Myndefni LM verður aðgengilegt í Worldfeng

Sigurður Ingi, Lárus Ástmar og Jón Baldur
Sigurður Ingi, Lárus Ástmar og Jón Baldur

 

Áskrifendum WorldFengs býðst nú að kaupa áskrift að myndböndum sem sýna keppnishesta á Landsmóti hestamanna 2014. Síðar verður bætt við myndböndum frá öðrum landsmótum og keppnum. Sigurður Ingi Jóhannesson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, opnaði fyrir LM myndböndin með formlegum hætti á bás WorldFengs í BreedersCafé á Heimsmeistaramótinu í Herning í gær.

Lárus Ástmar Hannesson, formaður LH, sagði af þessu tilefni að okkur beri skylda til að nýta það efni sem til er til hagsbóta fyrir hestamennskuna, hrossaræktendur og keppnisfólk inn í framtíðina.  Hér verður hægt að skoða bæði myndbönd af hestum í keppni og til verður enn betri gagnagrunnur en áður sem mun stækka og eflast í samstarfi við WorldFeng.  Þetta mun leysa af hólmi úreltar útgáfur á DVD diskum eftir Landsmót, nú munu allar upptökur fara beint inn í WorldFeng eftir Landsmót á Hólum 2016.

Landsmót hestamanna ehf. leitaði til WorldFengs fyrr á árinu um samvinnu um að klippa og vinna öll myndbönd frá landsmótum og gera þau aðgengileg í WorldFeng. Um að ræða samstarfsverkefni Landsmóts hestamanna ehf. og WorldFengs. Myndböndin verða varðveitt sem hluti af upprunaættbók íslenska hestsins enda um menningarverðmæti að ræða. Byrjað var að vinna við myndböndin í byrjun sumars og eru í dag komin inn rúmlega 200 myndbönd af hrossum á Landsmótinu 2014 (eitt myndband fyrir hvert hross) eða samtals um 8 klst. af efni. Í hverri viku bætast við ný myndbönd þar til öll hross hafa verið sett inn. Hægt er að skoða myndböndin eftir keppnisgreinum og aldursflokkum en einnig er hægt að skoða þau hjá hverju hrossi í flipanum Myndir/Myndbönd í WorldFeng. Þessi þjónusta býðst eingöngu áskrifendum WorldFengs.

 

Frekari upplýsingar veita:

Lárus Ástmar Hannesson í síma 8980548

Jón Baldur Lorange í síma 8955512.