Knapi ársins er Árni Björn Pálsson

Árni Björn Pálsson, knapi ársins 2021
Árni Björn Pálsson, knapi ársins 2021

Viðurkenningar fyrir knapa ársins og keppnishestabú ársins 2021 voru veittar á Hótel Natura dag. Verðlaunin eru gefin af Ásbirni Ólafssyni ehf. Einnig veitti Meistaradeildin í hestaíþróttum efnilegasta knapa ársins viðurkenningu í formi gjafabréfs fyrir reiðtímum hjá knapa í Meistaradeildinni.

Árni Björn Pálsson er knapi ársins 2021. Hann átti frábæru gengi að fagna í ár í öllum greinum hestamennskunnar. Of langan tíma tæki að telja upp öll hans afrek en þeim helstu verða gerð skil. Íslandsmeistari í tölti á Ljúfi frá Torfunesi með einkunnina 9,44 og efstur á stöðulista í þeirri grein með einkunnina 9,20. Reykjavíkurmeistari í tölti á Hátíð frá Hemlu með 9,28 í einkunn. Hann er efstur á stöðulista ársins í fimmgangi á Kötlu frá Hemlu II með 7,73 í einkunn og reið henni til úrslita í þeirri grein á Íslandsmótinu. Hann sýndi fjöldan allan af frábærum kynbótahrossum eins og áður hefur verið upp talið. Hann er ofarlega á stöðulistum í öllum vegalengdum skeiðgreina á þeim Óliver frá Hólaborg og Ögra frá Horni. Hann sýndi Ljósvaka frá Valstrýtu í B-flokki gæðinga og reið honum í 8,80 í forkeppni sem er þriðja hæsta einkunna ársins. Þá náði hann frábærum árangri í gæðingaskeiði á Snilld frá Laugarnesi.  Árni Björn er á meðal fremstu íþróttamanna landsins og mætir alltaf einbeittur og vel undirbúinn til leiks hann er öðrum knöpum fyrirmynd í framkomu og hlýtur titilinn knapi ársins með sæmd.

Jakob Svavar Sigurðsson er íþróttaknapi ársins 2021. Hann var í úrslitum á flestum af þeim mótum sem hann tók þátt í á árinu og nældi sér oft í sigur. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu í slaktaumatölti á Kopari frá Fákshólum og samanlagður fjórgangssigurvegari á Hálfmána frá Steinsholti en hann var í úrslitum bæði í tölti og fjórgangi á honum á Íslandsmótinu. Þeir Hálfmáni eru efstir á stöðulista ársins í fjórgangi og bættu svo rós í hnappagatið þegar þeir stóðu efstir í töltkeppni Fjórðungsmótsins í Borgarnesi. Jakob Svavar er öðrum knöpum fyrirmynd og mætir alltaf vel undirbúinn til leiks, hann er íþróttaknapi ársins.

Konráð Valur Sveinsson er skeiðknapi ársins 2021. Hann átti góðu gengi að fagna í skeiðgreinum í ár líkt og þau síðustu. Hann varð Íslandsmeistari í 250 metra skeiði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu en þeir urðu einnig tvöfaldir Reykjavíkurmeistarar á árinu í 250 metra og 100 metra skeiði. Þá voru þeir fljótastir í 100 metra skeiði á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi og sigruðu þá grein. Konráð Valur varð einnig stigahæsti knapi skeiðleika Skeiðfélagsins. Konráð Valur hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér sess á meðal bestu skeiðknapa sögunnar og hlýtur nú  titilinn skeiðknapi ársins fjórða árið í röð.

Daníel Jónsson er gæðingaknapi ársins 2021. Hann hefur lengi verið í fremstu röð afreksknapa. Hann reið Adrían frá Garðshorni á Þelamörk til sigurs í sterkum B-flokki gæðinga á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi með eftirminnilegum hætti. Þeir félagar sitja einnig efstir á stöðulista ársins í B-flokki með einkunnina 8,81 í forkeppni. Daníel slær ekki slöku við og mætir ár eftir ár með frábæra gæðinga til leiks og ólíklegt er að á því verði breyting á næstu árum, Daníel er gæðingaknapi ársins.

Guðmar Freyr Magnússon er efnilegasti knapi ársins 2021. Hann stóð sig afar vel á árinu. Hann varð Íslandsmeistari ungmenna í tölti á Sigursteini frá Íbishóli og vann ungmennaflokk á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi á Eldi frá Íbishóli. Hann er efstur á stöðulista ársins í tölti ungmenna. Hann náði einnig góðum árangri í fimmgangi á Rosa frá Berglandi og er ofarlega á stöðulista ársins í þeirri grein. Guðmar Freyr kemur vel fyrir með kurteisina að vopni og hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér, hann er efnilegasti knapi ársins.

Árni Björn Pálsson er kynbótaknapi ársins 2021. Hann sýndi 78 hross í fullnaðardómi í 81 sýningu. Aldursleiðrétt aðaleinkunn þeirra er 8,19 og átti hann margar eftirminnilegar sýningar. Hann sýndi m.a. hæst dæmda 5.vetra hest ársins, Magna frá Stuðlum, hæst dæmdu 5.vetra hryssu ársins, Valdísi frá Auðsholtshjáleigu, hæst dæmda 6.vetra hest ársins, Seðil frá Árbæ og hæst dæmdu hryssu ársins í elsta aldursflokki, Kötlu frá Hemlu II auk fjölda annarra gæðinga. Árni er prúðmenni sem ber virðingu fyrir störfum annarra og kemur fram af háttvísi og heiðarleika, hann er kynbótaknapi ársins.

Þúfur í Skagafirði eru keppnishestabú ársins. Að Þúfum í Skagafirði rækta þau Gísli Gíslason og Mette Mannseth afrekshross í fremstu röð og hafa gert um árabil. Hross frá þeim voru í úrslitum í öllum hringvallargreinum á Íslandsmótinu með knöpum sínum en það voru þau Skálmöld, Kalsi, Sólon, Blundur og List. Þá stóð Kalsi efstur í A-flokki gæðinga á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi auk þess að þau List og Blundur voru í A-úrslitum í B-flokki. Frábær árangur hjá búi þar sem að þegar þessi hross voru að koma í heiminn fæddust á bilinu 8-10 folöld á ári. Fleiri hross en þau sem áður hafa verið upp talinn standa að baki þessum frábæra árangri og má þar nefna þau Kaktus og Værð. Gísli og Mette temja, þjálfa og sýna langflest af sínum hrossum sjálf og eru fagmenn fram í fingurgóma.

Óskum öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju.

 

 

 

 

 

  • Konráð Valur Sveinsson, skeiðknapi ársins
  • Árni Björn Pálsson, kynbótaknapi ársins
  • Guðmar Freyr Magnússon, efnilegasti knapi ársins
  • Daníel Jónsson, gæðingaknapi ársins
  • Árni Björn Pálsson, knapi ársins
  • Jakob Svavar Sigurðsson, íþróttaknapi ársins