sótt um að taka stöðupróf í knapamerki 3-5, bóklegt og verklegt. Stöðuprófin munu gilda fyrir sérgreinahluta á viðkomandi stigi. Þeir sem óska eftir að fara þessa leið þurfa að senda umsókn til skrifstofu LH með staðfestingu á tamningaprófi á netfangið lh@lhhestar.is Til að ljúka almenna hluta ÍSÍ er hægt að sækja námskeið á þeirra vegum þar sem fræðsluhluta ÍSÍ eru gerð skil. Best er að fá staðfestingu frá LH um rétt til stöðuprófs í Knapamerkjum áður en nám er hafið í ÍSÍ hlutanum. Skila þarf staðfestingu bæði vegna stöðuprófs Knapamerkja og fræðsluhluta ÍSÍ á skrifstofu LH sem gefur út þjálfaraskírteini LH. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á skrifstofu LH.
Hægt er að sækja um stöðupróf með því að smella hér.
- Framhaldsskólar: Sérgreinahluta þjálfarastiga er hægt að taka í framhaldsskólum ef þar eru kennd öll stig Knapamerkja. Ákveðnir íþróttaáfangar innan framhaldsskóla eru metnir til almenna hluta ÍSÍ. Þegar sótt er um nám í almenna hluta ÍSÍ þarf staðfesting á loknum áföngum í framhaldsskóla að fylgja með umsókn. Einnig er hægt að taka almenna hluta á námskeiðum hjá ÍSÍ.
Þjálfarastig 1-5 í Háskólanum á Hólum:
- Nemendur við Háskólann á Hólum fá þjálfarastig 1-3 metin eftir fyrsta árið.
- Nemendur sem útskrifast með BS gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu eftir þriggja ára nám (180 ECTS) fá þjálfarastig 4 og 5 og fá þá réttindi til að kenna og leiðbeina í sérgreinahluta á öllum þjálfarastigum og geta jafnframt sinnt stöðu yfirreiðkennara og yfirþjálfara á námskeiðum á vegum LH.
Endurmenntun
- Til þess að fá nýtt þjálfaraskírteini með endurnýjuðum þriggja ára gildistíma, þarf að sýna fram á að lokið hafi verið að lágmarki 16 tímum í endurmenntun á síðastliðnum þremur árum.
- Þjálfarar þurfa sjálfir að sýna fram á endurmenntun og skila inn viðeigandi gögnum til skrifstofu LH.
- Endurmenntunarnámskeið á vegum LH verða birt á heimasíðu LH undir „Menntun“
- Einnig býður ÍSÍ upp á endurmenntun
- Ef þú ert í vafa um hvað telst endurmenntun hafðu þá samband við Menntanefnd LH.
Skráning og skil
- Þjálfaraefnið ber sjálfur ábyrgð á að skrá sig í rétt námskeið bæði í sérgreina og almenna hluta.
- Skil á viðeigandi gögnum og staðfestingum skal skila til skrifstofu LH (nema annað sé tekið fram í texta að ofan).
- Skrifstofa LH mun halda utan um uppfærðan lista yfir þjálfara.
Viðeigandi Tenglar
Stefnulýsing ÍSÍ um Þjálfaramenntun: https://isi.is/library/Skrar/Efnisveita/Log-ogreglugerdir/Nyskjol/Stefna%20%C3%8DS%C3%8D%20um%20%C3%BEj%C3%A1lfaramenntun.pdf
Þjálfaramenntun ÍSÍ: https://isi.is/fraedsla/thjalfaramenntun-isi/
Knapamerki: http://knapamerki.is/
Hólar: http://holar.is/
Heildarmynd