Landsþing LH 2020

Landsþing Landssambands hestamannafélaga verður haldið dagana 16. og 17. október n.k. í Varmahlíð í Skagafirði í boði Hestamannafélagsins Skagfirðings.

Formönnum og þingfulltrúum er bent á að kynna sér vel 1. kafla í lögum og reglum LH.

Rétt til þingsetu eiga 186 þingfulltrúar frá 42 hestamannafélögum og reiknast fjöldi frá hverju félagi þannig: Félög með færri en 75 félagsmenn fá einn fulltrúa, félög með 76-150 félagsmenn fá tvo fulltrúa, félög með 151-225 fá þrjá fulltrúa o.s. frv.

Tillögur og önnur málefni sem hestamannafélögin óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu verða að berast skrifstofu LH í síðasta lagi 18. september 2020. Frestur til að skila inn breytingartillögum við keppnisreglur var 16. júlí, þremur mánuðum fyrir upphaf landþings.

Tilkynning um framboð til embættis formanns eða til stjórnar LH skal berast kjörnefnd minnst hálfum mánuðum fyrir landsþing, eða 2. október. Sitjandi formaður og aðrir stjórnarmenn skulu tilkynna kjörnefnd hvort þeir gefi kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa minnst fjórum vikum fyrir landsþing LH, eða 18. september. Kjörnefnda skipa Margeir Þorgeirsson formaður, Helga Claessen og Þórður Ingólfsson. Tilkynningar um framboð skulu berast til formanns kjörnefndar á netfangið vodlarhestar@gmail.com.

Hafa ber í huga að í ljósi aðstæðna vegna COVID-19 má búast við að aðlaga þurfi þinghaldið að þeim sóttvarnarreglum sem þá verða í gildi.

Skrifstofa LH veitir allar upplýsingar um þingið í síma 514 4030 eða með tölvupósti á netfangið lh@lhhestar.is