Enn lausir dagar á Skógarhólum í sumar

Nú þegar sumarið er loks að ganga í garð og margir farnir að skipuleggja hestaferðir og sleppitúra er vert að minna á Skógarhóla sem hafa verið einn vinsælasti áfangastaður hestamanna um árabil, enda staðsetningin í þjóðgarðinum á Þingvöllum einstök. Svæðið býður upp á góðar reiðleiðir og náttúrufegurð. Endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði og girðingum á undanförnum árum og eiga „Vinir Skógarhóla“ og staðarhaldarar heiðurinn af því. Þá hafa reiðleiðir á svæðinu verið bættar og ný rekstrarleið verið opnuð.

Aðstaðan á Skógarhólum er til fyrirmyndar, gistirými er fyrir 32 í fimm svefnherbergjum sem rúma sex til sjö manns hvert. Í húsinu er eldhúsaðstaða með öllum nauðsynlegum búnaði, matsalurinn rúmar allt að 50 manns. Þá er einnig grillaðstaða með kolagrilli. Einnig er hægt að tjalda á svæðinu.

Þrjár megin reiðleiðir eru í um þjóðgarðinn þar af ein þar sem heimilt er að vera með rekstur. Sú leið liggur frá  Skógarhólum að Gjábakka.

Mælst er til að allur hrossarekstur þvert yfir sigdalinn fari um leið sem liggur frá hliði við Ármannsfell beint til austurs þvert yfir sigdalinn að Gjábakka. Þessi leið er gríðarlega falleg og góð og hvergi er farið yfir þjóðveg. Greið leið og fallegt útsýni yfir Þingvallavatn og inn á Þingvallahraun að Skjaldbreið. Við Ármannsfell er farið inn um sama hlið og þegar farið er niður að Hrauntúni og Skógarkoti.  Um leið og komið er inn fyrir hliðið er beygt til vinstri inn á slóðina. Á Gjábakka kemur leiðin norðan við túnin og finnst hún þar. Leiðin er nú fullkláruð og hefur verið brotin nýlega og yfirborð því frekar slétt.  

Vert er að hafa í huga að þetta er einnig leið þar sem er heimil ganga og hjólreiðar og stefnt er að því að nota hana mögulega sem skíðagöngubraut þegar vetur gengur í garð og snjór fyllir sigdældina.  Stefnt er að því að setja fljótlega upp skilti sem ítreka umgengni mismunandi notendahópa á leiðinni.

Fyrir þá sem koma á Skógarhóla og vilja nýta svæðið til útreiða og með hesta í taum  er hægt að fara sömu leið upp með Ármannsfelli. Er það leiðin frá Skógarhólum til norðurs með þjóðveginum í gegnum Bolabás upp með þjóðgarðsgirðingu með Ármannsfelli að hliði á girðingunni þar sem farið er niður í Hrauntún.  Það liggur leiðin á fallegum skógarstíg niður að Skógarkoti. Á þessari leið er farið yfir þjóðveginn og eru hestamenn beðnir um sýna ítrustu aðgæslu þegar farið er yfir veginn enda hefur umferð margfaldast á þjóðveginum í gegnum þjóðgarðinn á undanförnum árum.  Frá Skógarkoti er farinn Skógarkotsgata niður að Vellankötlu sem er á bakka Þingvallavatns og hægt er að brynna þar hestum.  Þaðan liggur leiðin upp Gjábakkastíg og aftur farið yfir þjóðveginn og farinn stutt leið inn að túnunum á Gjábakka þar sem flestir á.

Önnur leið frá Skógarhólum í Skógarkot liggur um Langastíg.  Þá er riðið frá Skógarhólum skamma leið til baka í átt að Brúsastöðum.  Þar fljótlega greinist leiðin og reiðslóð liggur til suðurs í átt að Almannagjá.  Þetta er nokkuð grýtt slóð á köflum en að lokum er komið að bílastæðinu við Langastíg og farið þar í gegnum girðingu og nauðsynlegt er að teyma hesta niður brattann stíginn niður um Langastíg í Stekkjargjá.  Þaðan er riðið eftir malarreiðstíg út úr Stekkjargjá niður að Vallagjá og þaðan um Skógarkotsveg inn í Skógarkot.  

Vegna umferðar á vegum þá er mælst til að rekstur sé ekki stundaður á þessum tveimur leiðum.

Þessar leiðir eru sérstaklega fallegar og eru hestamenn hvattir til að nota þær. Stórhættulegt er að ríða á þjóðvegum  þar sem umferð bíla er mjög hröð í þjóðgarðinum, mikið er um blindbeygjur og því eiga hestamenn að nota reiðvegi þar sem annað skapar mikla slysahættu fyrir menn og hesta. Umferð hestamanna um þinghelgina og Almannagjá er bönnuð til að forða árekstrum milli gangandi og ríðandi umferðar.  

 

 

Til að fá frekari upplýsingar um aðstöðuna og bókanir, er hægt að hafa samband við skrifstofuna LH í síma 514 4030 eða senda tölvupóst á skogarholar@lhhestar.is.
Panta gistingu á Skógarhólum

Umsjónarmaður Skógarhóla er Helga Skowronski.

 

Upplýsingar um reiðleiðir

Rekstrarleið að Gjábakka:
Skógarhólar - að hliði: 2,8 km. 
Frá hliði að áningu: 30 mín.
Frá áningu að Gjábakka: 45 mín.

Reiðleiðir um Skógarkot:
Skógarhólar - að hliði: 2,8 km. 
Frá hliði - Hrauntún: 2,3 km. 
Hrauntún - Skógarkot: 3 km. 
Skógarkot - Vatnsvík: 2 km. 
Skógarkot - Gjábakki: 3 km. 
Skógarkot - um Stekkjargjá að bílastæði við Langastíg 20 mín
Frá bílastæði við Langastíg að Skógarkoti 30 mín