Landsmót hestamanna 2026 verður haldið á Hólum í Hjaltadal

Mynd: Feykir.is
Mynd: Feykir.is

Á fundi stjórnar LH þann 28. september, var ákveðið að Landsmót hestamanna 2026 verði haldið á Hólum í Hjaltadal. Gengið verður til samninga við Hestamannafélagið Skagfirðing um mótshaldið á grunni fyrirliggjandi samninga við Landsmót 2018, 2022 og 2024.

Stjórn LM ehf. auglýsti laust til umsóknar að halda landsmót hestamanna árið 2024. Þrjár umsóknir bárust sem voru frá hestamannafélögunum Skagfirðingi sem bjóða mótssvæðið á Hólum, Fáki sem býður mótssvæði sitt í Víðidal og Hestamannafélögunum á Suðurlandi sem bjóða mótsvæðið á Rangárbökkum. Landsmót hestamanna hafa verið haldin á öllum þremur stöðunum með miklum ágætum.

Þegar heimsfaraldurinn Covid19 skall á var mótið sem halda átti á Rangárbökkum árið 2020 fært til 2022 og að sama skapi var mótið sem halda á í Spretti 2022 fært til 2024. Umsóknaraðilum var gefinn kostur á að færa umsókn sína frá árinu 2024 til 2026. Allir þrír umsækjendurnir gerðu það.

Stjórn LM átti fund með umsækjendum og er afar jákvætt hversu mikill metnaður er hjá félögunum fyrir að halda glæsilegt landsmót 2026. Allir umsækjendur hafa stuðning sinna sveitarfélaga og þóttu allir uppfylla þau skilyrði og viðmið sem sett eru svo viðburðurinn verði ánægjulegur og hestamennskunni til framdráttar.

Landsmót var haldið á Hólum í Hjaltadal 1966 og 2016. Með þessari ákvörðun hefur stjórn LH félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Það að landsmótin séu haldin í mismunandi landshlutum styrkir greinina og viðkomandi svæði hverju sinni auk þess sem það mun hafa jákvæð áhrif á hestabraut Háskólans á Hólum sem er æðsta menntastofnun íslenska hestsins í heiminum.

Það er mjög jákvætt fyrir aðdáendur íslenska hestsins um allan heim að fyrir liggur ákvörðun um staðsetningu næstu þriggja landsmóta, 2022, 2024 og 2026.

Með kveðju,
Stjórn LH.