Iceland Express til liðs við LH og LM

Iceland Express, Landssamband hestamannafélaga (LH) og Landsmót hestamanna (LM) hafa skrifað  undir samstarfssamning og stuðning Iceland Express við LH og LM næstu tvö árin. Iceland Express, Landssamband hestamannafélaga (LH) og Landsmót hestamanna (LM) hafa skrifað  undir samstarfssamning og stuðning Iceland Express við LH og LM næstu tvö árin.

Samningurinn felur í sér að Iceland Express styrkir landslið hestamanna til þátttöku á Norðurlandamóti í Svíþjóð í ágúst á þessu ári og á heimsmeistaramóti í Berlín árið 2013.

Að auki vinna Landssamband hestamannafélaga,  Landsmót hestamanna og Iceland Express saman að því að auka fjölda erlendra ferðamanna  sem koma mun á Landsmót hestamanna sem fram fer í Reykjavík dagana 25. júní til 1. júlí á þessu ári. Búist er við þrjú til fimm þúsund erlendum gestum á landsmótið, frá Norðurlöndunum, víðar úr Evrópu og norður Ameríku en um eitt þúsund kynbótahross og gæðingar koma fram á mótinu.

Búist er við að allt að þrjú þúsund Íslendingar fari á Heimsmeistaramótið í Berlín. Þar hafa þeir átt góðu gengi að fagna og eiga t.d. fimmfaldan heimsmeistara í tölti.

Samstarfsaðilar munu vinna saman að því að efla ferðamennsku í tengslum við íslenska hestinn og kynningu á honum erlendis. Vinsældir íslenska á erlendri grundu aukast stöðugt og hann á stóran þátt í kynningu lands og þjóðar.


Á myndinni:
Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamanna og Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Iceland Express skrifa undir samstarfssamning. Með þeim á myndinni eru Sigriður Helga Stefánsdóttir markaðsfulltrúi Iceland Express og Haraldur Örn Gunnarsson framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna.