Ágústínus mætir á Krókinn!

Ágústínus frá Melaleiti.
Ágústínus frá Melaleiti.
Hinn magnaði Ágústínus frá Melaleiti mun gleðja gesta Stóðhestaveislunnar á Sauðárkróki á miðvikudagskvöldið, en þessi kraftmikli Kolfinnssonur hefur hlotið hvorki meira né minna en 8.93 fyrir hæfileika, þar af 9.5 fyrir brokk og vilja/geðslag og 9.0 fyrir skeið og stökk. Sannkölluð hæfileikasprengja þar á ferðinni.

Hinn magnaði Ágústínus frá Melaleiti mun gleðja gesta Stóðhestaveislunnar á Sauðárkróki á miðvikudagskvöldið, en þessi kraftmikli Kolfinnssonur hefur hlotið hvorki meira né minna en 8.93 fyrir hæfileika, þar af 9.5 fyrir brokk og vilja/geðslag og 9.0 fyrir skeið og stökk. Sannkölluð hæfileikasprengja þar á ferðinni. 

Þá er hinn stórglæsilegi Kappi frá Kommu væntanlegur, en hann skartar líka nokkrum 9.5 einkunnum, fyrir tölt, stökk, fegurð í reið og samræmi, enda gullfallegur gæðingur. Hinn ungi Púki frá Lækjarbotnum, sonur heiðursverðlaunahestsins Hróðurs frá Refsstöðum og gæðingamóðurinnar Heklu-Mjallar frá Lækjarbotnum, mun koma fram, en hann var á meðal efstu 4v hesta á síðasta Landsmóti, jafnvígur og bráðefnilegur hestur.

Albert nokkur Jónsson ku ætla að mæta með hestinn Magna frá Þjóðólfshaga og ætti að verða gaman að sjá þá félaga leika listir sínar, auk þess sem hestarnir frá Tunguhálsi, Hreimur og Vökull, sýna hvað í þeim býr.

Álfssonurinn Verdí frá Torfunesi mun án efa standa undir nafni og eiga nokkrar aríur og þeir Þengill frá Barði og Þyrill frá Djúpadal hafa einnig boðað komu sína.

Á morgun verða fleiri kappar kynntir til leiks, en stóðhestaveislan er samsett af sýningum eldri og reyndari hesta í bland við unga og efnilega. Uppselt hefur verið á sýningarnar frá upphafi og ávallt mjög góð stemming, enda alltaf eitthvað sem kemur skemmtilega á óvart og þarna býðst gott tækifæri til að taka út fjölda hesta á einum stað.
Forsala er í fullum gangi hjá N1 og vissara að tryggja sér miða í tíma!

 

Mynd: Ágústínus frá Melaleiti. Lj.: stodhestar.com