Ályktun frá stjórn Hestamannafélagsins Sörla varðandi landsmót í Reykjavík 2012

Á fundi þann 16. febrúar fjallaði stjórn Hestamannafélagsins Sörla um val stjórnar LH á landsmótsstað fyrir árið 2012. Mjög skiptar skoðanir eru innan stjórnar Sörla og meðal félagsmanna um hvort halda eigi landsmót á höfuðborgarsvæðinu. Á fundi þann 16. febrúar fjallaði stjórn Hestamannafélagsins Sörla um val stjórnar LH á landsmótsstað fyrir árið 2012. Mjög skiptar skoðanir eru innan stjórnar Sörla og meðal félagsmanna um hvort halda eigi landsmót á höfuðborgarsvæðinu. Val á landsmótsstað er í höndum stjórnar LH samkvæmt lögum samtakanna. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að Landsmót 2012 verði haldið á félagssvæði Hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík.

Lög LH setja stjórn samtakanna ekki skorður um val á landsmótsstað. Engin tilmæli eða ályktanir í þá veru voru samþykktar á síðasta þingi LH sem haldið var á Kirkjubæjarklaustri árið 2008.

Stjórn Sörla leggur til að á næsta þingi LH sem haldið verður á Akureyri 2010 fari fram málefnaleg umræða um vald stjórnar LH og stjórnskipulag samtakanna sem og hugsanlegt regluverk varðandi val á staðsetningu landsmóta í framtíðinni. Landsþing LH er réttur vettvangur fyrir þessa umræðu.

Nú liggur ákvörðun fyrir varðandi árið 2012 og var hún tekin af til þess bærum aðila samkvæmt lögum samtakanna. Hestamannfélagið Sörli fagnar því að ákvörðun liggur fyrir og mun virða hana.

Það skal tekið fram að stjórn Sörla er ekki að álykta um hvort Reykjavík sé ákjósanlegur staður fyrir landsmót. Ákvörðun stjórnar LH liggur fyrir og hana ber að virða. Félagið hvetur því hestamannafélög og félagsmenn þeirra að sýna stillingu og sameinast um að Landsmót 2012 í Reykjavík verði gott mót og glæsilegt. Hestamannafélagið Sörli mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

Virðingarfyllst,
fyrir hönd Hestamannafélagsins Sörla,
Björn Bjarnason, formaður