Fyrsta liðið kynnt til leiks

Þórdís Erla Gunnarsdóttir fyrirliði Auðsholtshjáleiguliðsins.
Þórdís Erla Gunnarsdóttir fyrirliði Auðsholtshjáleiguliðsins.
Senn líður að fyrsta móti Meistaradeildar í hestaíþróttum og er ekki seinna vænna en að fara að kynna liðin. Fyrsta liðið sem kynnt verður til leiks er lið Auðsholtshjáleigu. Senn líður að fyrsta móti Meistaradeildar í hestaíþróttum og er ekki seinna vænna en að fara að kynna liðin. Fyrsta liðið sem kynnt verður til leiks er lið Auðsholtshjáleigu. En það er óbreytt frá því í fyrra og er skipað Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur, liðsstjóra, Artemisiu Bertus og Bylgju Gauksdóttur. Varaknapi liðsins er Edda Rún Ragnarsdóttir.

Þarna eru þaulreyndar keppniskonur á ferðinni, þrátt fyrir að þetta sé yngsta lið deildarinnar. Liðið setti svip sinn á deildina í fyrra með prúðmannlegri framkomu og glæsilegri reiðmennsku.

Þórdís Erla Gunnarsdóttir, liðsstjóri, er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hún starfar við tamningar á Grænhóli. Þórdís Erla hefur verið viðloðandi keppni frá blautu barnsbeini en hefur jafnframt verið að koma sterk inn í kynbótasýningum síðustu ár.

Artemisia Bertus er tamingamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hún starfaði síðasta ár við tamningar á Grænhóli en í vetur starfar hún á Blesastöðum 1A. Artemisia er hollensk að uppruna en hefur búið hér á Íslandi í mörg ár. Hún hefur verið að koma sterk inn í kynbótasýningum og keppni á undanförnum árum.

Bylgja Gauksdóttir er tamningamaður og þjálfari frá Hólaskóla. Hún hefur starfað undanfarin ár við tamningar á Grænhóli. Bylgja hefur gert garðinn frægan í keppni á undanförnum árum og hefur jafnframt verið að gera góða
hluti í kynbótasýningum.

Edda Rún Ragnarsdóttir rekur hestamiðstöðina Ganghesta á félagssvæði Fáks í Reykjavík. Hún hefur stundað keppni frá blautu barnsbeini og hefur meðal annars sigrað Landsmót tvisvar ásamt því að vera margfaldur
Íslandsmeistari.

Auðsholtshjáleiga í Ölfusi er það hrossaræktarbú sem oftast hefur hlotið titilinn Ræktunarbú ársins en búið hefur hampað titlinum fjórum sinnum, 1999, 2003, 2006 og 2008. En búið hefur verið tilnefnt til verðlaunanna tíu sinnum. Eigendur búsins eru þau Gunnar Arnarsson og Kristbjörg Eyvindsdóttir en samhliða búinu reka þau útflutningsfyrirtækið HorseExport. Aðalbækistöð búsins er á Grænhóli í Ölfusi. Þar er frábær aðstaða til tamninga og þjálfunar sem byggist meðal annars á frábærum reiðleiðum, reiðhöll, hringvelli með beinni braut, hlaupabretti og að sjálfsögðu glæsilegu hesthúsi.