Frá vinstri: Guðni Halldórsson formaður LH, Telma L. Tómasson, Linda B. Gunnarsdóttir, Jóna Dís Bragadóttir, Hulda G. Geirsdóttir, Þorvarður Helgason, Hjörtur Bergstað, Haraldur Þórarinsson og Gunnar Sturluson.
Á hverju Landsþingi heiðrar LH nokkra félagsmenn sína sem skilað hafa miklu til starfa hestamannafélaganna í landinu. Að þessu sinni voru átta félagar heiðraðir.
Gunnar Sturluson:
Gunnar Sturluson var stjórnarmaður og varaformaður Landssambands hestamannafélaga á árunum 2008-2012. Áður var hann formaður öryggisnefndar LH frá 2007-2008. Hann var formaður Snæfellings frá 2007-2012. Árin 2009-2013 var hann formaður framkvæmdanefndar Fjórðungsmóts Vesturlands. Hann var kjörinn í stjórn FEIF árið 2011, og var varaforseti FEIF 2011-2014. Gunnar var kjörinn forseti FEIF árið 2014 en hann mun láta af embætti sem forseti í febrúar næstkomandi eftir 9 ár sem forseti.
Haraldur Þórarinsson:
Haraldur Þórarinsson var formaður Hestaíþróttafélagsins Sleipnis frá 1991 til 1995. Haraldur var formaður LH frá 2006 til 2014 eða um 12 ára skeið. Hann var varaformaður LH frá 1998 til 2006 og í varastjórn LH frá 1995 til 1998. Einnig var hann formaður LM ehf. frá 2008-2014. Hann var einnig formaður Landsmóts ehf frá 2008-2014. Á þessum árum vann hann ásamt öðru fólki að því að sameina Landssamband Hestamanna og Hestaíþróttasambandið undir merkjum ÍSÍ. Hann vann að stofnun Landsmót ehf, eflingu menntunar tengdri íslenska hestinum og að tryggja hana innan íslenska menntakerfisins. Hann lagði sitt að mörkum til að standa vörð um rétt hestamanna til að ferðast um landið, efla umgjörð Íslenska landsliðsins í hestaíþróttum, koma afrekshóp LH af stað, þróa kerfið “Klár í keppni “, skilgreina gangtegundir íslenska hestsins og þróun tölvukerfa í kringum keppni, kynna TRECK keppnina, þróa og efla starf innan FEIF og starf á milli Norðurlandanna til að reyna að tryggja forustu Íslands í málefnum tengda hestinum okkar.
Hjörtur Bergstað:
Fyrstu störf Hjartar í félagsmálum fyrir hestamenn voru árið 1985 á Landsmóti í Reykjavík. Hann var einnig í undirbúningsnefnd fyrir Landsmót 2000 og Landsmót 2018. Hann tók sæti í stjórn Fáks 1991 og einnig í stjórn íþróttadeildar Fáks. Hann varð varaformaður Fáks 1992 og var svo kosinn formaður Fáks 2013 og hefur verið það síðan. Hjörtur vakti veðreiðarnar upp á nýjan leik árið 1996 og kom þeim í beinar útsendingar í sjónvarpi. Hann sat í stjórn Meistaradeildar og kom því til leiðar að RUV hóf beinar útsendingar frá deildinni. Fyrsta verk hans sem formanns Fáks var að koma á fót félagshúsi fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í hestamennsku.
Hulda G. Geirsdóttir:
Hulda hefur starfað að félagsmálum hestamanna frá 14 ára aldri þegar hún tók sæti í stjórn Mána. Síðan þá hefur hún setið í ótal nefndum sem snúa að flestum hliðum hestamennskunnar, mótahaldi, æskulýðsstarfi, útbreiðslu – og kynningarstarfi, alþjóðlegu samstarfi og mörgu fleiru. Hún hefur einnig starfað sem dómari í hestaíþróttum í áratugi og bæði setið í stjórn dómarafélagsins hér heima og í íþróttadómaranefnd FEIF. Þá hefur hún sinnt þularstörfum á alls kyns sýningum og mótum víðs vegar um heim. Einnig hefur Hulda lagt mikla áherslu á aukna umfjöllun um hestaíþróttir í fjölmiðlum og komið að slíkri vinnu, bæði í gengum prent og ljósvakamiðla. Auk sjálfboðastarfa fyrir hestamennskuna hefur Hulda líka starfað fyrir flest þau stóru samtök sem að greininni koma, m.a. LH, Félag hrossabænda, Félag tamningamanna og Landsmót.
Jóna Dís Bragadóttir:
Jóna Dís hefur verð virk í þeim hestamannafélögum sem hún heftur verið í og má þar nefna sérstaklega hestamannafélagið Hörð og Fák. Jóna Dís sat í mörg ár í keppnisnefnd Hestamannafélagsins Harðar. Hún var kjörinn formaður Harðar árið 2012 og gegndi því starfi í fjögur ár. Árið 2014 var Jóna Dís kjörin í stjórn Landssambands Hestamannafélaga, varð varaformaður í kjölfarið og gegndi því hlutverki í fjögur ár. Hennar markmið í stjórn LH var að starfa fyrir alla hestamenn. Hún var m.a. í landsliðsnefnd LH þau 4 ár sem hún var varaformaður og skipulagði för landsliðsins á tvö Heimsmeistaramót ásamt öðrum sjálfboðaliðum. Hún tók einnig virkan þátt í reiðveganefnd. Hún átti þátt í að koma Horses of Iceland af stað og sat í verkefnastjórn þess í 4 ár fyrir LH. Jóna Dís er ein af stofnendum Meistaradeildar Æskunnar sem starfað hefur um árabil og er þar formaður stjórnar.
Linda B. Gunnalaugsdóttir:
Linda hefur komið að ýmsum mótum og félagsstörfum frá 2003. Hún sat í stjórn Meistaradeildar í hestaíþróttum frá 2010 til 2014. Hún var formaður Spretts á árinum 2014-2016. Það var svo árið 2015 að Linda kom að stofnun Áhugamannadeildar Spretts ásamt Magnúsi Benediktssyni. Þau höfðu starfað saman í stjórn Meistaradeildar og langaði að stofna deild fyrir áhugamenn í keppni með svipuð fyrirkomulagi og er í Meistaradeildinni. Linda kom einnig að stofnun svokallaðar Blue Lagoon deildar Spretts árið 2017 ásamt Magnúsi Benediktssyni: Þetta var mótaröð fyrir börn, unglinga og ungmenni með það að markmiði að opna aðgang yngri kynslóðarinnar að keppni. Linda hefur komið að og verið mótstjóri á fjöldi móta m.a. Íslandsmóti 2015 í Spretti, Gæðingamótum, úrtökum fyrir Heimsmeistaramót og svo mætti lengi telja.
Telma L. Tómasson:
Telmu Tómasson þarf vart að kynna fyrir fólki en hún er frumkvöðull þegar kemur að hestasporti í fjölmiðlum. Hún var ritstjóri Eiðfaxa árið 2005 og árið 2013 útskrifaðist hún sem þjálfari og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún hefur nánast alla tíð unnið í fjölmiðlum og nýtt vettvang sinn til að koma hestamennskunni á framfæri með ýmsum hætti, bæði til að miðla til hestamanna og fagfólks, en ekki síður óþreytandi að mæta í viðtöl og fjalla um hestamennsku á þann hátt að greinin höfði til þeirra sem ekki þekkja til hesta. Með góða blöndu af þekkingu á fjölmiðlavinnu og námi í hestafræðum hefur hún komið hestamennsku á framfæri með reglubundnum hætti í fjölmiðlum og lyft hestamennskunni á hærra plan á öllum stigum og gefið henni þann sess sem henni ber.
Þorvarður Helgason:
Þorvarður Helgason sat í stjórn LH frá árunum 2006-2014. Hann var einnig í Æskulýðsnefnd LH árin 2004-2013. Hann hefur séð um fánareiðina á Landsmótum frá 2012 til 2022. Þorri kom að stofnun úrvalshóps LH 2004-2012 sem síðan var breytt í landslið 21 árs og yngri. Þorvarður sat í stjórn Fáks frá 2005-2017. Hann var í barna- og unglingadeild Fáks 2000-2005 og sá um Æskuna og hestinn árin 1999-2005. Þorvarður situr einnig í Samtökum útivistarfólks og er þar í stjórn sem fulltrúi LH. ---- Þetta fólk eru fyrirmyndir og hvatning fyrir okkur öll og við óskum þeim til hamingju með gullmerkið.
Þetta fólk eru fyrirmyndir og óskar LH þeim til hamingju!