Hestadagur Líflands

Sunnudaginn 7. febrúar býður Lífland til Hestadags í Samskipahöllinni (Sprettshöllin).

Allir velkomnir og ókeypis inn
- Veglegir happdrættisvinningar í boði - 

Höllin opnar kl. 12 og verður ýmislegt tengt íslenska hestinum á boðstólum. Má þar nefna kynningarbása frá hestamannafélögum í Reykjavík og nágrenni sem kynna vetrardagskrá sína, hestabrautum háskóla og framhaldsskóla, Þorgrími Einarssyni listmálara, Landssambandi hestamanna, Pavo hestafóðurframleiðanda, Hrímni, Top Reiter og Líflandi. Lífland kynnir m.a. endurbætur á hestafóðrinu Krafti og Mætti.

Tilgangur dagsins er að kynna hvað er í gangi í íslenskri hestamennsku í dag en á boðstólum er efni jafnt fyrir lengra komna og þá sem vilja kynna sér út á hvað hestamennskan gengur.

Boðið verður upp á fyrirlestra jafnt og þétt yfir daginn þar sem fóðursérfræðingurinn Rob Krabbenburg frá Pavo í Hollandi mun ræða um fóðrun keppnishrossa „Feeding sporthorses: tricks and tips“  og fóðrun ræktunarhrossa „Feeding mares and young stock: What is new“. Þessir tveir fyrirlestrar eru fluttir á ensku en verða þýddir jafnóðum. Pavo er í dag stærsti framleiðandi á kjarnfóðri og vítamínum fyrir hross í Evrópu. Þá verða dýralæknarnir Dr. Susanne Braun og Dr. Björgvin Þórisson með fyrirlestra um sjúkdóma og vandamál tengd fóðrun hrossa.

Höllinni sjálfri verður svo skipt niður í hólf og verða bílar og hestakerrur frá Öskju, Jötni og Toyota Selfossi til sýnis auk þess sem hinn magnaði stóðhestur Arion frá Eystra-Fróðholti verður á svæðinu.

Eðalhestar teyma undir börnum yfir daginn en gert verður hlé á því þegar Sigurbjörn Bárðarson og Þórdís Erla Gunnarsdóttir verða með fróðlega sýnikennslu um hvernig eigi að velja sér reiðhest og algeng vandamál reiðhesta. Á stéttinni í anddyri hallarinnar mun Leó Hauksson, íslandsmeistari í járningum, sýna listir sínar. Þar verða einnig kynningar frá Kerckhaert og Mustad.

Boðið verður upp á hnakkamátun og hvetjum við fólk til að mæta með hestinn sinn og fá ráðleggingar varðandi val á hnakki við hæfi. Einnig verða hestar á staðnum til að máta hnakka á og fara allir sem mæta í hnakkamátun í pott og geta unnið frían miða á Landsmót hestamanna! Einnig bjóðum við upp á örmerkingu á hnökkum gegn vægu gjaldi.

Við hvetjum alla til þess að mæta og gera sér glaðan dag með okkur, allir velkomnir og ókeypis inn!

Lífland