Myndir í Kortasjá LH

Kortasjá LH er afar gagnlegt verkfæri þegar kemur að skipulagningu og undirbúningi fyrir hestaferðir sumarsins. Í Kortasjánni eru ótal reiðleiðir í öllum landshlutum, skálar merktir inn og auðvelt að mæla vegalengdir.

Nýlega kom inn í Kortasjána sá möguleiki að setja inn myndir í gegnum myndavefsvæðið flickr.com og geta allir sett inn myndir sem vilja.

Til að setja inn mynd þarf að stofna flickr-aðgang, setja mynd inn á þinn reikning og deila henni í grúppu sem heitir „Kortasjá LH“. Myndin þarf að hafa gps-punkta og þegar umsjónarmaður grúppunar samþykkir myndina birtist hún í Kortasjánni á þeim stað sem hún var tekin. Flestir símar og nettengdar myndavélar bjóða upp á þann möguleika að skrá gps-staðsetningu myndar.

Óskað er sérstaklega eftir myndum sem er lýsandi fyrir reiðleiðina, til dæmis fallegar landslagsmyndir þar sem reiðleiðin sést vel.