Beygjur á hringvöllum

Ég undirritaður lýsi ánægju minni með tillögu Fáks sem er á þingskjali nr. 23 fyrir landsþing LH. Tillagan snýr að þverhalla í beygjum hringvalla, en á aðalfundi FEIF í vor var samþykkt tillaga þess efnis að nýir hringvellir til íþróttakeppni skuli byggðir án hliðarhalla í beygjum sem verið hefur til þessa.

Ég undirritaður lýsi ánægju minni með tillögu Fáks sem er á þingskjali nr. 23 fyrir landsþing LH. Tillagan snýr að þverhalla í beygjum hringvalla, en á aðalfundi FEIF í vor var samþykkt tillaga þess efnis að  nýir hringvellir til íþróttakeppni skuli byggðir án hliðarhalla í beygjum sem verið hefur til þessa. Breytingarnar eru sagðar gerðar að ráði dýralækna með velferðarsjónarmið í huga og það sagt mat dýralækna að hliðarhallinn ynni gegn formi hestsins í beygjunum.

Gott er að Fákur heldur vöku sinni því um stórslys yrði að ræða ef við Íslendingar ætlum að apa þetta eftir vinum okkar í Evrópu.

Langar mig til að rifja upp sögu hringvallanna, en fyrsti hringvöllurinn mun hafa verið byggður hjá Walter Feldmann og afmarkast af stærð svæðis þess sem hann hafði yfir að ráða og heildarbreidd vallarins því 46 m og heildarlengd 76 m. Breiddin var 4 m og beygjurnar með 9 m radíus að innanmáli og 13 m að utanmáli. Þetta var fyrsti 200 m hringvöllurinn og vellir hér byggðir á sama hátt.

Það var síðan fyrir landsmót 1978, sem gefin var út sú tilskipun að keppt skyldi á 300 m hringvelli og þá var teiknaður fyrsti 300 m hringvöllurinn með 7 m breiðum brautum og heldur rýmri beygjum.

Upp úr því skapaðist umræða um hringvellina og fannst ýmsum að hringvellir pössuðu illa fyrir íslenska alhliða gæðinginn og þá einkum ef sýna ætti skeið.

Gæðinga- og keppnisnefnd LH fékk undirritaðan þá til að koma með tillögu að nýjum hringvelli þar sem gert var ráð fyrir að hægt væri að skeiða út úr hringnum. Á þeim tíma var Sigurður Oddur Ragnarsson nýkominn úr námi og skrifaði greinar um það að hliðarhalli þyrfti að vera í beygjum til að vernda fætur hrossanna.

Niðurstaðan var því 300 m hringvöllur sem byggði á sömu heildarlengd og heildarbreidd og sá völlur sem LH hafði ákveðið, með sömu brautarbreidd, en beygjum var breytt þannig að í stað þess að koma í beint inn á kvarthring þá var beygjan smám saman aukin þar til komið var í mestu beygjuna og síðan var hún stigminnkuð aftur. Hliðarhallinn var á sama hátt aukinn smám saman og var mestur þar sem beygjukrappinn var mestur. Þetta byggði á sömu hugsun og er beitt við vegagerð, en hliðarhallinn vegur gegn miðflóttaaflinu sem leitast við að beina viðkomandi út úr beygjunni.

Þessi völlur líkaði vel og varð til þess að þegar Hringur hélt Íslandsmót í hestaíþróttum á Flötutungum í Svarfaðardal árið 1984 var byggður 200 m völlur með sams konar hestvænum beygjum. Mikil ánægja var með þann völl og á ársþingi HÍS eftir Íslandsmótið var samþykkt að stefna að því að allir íþróttvellir yrðu með slíkum beygjum í framtíðinni og stefnt að því að kynna þær á erlendri grundu. Af þeirri kynningu varð aldrei.

Síðar meir hannaði ég 250 m völl sem var byggður fyrst samtímis hjá Stormi á Vestfjörðum og Sörla í Hafnarfirði. Það varð síðan til þess að farið var að nota 250 m völl í íþróttakeppnum en alltaf skorti á kynninguna erlendis.

Síðan var það ákveðið á landsþingi LH á Selfossi að ganga í FEIF og gangast undir keppnisreglur FEIF, en með einni undantekningu þó, en hún var sú að notast áfram við þá vallargerð sem hafði verið á Íslandi.

Ég minni því á þá samþykkt og skora á þingfulltrúa á landsþingi til að halda sig við þá ákvörðun.

Jónas Vigfússon
Litla-Dal