Landsþing hafið á Akureyri

61. landsþing LH er hafið hér í Giljaskóla á Akureyri. Gríðarlega vel er tekið á móti þingfulltrúunum sem koma alls staðar að af landinu. Mjög góð mæting er á þingið eða alls 172 fulltrúar af 181 sem rétt hafa til að sækja þingið. 

Dagskráin er hefðbundin. Formaður Léttis Björn Jóhann Jónsson bauð gesti velkomna norður og hlakkaði til að eyða helginni með hestafólki. Formaður LH Lárus Ástmar Hannesson ávarpaði þingið og setti og bauð Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ velkominn í pontu. 

Níu félagsmálatröll voru heiðruð með gullmerki LH að þessu sinni. Þetta fólk á það sameiginlegt að hafa lagt mikið af mörkum í sínum félögum til félagsstarfsins um áratugabil. Þetta er grasrótin í starfi okkar og heiður stjórnarmanna að fá að næla gullmerki sambandsins í þetta heiðursfólk og þakka þeim fyrir ómetanleg störf í gegnum tíðina, þó þau séu auðvitað hvergi nærri hætt!

Þessir hlutu gullmerki í dag:

•Ármann Gunnarsson
•Ármann Magnússon
•Áslaug Kristjánsdóttir
•Björn Jóhann Jónsson
•Hólmgeir Valdemarsson
•Jónas Vigfússon
•Ragnar Ingólfsson
•Sigfús Ólafur Helgason
•Þorsteinn Hólm Stefánsson
 
Æskulýðsbikar LH er veittur til skiptis á landsþingum og formannafundum LH. Að þessu sinni hlaut hestamannafélagið Hringur á Dalvík fyrir framúrskarandi starf í æskulýðsmálum. Skýrslur allra félaga eru nú þegar aðgengilegar á vefnum okkar. 

LH óskar þessu dugmikla fólki innilega til hamingju með verðskuldaðar viðurkenningar sínar.