Auglýst eftir umsóknum í Íþróttasjóð 2024

LH vill benda hestamannafélögum á að opið er fyrir umsóknir í Íþróttasjóð Rannís til 2. október nk. Lágmarks upphæð styrkja eru 250.000kr. Ýmiskonar verkefni hafa hlotið styrk úr þessum sjóð en „Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og eflingu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga, efla þekkingu þjálfara og leiðbeinenda, auka gildi íþróttastarfs í forvörnum og auka veg og virðingu íþróttastarfs í samfélaginu.“

Styrkir eru veittir til eftirfarandi verkefna:

  • Sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana.
    • Þetta gæti til dæmis átt við uppsetningu TREC braut eða annarri nýbreytni. Einnig ef bæta þarf aðgengi að eða í reiðhöll eða æfingasvæðið fyrir fatlaða eða til að tryggja öryggi barna og ungmenna.
    • Fyrir minni félög þar sem aðstaða er að skornum skammi gæti styrkurinn nýst til uppsetningar á hring eða æfingagerði.
  • Útbreiðslu- og fræðsluverkefna, sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem stuðla að inngildingu í íþróttum. Þar er átt við að: „Öll börn og ungmenni eiga rétt á því að taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi án þess að vera mismunað vegna uppruna, þjóðernis, húðlitar, menningar, trúar- og lífsskoðana eða annarra mismununarþátta. Öll börn og ungmenni eiga sama rétt á því að taka virkan þátt og upplifa öryggi, virðingu og hlutdeild.“
    • Styrkurinn gæti nýst til þess að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að íþróttinni t.d. með starfsemi félagshesthús og eða námskeiða.
  • Fjölbreytt verkefni sem hvetja ungt fólk sérstaklega til að taka þátt og hreyfa sig reglulega
  • Íþróttarannsókna

 

Umsóknum skal skila á rafrænu formi fyrir kl. 15:00, mánudaginn 2. október 2023. Aðgangur að umsóknarkerfi, eyðublöðum fyrir skýrslur, matskvarða, ásamt lögum og reglugerðum um sjóðinn o.fl., er að finna á síðu sjóðsins: Íþróttasjóður | Rannsóknamiðstöð Íslands (rannis.is)

Mikilvægt er að eftirfarandi komi fram:

  • Heiti verkefnis
  • Markmið
  • Fræðilegt og hagnýtt gildi verkefnis, eftir því sem við á
  • Verk- og tímaáætlun
  • Kostnaðar- og fjármögnunaráætlun
  • Samstarfsaðila, eftir því sem við á.

Því meiri og betri rökstuðningur því líklegra er að verkefnið fái styrk. Þá er mikilvægt að horfa til markmiða sjóðsins og athuga hvort umsóknin eigi við eitthvað að eftirfarandi og passa þá sérstaklega að það komi fram: stuðlar verkefnið að nýsköpun, eflir íþróttastarf fyrir börn og unglinga, eflir þekkingu þjálfara og leiðbeinenda, eykur gildi hestaíþróttarinnar í forvörnum og/eða eykur verkefnið veg og virðingu íþróttastarfs í samfélaginu. Þá þarf verkefnið „að falla að markmiðum Íþróttalaga. Þar segir að íþróttir séu hvers konar líkamleg þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti.“

LH hvetur ykkur til að skoða hvort á einhver verkefni sem mögulega hafa strandað á fjármögnun falli undir þessa flokka. Ef frekari spurningar vakna er hægt að hafa samband við Jónínu Sif hjá LH: joninasif@lhhestar.is eða Andrés Pétursson hjá Rannís:  andres.petursson@rannis.is