Guðrún Valdimarsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins.
Landssamband hestamannafélaga boðaði til fundar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 20. apríl þar sem mættu
fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til þings. Haraldur Þórarinsson, formaðu LH, kynnti þingmönnum tilgang og
markmið sambandsins og skýrði í megindráttum starfssemi þess.
Landssamband hestamannafélaga boðaði til fundar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 20. apríl þar sem mættu
fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til þings. Haraldur Þórarinsson, formaðu LH, kynnti þingmönnum tilgang og
markmið sambandsins og skýrði í megindráttum starfssemi þess.
Allir stjórnmálaflokkarnir höfðu áður fengið sendan spurningalista með sjö spurningum frá LH, sem varða hagsmuni hestamanna. Óskað
var eftir svörum við öllum spurningunum. Á fundinum fór Haraldur yfir spurningalistann og svaraði fyrirspurnum frá frambjóðendum, sem sýndu
málinum mikinn áhuga. Svör flokkanna verða birt hér á heimasíðu LH um leið og þau berast.
Hér með birtast svör frá Guðrúnu Valdimarsdóttur, frambjóðanda FRAMSÓKNARFLOKKSINS:
INNGANGUR:
Spurningar til stjórnmálaflokka frá Landsambandi hestamannafélaga fyrir alþingiskosningarnar 2009.
Landssamband hestamannafélaga (LH) er þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ. Reynslan sýnir að um þrír til fjórir
aðilar fylgja hverjum þeim sem skráður er í félagi í hestamannafélag. Félagar í LH eru nú um 12.000 sem
þýðir að um 35.-40.000 manns stundi hestamennsku reglulega hérlendis.
Landsmót hestamanna er einstakur íþróttaviðburður og sá eini á Íslandi sem dregur að sér hátt í 15 þúsund
gesti, þar af er um fjórðungur erlendir gestir sem sækja Ísland gagngert heim vegna viðburðarins. Hestamennska er ein fjölskylduvænasta
íþrótt sem um getur. Í hestamennsku þekkist ekki kynslóðabil, allir geta stundað hestamennsku saman. Allir finna eitthvað við sitt
hæfi og getu; íþróttakeppni, gæðingakeppni, útreiðar, náttúruskoðun eða að eiga rólega stund með hestum
sínum eftir amstur dagsins.
Í aðdraganda kosninga vorið 2009 fer stjórn Landsambands hestamanna fram á það við þá sem bjóða fram lista til alþingis að
þeir svari nokkrum spurningum er varða hagsmuni hestamanna.
1. Er þinn flokkur tilbúinn til þess að tryggja í vegalögum að reiðvegir séu
flokkaðir þannig að réttur hestamanna sé tryggður á ákveðnum (götum) vegum og þá um leið umferð mótorknúinna
ökutækja bönnuð nema sem um getur í 5. gr. a. 1.mgr. umferðalaga?
Greinargerð: Fallið hafa dómar sem eru þess eðlis að þeir tryggja ekki umferð og öryggi hestamanna á
þeim vegum sem þeim eru ætlaðir sér í lagi er átt við akstur vélknúinna ökutækja einkum torfæruhjóla.
Svar:
Já, Framsóknarflokkurinn vill beita sér fyrir því. Framsóknarflokkurinn telur mjög mikilvægt að öryggismál tengd
reiðvegum verði tekin til endurskoðunar til að tryggja rétt reiðmanna á vegum þeim ætluðum. Samhliða þarf auðvitað skoða
þarfir annarra s.s. þeirra sem fara um á vélknúnum ökutækjum
2. Árlega skapast gjaldeyristekjur upp á 12 til 14 milljarða króna í kringum íslenska hestinn og
hestatengda ferðaþjónustu. Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir auknu fé til reiðvegamála t.d. ½ til 1% af þeim
gjaldreyri sem hestamennskan skapar?
Greinargerð: Á undanförnum árum hefur fé til vegamála aukist stórlega og ber að þakka
það. Hins vegar hefur þeim sem stunda hestamennsku fjölgað stórlega á undanförnum árum og þar með þörfin fyrir
reiðvegi einnig. Á síðasta ári var sótt um fjármagn að upphæð 300 milljónir til reiðveganefndar LH en einungis er til
ráðstöfunnar á samgönguáætlun 2007 til 2010 um 60 milljónir á ári. Dugir það fé vart til viðhalds
núverandi reiðvega hvað þá nýlagna.
Svar:
Framsóknarflokkurinn telur mjög mikilvægt að auka fé til reiðvega. Trúlega er rétt að það sé gert með þrennum
hætti.
a. Sérstakar fjárveitingar til nýframkvæmda og þar þarf að skoða sérstaklega verka- og kostnaðarskiptingu ríkis og
sveitarfélaga.
b. sérstakar fjárveitingar til viðhalds eldri reiðvega.
c. Sérstakar fjárveitingar til reiðvega vegna nýlagningar vega. Allt of oft hefur það gerst að reiðvegir hafa gleymst þegar
gengið er í að leggja slitlag á eldri vegi og samhliða nýjum stofnbrautum. Þó ber að skoða sérstaklega að flytja reiðvegi
frá stofnbrautum sjá spurningu 3.
Erfitt er að nefna ákveðna upphæð í þennan málaflokk og trúlega er ekki skynsamlegt að binda þær hlutfalli af
útflutningverðmæti. Nær væri að kortleggja þörfina og gera áæltun um að ljúka brýnustu framkvæmdum á t.d.
5 árum. Að endingu er rétt að minna á að flokkurinn telur mjög mikilvægt að verja rétt reiðgötunnar í aðalskipulagi
sveitarfélaga
3. Telur þinn flokkur ástæðu til að færa reiðvegi frá umferðarþungum akvegum?
Greinargerð: Í dag liggja flestir reiðvegir samsíða þungum umferðaræðum bæði innan
þéttbýlis sem utan. Á þessum reiðvegum er oft mikil umferð ríðandi fólks einkum í næsta nágrenni við
þéttbýlið.
Svar:
Framsóknarflokkurinn telur það mjög mikilvægt, ekki síst vegna öryggismála. Í einhverjum tilfellum getur það verið erfitt
vegna eignarhaldi á landi en þennan möguleika á að skoða í hvert sinn sem farið er í framkvæmdir.
4. Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að hestaíþróttir verði
viðurkenndar sem sérstök námsbraut í framhaldsskólakerfinu, þannig að þeir sem ljúka þar námi öðlist réttindi
til t.d. tamninga, þjálfunar og að taka að sér og leiða hópa í ferðamennsku á hestum ?
Greinargerð: LH bindur miklar vonir við samstarf sitt og Fjölbrautaskóla Suðurlands um rekstur tveggja ára
námsbrautar sem menntamálaráðherra heimilaði, en þar er reynt að finna grundvöll til reksturs tveggja ára almennrar hestabrautar
þar sem nemenur útskrifast sem hestasveinar eða tamningarsveinar. Gengur rekstur þessarar brautar vel og lofar góðu.
Nú er mikil vöntun á fólki til starfa tengdum íslenska hestinum. Finnst okkur þetta því vera í anda
þess sem mjög er til umræðu í menntamálum þ.e. að koma á verklegu námi þar sem ekki þarf að búa til
eftirspurnina. Þá má minna á að íslenski hesturinn tengist mjög menningu okkar Íslendinga og er þetta því einnig sögu
og menningartengt nám.
Svar:
Framsóknarflokkurinn vill skoða leiðir til að efla kennslu í hestaíþróttum við framhaldskólana. Þetta hefur einnig verið reynt
við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og verið ánægja með það þar. Þessi kennsla er hins
vegar fjárfrek og erfitt að bjóða hana öllum nemendum. Framsóknarflokkurinn vill taka þátt í að þróa þetta
áfram við ákveðna skóla og eftir atvikum tengja þetta öðru námi í hestaíþróttum og hrossarækt við
háskólana á Hvanneyri og á Hólum
5. Er þinn flokkur tilbúinn eftir kosningar til að skoða skattalegt umhverfi hestamennskunnar með það
að markmiði að minnka kostnað þeirra sem stunda hestamennsku?
Greinargerð: Mikil óánægja er innan hestahreyfingarinnar með misjafna álagningu fasteignagjalda á
hesthús þar sem þau eru ýmist flokkuð í A eða C flokk, þ.e. eftir því hvort þau standa á lögbýli eða innan
þéttbýlis. Stjórn LH telur að það gæti verið til bóta að lækka skatta á vissum þáttum tengdum
hestamennsku og reyna þannig að ná niður kostnaði og um leið að gera viðskipti tengdum hestamennskunni sýnilegri. Lækkun kostnaðar í
greininni eykur frekar á nýliðun í greininni og er þá sérstaklega horft til fjölskyldufólks.
Svar:
Fasteignagjöld eru einn aðaltekjupóstur sveitarfélaga. Mjög misjafnt er hvernig sveitarfélög nýta þennan tekjulið gagnvart
hestamönnum. Erfitt er fyrir ríkið að skipta sér af því hvernig sveitarfélög nýta sinn lögboðna rétt til
tekjuöflunar. Framsóknarflokkurinn getur ekki gefið út eina línu í þessu máli á landsvísu en beinir því til hestamanna
að skoða þessi mál í samráði við sína fulltrúa í sveitarstjórnum.
6. Er þinn flokkur tilbúinn til að beita sér fyrir lagabreytingu þannig að allir þeir sem eiga og
rækta íslenska hestinn sitji við sama borð þegar kemur að ákvarðanatöku m.a. um ræktunarmarkmið íslenska hestsins og á hvaða
rannsóknir tengdar íslenska hestinum skuli lagðar áherslur á, á hverjum tíma?
Greinargerð: Í dag er þetta þannig að í lögum er kveðið á um að þú verðir
að vera lögbýlingur til að geta setið í Fagráði en þar eru ákvarðanir teknar um ræktunarmarkmið og þróunarstarf
í hrossarækt. Í dag eru 60 - 70% þeirra sem stunda hrossarækt ekki lögbýlingar heldur búa í þéttbýli og
finnst félögum innan LH það algerlega ótækt að mismuna fólki með þessum hætti þar sem það er heimilt að halda hestinn
í þéttbýli.
Svar:
Sé sagan skoðuð kemur í ljós að mjög miklar framfarir hafa átt sér stað við ræktun, tamningar og meðferð hestsins.
Þar koma margir aðilar að, ekki síst LH. Jafnvel þó hluti félaga í LH séu ekki kjörgengir í fagráð eru
félagstengsl í hrossaræktinni og hestamennskunni mjög samofinn og ekki vafi að hlustað er grant eftir sjónarmiðum félaga í LH þegar
teknar eru ákvarðanir um ræktunarmarkmið og fleira.
Hrossarækt er órjúfanlegur hluti af íslenskum landbúnaði. Þó ánægjulegt sé hversu margir hafa komið til liðs
við búgreinina og stutt hana af ráðum og dáð þá telur flokkurinn ekki rétt að gera grundvallarbreytingar á hrossarækt, einni
búgreina. Þó mætti vel hugsa sér að LH hefði fast sæti í Fagráði sem samtökin gætu ráðstafað til
ræktenda í þéttbýli.
7. Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að LH njóti sömu meðferðar af
hálfu ríkisvaldsins og t.d. önnur félagasamtök sem ríkið styrkir til mótahalds um landið?
Greinargerð: Við rekstur síðustu þriggja landsmóta hefur verið greitt til svæða og í
löggæslukostnað milli 40 - 50 milljónir sem er að mati okkar alltof há upphæð þar sem við þurfum að skattleggja okkar
félagsmenn og aðdáendur íslenska hestsins til að halda þessar fjölskyldu og íþróttahátíðir sem landsmót eru og eru
einnig snar þáttur í menningu okkar. Á sama tíma eru haldnir aðrir íþróttaviðburðir þar sem allur undirbúningur
mótssvæða er greiddur af ríki og sveitarfélögum og öllum boðið frítt inn.
Svar:
Framsóknarflokkurinn hefur opinberlaga beitt sér fyrir því að mótahald hestamanna sitji við sama borð og önnur íþróttamót
t.d. með tilliti til kostnaðs við löggæslu.
Framsóknarflokkurinn hefur beitt sér fyrir auknum stuðningi við hestaíþróttir s.s. með framlögum vegna uppbyggingar reiðhalla og
reiðkennsluhúsa. Framsóknarflokkurinn vill skoða það að íþróttamannvirkjasjóður komi að uppbyggingu
íþróttasvæða fyrir hestaíþróttir.
Ríki og sveitarfélög hafa sett verulegar fjárhæðir í þessa uppbyggingu en ljóst er að sá stuðningur er æði misjafn
eftir svæðum. Skoða þarf í samstarfi aðila hvernig má setja samræmdar reglur um þessa uppbyggingu.