Frábær ráðstefna

Laugardaginn 11. febrúar 2012 var haldin ráðstefna í Mosfellsbæ í samvinnu ÍF og Hestamannafélagsins Harðar undir yfirheitinu, Íslenski hesturinn og fólk með fötlun.    Laugardaginn 11. febrúar 2012 var haldin ráðstefna í Mosfellsbæ í samvinnu ÍF og Hestamannafélagsins Harðar undir yfirheitinu, Íslenski hesturinn og fólk með fötlun.   

Árin 2001 og 2003 voru haldnar fyrstu ráðstefnur ÍF og Hestamiðstöðvar Íslands á Sauðárkróki þar sem áhugasamt fólk af öllu landinu hittist og fór yfir stöðu mála.  Starfshópur var settur á fót sem hafði það markmið að fylgja eftir ákveðnum verkefnum.  Verkefni starfshópsins hafa verið unnin í sjálfboðavinnu en ýmislegt hefur þó áunnist eins og kynnt var á ráðstefnunni.

Sjúkraþjálfun sem meðferðarform var staðfest árið 2007 og haldin hafa verið námskeið fyrir sjúkraþjálfara sem vilja kynna sér slíka meðferð.  Verkefnið er komið í farveg undir stjórn Guðbjargar Eggertsdóttur og Þorbjargar Guðlaugsdóttur sjúkraþjálfara. 

Fyrsti knapinn með fötlun fékk afhent knapamerki árið 2011 en slík viðurkenning er mikilvæg hvatning og ekki síst hvati til aukinnar færni.  Sigrún Sigurðardóttir, reiðkennari kynnti verkefnið sem þarf að þróa áfram í samstarfi við aðra reiðkennara og þá sem standa að þróun fræðslumála á þessu sviði. Markmið er að innleiða fræðslu um reiðmennsku fatlaðra í nám reiðkennara. 
 
Ásta Pétursdóttir, geðhjúkrunarfræðingur ræddi um gildi hins félagslega þáttar.  Mikilvægt er að auka umræðu um jákvæð áhrif þess að nota hesta fyrir fólk með geðræn vandamál og/eða sem er félagslega einangrað.  Styðja þarf við þá sem vinna á þessu sviði, safna rannsóknum erlendis frá og hvetja til rannsókna innanlands.  

Þórhildur Þórhallsdóttir frá Hestamennt sagði frá Leiðtoganámskeiðum sem byggja ekki síst á hinum félagslega þætti og hafa öðlast miklar vinsældir en námskeiðin fara fram í Mosfellsbæ.

Auður Sigurðardóttir frá Hestamannafélaginu Herði sagði frá fyrstu keppni fyrir fatlaða sem
haldin var í Mosfellsbæ árið 2011. Efni var aðlagað frá Ástralíu en markmið er að fylgja þessu eftir og auka tækifæri fatlaðra á þessu sviði.  Hestamennska er keppnisgrein á Ólympíuleikum fatlaðra og á Special Olympics.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir frá ÍF sem hefur verið í forsvari starfshópsins frá upphafi mun sinna því hlutverki áfram.  Ákveðið var að hópurinn myndi fylgja eftir ferli verkefna auk þess að standa að ráðstefnu árið 2013 í  samstarfi við Hestamannafélagið Hörð.  Þar verður sett í forgang efni sem tengist hinum félagslega þætti.  Efnisöflun mun fara fram erlendis frá auk þess sem leiðað verður til Íslendinga sem hafa eða eru að vinna að rannsókunum á þessu sviði. Unnin verður tengiliðalisti áhugafólks á þessu sviði og er fólk hvatt til að láta skrá sig á þann lista fyrir næstu ráðstefnu.  Upplýsingar skal senda á annak@isisport.is





Svona var dagskrá ráðstefnunnar:
10.00 – 12.00        Félagsheimili Hestamannafélagsins Harðar, Mosfellsbæ
10.00 – 10.15         Kynning á verkefnum starfshóps um þessi mál og  dagskrá námskeiðs 
Anna K Vilhjálmsdóttir, frkvstj. Fræðslu og útbreiðslusviðs ÍF
10.15. – 10.35.       Kynning á sjúkraþjálfun á hestbaki           
     Guðbjörg Eggertsdóttir og Þorbjörg Guðlaugsdóttir, sjúkraþjálfarar Æfingastöðvar SLF    
10.35. -  11.00.       Kynning á starfi fyrir fatlaða innan Hestamannafélagsins Harðar     
Auður Sigurðardóttir, formaður fræðslunefndar fatlaðra
       Kynning á leiðtoganámskeiðum 
Þórhildur Þórhallsdóttir, Hestamennt
11.00 – 11.20.         Kynning á knapamerkjakerfi.                                             
Sigrún Sigurðardóttir, reiðkennari
 11.20. –11.40.        Kynning á hlutverki hestsins & félagslegur þáttur             
Ásta Pétursdóttir, geðhjúkrunarfræðingur
11.40. – 12.00.       Spurningar og umræður
12.00 – 13.00          Hádegisverður
13.00 – 15.000        Reiðhöll Hestamannafélagsins Harðar 
Sjúkraþjálfun á hestbaki            Stutt kynning
Kynning á keppnisfyrirkomulagi     Helstu atriði kynnt
 15.00  – 16.00          Lok námskeiðs og samantekt