„Af frjálsum vilja“ í Sörla

Frá Fræðslunefnd Sörla: Vegna fjölda áskoranna verður sýnikennsla Ingimars Sveinssonar frá því í fyrra endurtekin þann 9.mars. Frá Fræðslunefnd Sörla: Vegna fjölda áskoranna verður sýnikennsla Ingimars Sveinssonar frá því í fyrra endurtekin þann 9.mars.  

Er um að ræða sýnikennslu sem verður haldin að Sörlastöðum föstudagskvöldið 9. mars.

Ingimar Sveinsson „Af frjálsum vilja“
Allir hestamenn þekkja Ingimar Sveinson frá Hvanneyri, sem meðal annars er höfundur bókarinnar Hrossafræði. Um langt skeið hefur hann haldið helgarnámskeið þar sem hann bæði segir frá og sýnir hvernig hann nálgast ósnerta hesta. Hann hefur kallað þessa nálgun „Af frjálsum vilja“.
 
Aðferðin hefur vakið mikla athygli og nú gefst Sörlamönnum og öðrum áhugasömum hestamönnum tækifæri til að sjá og heyra Ingimar beita þessari aðferð.

Á einu kvöldi, föstudagskvöldinu 9. mars, mun hann sýna okkur það sem hann yfirleitt gerir á heilu helgarnámskeiði. Hann mun halda stuttan fyrirlestur um aðferðir sínar og tekur algjörlega ósnerta fola og sýnir áhorfendum hvernig hann nálgast unghross samkvæmt sínum aðferðum.

Þetta verður sannkölluð veisla fyrir okkur hestamenn, veisla sem mun hefjast kl. 19:00 og standa langt fram á kvöld. Veitingar verða til sölu, samlokur og heitir og kaldir drykkir á vægu verði svo ekki ætti að væsa um „veislugesti“!

Hestamenn!........sjáumst á Sörlastöðum á föstudagskvöldið 9. mars.

Fyrirlesturinn hefst stundvíslega kl. 19:00 og aðgangseyrir er 1.500 krónur

Fræðslunefnd Sörla