Góðviðri og gæðingar á Svínavatni

Hans Kjerúlf og stóðhesturinn Sigur frá Hólabaki voru maður og hestur Ís-Landsmótsins á Svínavatni, sem fram fór um helgina. Þeir sigruðu tvöfalt, bæði í B flokki og tölti og fengu þar með tvö hundruð þúsund krónur í verðlaun. Vignir Siggeirsson, bóndi á Hemlu, sló í gegn í A flokki á heimaræktuðum gæðiningi, Ómi frá Hemlu. Einmuna blíða var á Svínavatni allan mótsdaginn og mótið gekk afar vel fyrir sig. Hans Kjerúlf og stóðhesturinn Sigur frá Hólabaki voru maður og hestur Ís-Landsmótsins á Svínavatni, sem fram fór um helgina. Þeir sigruðu tvöfalt, bæði í B flokki og tölti og fengu þar með tvö hundruð þúsund krónur í verðlaun. Vignir Siggeirsson, bóndi á Hemlu, sló í gegn í A flokki á heimaræktuðum gæðiningi, Ómi frá Hemlu. Einmuna blíða var á Svínavatni allan mótsdaginn og mótið gekk afar vel fyrir sig. /static/files/Vignir2.jpg

Hans sigraði af nokkru öryggi í töltkeppninni, var 17 stigum fyrir ofan næsta keppenda, sem var Lena Zielinski á Golu frá Þjórsárbakka. Lena og Gola urðu Íslandsmeistarar í fyrsta flokki í fjórgangi í fyrra. Í töltinu var sigurinn ekki eins vís. Sigurður Sigurðarson á Freyði frá Hafsteinsstöðum var nánast með gullið (og hundrað þúsund í peningum) í hendi þegar greiða töltið var eftir, sem er sterkasta hlið Freyðis. Sá grái fór mikinn í fyrri ferðinni en kom til baka á hægu tölti og feti, hafði rifið undan sér skeifu. Féll Sigurður þar með í sjöunda sætið.

Sigur er undan Parker frá Sólheimum og Sigurdís frá Hólabaki, sem er undan Glað frá Hólabaki. Afar Sigurdísar eru Garður frá Litla-Garði og Adam frá Meðalfelli, Hrafnssynir frá Holtsmúla.


Það voru hins vegar þeir Vignir Sigurgeirsson og Ómur frá Hemlu sem komu mest á óvart. Ómur er tvímælalaust einn athyglisverðasti alhliða gæðingur sem fram hefur komið í seinni tíð. Hann er stór og fagur, léttbyggður og tígulegur. Gangtegundirnar eru bráðefnilegar. Framganga eins og gæðingi sæmir.

Ómur er undan Íði frá Vatnsleysu, sem er undan Orra frá Þúfu og Sabínu frá Vatnsleysu. Móðir Óms er Snælda frá Viðborðsseli í Hornafirði, sem er undan Snældu-Blesa frá Árgerði og Eldingu frá Fornustekkum, Faxadóttur frá Árnanesi. Móðir Eldingar er Nótt frá Fornustekkum. Undan henni var hinn frægi gæðingur og klárhestur Náttfari frá Fornustekkum.

Óhætt er að segja að hinir framsæknu Húnvetningar sem standa að Ís-Landsmótinu á Svínavatni séu einstaklega heppnir með veður. Varla blakti hár á höfði allan daginn. Sólin skein af og til og bræddi allt sem fyrir varð, bæði ís og hjörtu. Töluverður fjöldi fólks var á mótinu, líklega um fimm hundruð manns. Mótið er haldið á vegum hestamannafélaganna Neista og Þyts.

Í framkvæmdanefnd eru Tryggvi Björnsson, Ægir Sigurgeirsson, Stekkjardal, Jón Gíslason, Hofi, og Ólafur Magnússon á Sveinsstöðum. Indriði Karlsson í Grafarkoti var sýnignarstjóri. Tryggvi vill koma á framfæri þakklæti til allra sem aðstoðuðu við framkvæmd mótssins.


B – Flokkur:

1 Hans Friðrik Kjerúlf Sigur frá Hólabaki  6v. 8,74      
2 Árni Björn Pálsson Kjarni frá Auðsholtshjáleigu  6v.  8,67      
3 Lena Zielinski Gola frá Þjórsárbakka  6v. 8,66      
4 Jakob Svavar Sigurðsson Kaspar frá Kommu  8v. 8,60      
5 Þórdís Erla Gunnarsdóttir Frægð frá Auðholtshjáleigu  6v. 8,53      
5 Sigurður Sigurðarson Gerpla frá Steinnesi 8v. 8,49      
7 Sölvi Sigurðarson Glaður frá Grund 8v. 8,43      
8 Bylgja Gauksdóttir Þöll frá Garðabæ  5v. 8,31      

A – Flokkur:

1. Vignir Siggeirsson Ómur frá Hemlu 8v. 8,82
2. Jón Pétur Ólafsson Fróði frá Staðartungu 7v. 8,54
3. Sölvi Sigurðarson Seyðir frá Hafsteinsstöðum  8v. 8,47
4. Eyjólfur Þorsteinsson Ögri frá Baldurshaga 8,44
5. Elvar Þormarsson Bylgja frá Strandarhjáleigu  7v. 8,43
6. Páll B. Bálsson Glettingur frá Steinnesi  8v. 8,39
7. Hinrik Bragason Straumur frá Breiðholti 7v. 8,30
8. Steingrímur Sigurðsson Sturla frá Hafsteinsstöðum  10v. 7,87

Tölt:

1. Hans Friðrik Kjerúlf Sigur frá Hólabaki 6v. 8,00
2. Lena Zielinski Gola frá Þjórsárbakka  6v. 7,83
3. Valdimar Bergstað Leiknir frá Vakurstöðum  9v. 7,67
4. Ólafur Magnússon Gáski frá Sveinsstöðum  11v. 7,67
5. Artemisia Bertus Rósant frá Votmúla I  11v. 7,50
6. Sigurður Sigurðarson Freyðir frá Hafsteinsstöðum  12v. 7,50
7. Þórdís Erla Gunnarsdóttir Pipar - Sveinn  6v. 7,33
8. Gústaf Ásgeir Hinriksson Knörr frá Syðra Skörðugili 13v. 6,83
9. Bylgja Gauksdóttir Hera frá Auðsholtshjáleigu  6v. 6,83
10. Teitur Árnason Váli frá Vestmannaeyjum 10v. 5,83