Allir LM sigurvegarar mæta

-Mikið um dýrðir á Ræktun 2012 - Hin árlega reiðhallarsýning Hrossarræktarsamtaka Suðurlands „Ræktun 2012“ fer fram í Ölfushöllinni  á laugardagskvöldið kemur, þann 28. apríl nk. kl. 20. -Mikið um dýrðir á Ræktun 2012 - Hin árlega reiðhallarsýning Hrossarræktarsamtaka Suðurlands „Ræktun 2012“ fer fram í Ölfushöllinni  á laugardagskvöldið kemur, þann 28. apríl nk. kl. 20.

Fram kemur fjöldi glæsilegra hrossa og knapa í fjölbreyttum einstaklings- og hópatriðum.

Meðal annars munu allir sigurvegarar í hringvallargreinum LM 2011 mæta til leiks; Glódís og Kamban frá Húsavík, Jóhanna Margrét og Bruni frá Hafsteinsstöðum, Rakel Nathalie og Vígar frá Skarði, Sigurður og Kjarnorka frá Kálfholti, Hinrik og Ómur frá Kvistum og Sigursteinn og Alfa frá Blesastöðum. Þá koma fulltrúar allra sunnlenskra ræktunarbúa sem tilnefnd voru til ræktunarverðlaunanna sl. haust fram ásamt því að heiðurshryssa Suðurlands verður útnefnd að venju.

Meðal ræktunarbúa sem taka munu þátt eru t.d. Koltursey, bú sem vakti mikla athygli á Fákssýningunni um liðna helgi, fulltrúar Norðurlands koma frá Steinnesi, hrosssaræktarbúin á Lækjarbotnum, Kjartansstöðum, Grímsstöðum, Þjórsárbakka og Velli senda flotta hópa á staðinn og afkvæmahópar verða líka fjölmargir, m.a. afkvæmi Þyts frá Neðra-Seli, synir Gnóttar frá Skollagróf, afkomendur Vor-Dísar frá Halldórsstöðum og dætur Hryms frá Hofi. Fleiri flott atriði verða í boði og munum við kynna þau í fréttum fram að helgi.

Á sýningunni verður einnig síðasti séns að tryggja sér miða í hinu veglega stóðhestahappdrætti Hrossaræktar.is þar sem allur ágóði rennur óskiptur til barna og unglinga í LAUF félagi flogaveikra. Í vinninga eru folatollar undir á annað hundrað frábæra stóðhesta, auk hestaferðar á Löngufjörur með Hestaferðum Óla Flosa, þannig að til mikils er að vinna og ekki slæmt að ná sér í flottan folatoll fyrir þúsundkall!

Það stefnir semsagt í heljarinnar fjör og mikið sjónarspil í Ölfushöllinni á laugardagskvöld – viðburður sem enginn áhugamaður um hrossarækt má missa af. Miðaverð er kr. 2.500, frítt inn fyrir 12 ára og yngri, og er forsala hafin í Ástund og Top Reiter í Reykjavík, hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi, á Árhúsum á Hellu og hjá Fóðurblöndunni á Hvolsvelli. Húsið opnar kl. 19 og eru allir að sjálfsögðu velkomnir!