Næsti bær við Landsmót

Atriði Loga Biskupstungum. Ljósm:Hilda/Eiðfaxi
Atriði Loga Biskupstungum. Ljósm:Hilda/Eiðfaxi
Um fimm þúsund manns komu á sýninguna Æskan og hesturinn sem haldin var í Reiðhöllinni í Víðidal um helgina. Sýningin er því næst stærsta hestamót sem haldið er á Íslandi. Aðeins Landsmót fær fleiri gesti. Alls voru haldnar fjórar sýningar og fullt var út úr dyrum á þeim öllum. Á einni sýningunni þurfti að loka húsinu þar sem ásóknin var svo mikil að komast inn. Um fimm þúsund manns komu á sýninguna Æskan og hesturinn sem haldin var í Reiðhöllinni í Víðidal um helgina. Sýningin er því næst stærsta hestamót sem haldið er á Íslandi. Aðeins Landsmót fær fleiri gesti. Alls voru haldnar fjórar sýningar og fullt var út úr dyrum á þeim öllum. Á einni sýningunni þurfti að loka húsinu þar sem ásóknin var svo mikil að komast inn.


Ólafur Árnason, framkvæmdastjóri sýningarinnar, segir að sýningin hafi í heild heppnast vel. Aðsóknin hafi verið mjög góð í ljósi þess að sýningin var ekki mikið auglýst. Peningar hafi einfaldlega ekki verið til. Hann vill koma á framfæri þökkum til Fréttablaðsins og Morgunblaðsins fyrir að hlaupa undir bagga.


„Það gekk erfiðlega að fá styrktaraðila, eins og flestir geta ímyndað sér. Það gerði alla framkvæmdina þyngri en áður. Aðgangur á sýningarnar er ókeypis, sem öðrum þræði er megin útgangspunkturinn í þessu öllu saman; að gefa almenningi kost á að koma á skemmtilega fjölskylduskemmtum þar sem hesturinn er í aðalhlutverki.



Við skárum niður ýmsa liði til að ná endum saman. Til dæmis létum við ekki taka sýninguna upp á myndband eins og áður. Við ákváðum líka að taka sjálf að okkur kynningu á sýningunum í stað þess að ráða atvinnumann. Það kostar töluverða peninga að halda svona sýningu. Það þarf að leigja Reiðhöllina, hljóðkerfi, skemmtikrafta, kaupa mat handa krökkunum, og svo framvegis,“ segir Ólafur.

Um 250 krakkar á aldrinum eins árs til tvítugs tóku þátt í sýningunni. Hrossin voru hátt í tvö hundruð. Hátt í hundrað fullorðnir komu einnig að sýningahaldinu, bæði við að aðstoða börnin og hjálpa til við sýningahaldið. Það eru hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu sem standa að sýningunni: Fákur, Gustur, Sörli, Sóti, Hörður, Máni og Andvari. Öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu. Skyldi ekki vera erfitt að fá fólk til að taka þátt í svona slag?

„Þetta er náttúrulega mikil vinna. Þetta er sjöunda árið sem ég tek þátt í þessu og ég held að það sé kominn tími til að ég taki mér frí,“ segir Ólafur. „Reyndar segja nú alltaf flestir eftir seinni sýninguna á sunnudeginum að nú sé komið nóg. Svo birtast þeir flestir að ári. Og það er kannski eitt af því skemmtilega við þetta allt saman; að sjá sömu andlitin aftur og aftur. Það segir manni að þetta sé skemmtilegt.

Við vorum einmitt að tala um hvað það væri gaman að sjá krakkana í afrekshópnum, sem jafnan er síðasta atriði sýningarinnar. Flestir þeirra byrjuðu í pollaatriði sýningarinnar fyrir mörgum árum og hafa tekið þátt í mörgum sýningum á Æskan og hesturinn síðan.
Þess má líka geta að við fengum góða gesti til okkar að þessu sinni. Krakkar frá hestamannafélaginu Loga í Biskupstungum voru með atriði og líka krakkar frá Reiðskóla Hestheima. Við færum þeim bestu þakkir,“ segir Ólafur Árnason að lokum.