Frá stjórn Landssambands hestamannafélaga

Á fundi stjórnar Landssambands hestamannafélaga þann 6. ágúst var tekin ákvörðun í samstarfi við mótshaldara Íslandsmóts, Hestamannafélagið Geysi, um að aflýsa Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna.

Í tilkynningu stjórnar ásamt svörum formanns LH við spurningum blaðamanns Eiðfaxa koma ástæður ákvörðunarinnar skýrt fram og viljum við ítreka þær.

Ákvörðun af þessu tagi, sem stjórn var sammála um, er ekki tekin af léttúð og óskar enginn sem tekur þátt í félagsstarfi að þurfa að taka ákvörðun sem þessa.

Sú nálgun sem tekin er á samfélagsmiðlum um ákvörðun þessa hefur vakið athygli stjórnar. Einnig sú staðreynd að hestamannafélög hafa ákveðið að auglýsa mót á næstu vikum og með því lýst yfir vantrausti á nálgun stjórnar LH á stöðunni. Það skal tekið fram að þessar ákvarðanir um mótahald hafa verið teknar án samráðs við LH.

Hestamannafélögin og við öll verðum að meta hvaða ásýnd við gefum af okkur hestamönnum í þessari glímu við faraldurinn og hvaða áhættu við erum tilbúin að taka.

Stjórn LH hefur verið og er í góðu samstarfi við ÍSÍ og önnur sérsambönd í þessari baráttu sem hefur haft áhrif á líf okkar allra síðustu mánuðina og mun gera áfram. Hið öfluga afreksstarf LH treystir á framlög og stuðning ÍSÍ og því er okkur mikilvægt að standa með þeim ákvörðunum sem eru teknar innan íþróttahreyfingarinnar.

Verið er að setja saman vinnureglur um starfsemi sérsambandanna þar sem fjallað er um m.a. fyrirkomulag æfinga og keppni og verða þær að uppfylla kröfur yfirvalda varðandi sóttvarnir. Vinnureglur fyrir hestaíþróttir eru í smíðum og fara til sóttvarnaryfirvalda til yfirferðar og samþykkis eftir atvikum. Þegar þessar reglur eru fullmótaðar og hafa verið samþykktar munu þær koma til kynningar til félaga sambandsins og mælst er til að hestamannfélög fari eftir þeim reglum.

Við viljum benda á það sem fram kom á upplýsingafundi Almannavarna fimmtudaginn 13. ágúst að ekki verður heimilt að hefja æfingar eða keppni í íþróttagreinum fyrr en fyrir liggja samþykktar reglur.

Þegar samþykki sóttvarnaryfirvalda liggur fyrir er það von stjórnar að við leggjum saman línurnar fyrir næstu mánuði.

 

Fyrir hönd stjórnar Landssambands hestamannafélaga

Lárus Ástmar Hannesson, formaður.