Norðurlandamóti í hestaíþróttum lokið

Leikur frá Lækjamóti II og Helga Una Björnsdóttir sigurvegarar í A-flokki gæðinga
Leikur frá Lækjamóti II og Helga Una Björnsdóttir sigurvegarar í A-flokki gæðinga

Norðurlandamót í hestaíþróttum

 

Norðurlandamótið í hestaíþróttum árið 2022 fór fram á Álandseyjum nú um liðna helgi.

Mótið fór fram á keppnissvæði sem í raun tilheyrir kerrubrokkkappreiðum, en hefur einnig verið byggt upp sem keppnissvæði fyrir íslenska hestinn meðfram því.

Hvað þátttöku íslenska landsliðsins varðar eru Norðurlandamótin iðulega töluvert frábrugðin heimsmeistaramótunum, og þátttaka liðsins byggir að stærstum hluta á knöpum sem taka þátt á lánshestum frá Norðurlöndunum. Að þessu sinni var aðeins einn knapi sem flutti með sér hest frá Íslandi til þátttöku á mótinu.

Knapar liðsins keppa því flestir á hestum sem þeir þekkja takmarkað sem gerir samkeppnisstöðu liðsins á mótinu frábrugðna keppendum annara landsliða, sem mæta til leiks með þrautreynd keppnispör í allar greinar. 

Landsliðsþjálfarar Íslands og landsliðsnefnd tóku snemma árs ákvörðun um að áhersla yrði lögð á  unglinga- og ungmennaflokkana á mótinu þetta árið, og Ísland sendi nokkuð stórt lið til þátttöku í yngri flokkum mótsins, en á móti fámennt en reynslumikið lið fullorðinna knapa.

Mótið tókst vel, en vallaraðstæður þóttu þó ögn erfiðar á aðalvelli mótsins, og höfðu mótshaldarar í nógu að snúast við að halda vellinum í nothæfu ástandi á meðan á keppni stóð.

Lið Svíþjóðar vann liðabikarinn mótsins sem stigahæsta þjóðin og unnu til fjölda verðlauna á mótinu. Svíar voru sigursælir í skeiðgreinum mótsins í öllum flokkum og unnu til fjölda gullverðlauna þar ásamt góðum árangri í hringvallargreinum.

Danir voru sigursælir í hringvallargreinum íþróttakeppninnar og áttu sigurvegara í tölti og fjórgangi fullorðinna ásamt því að eiga sigurvegara í öllum flokkum slaktaumatölts T2.

Lið Íslands komst á verðlaunapall í mörgum greinum á mótinu, og munaði heldur betur um gullverðlaun Matthíasar Sigurðssonar í Tölti T1 ungmenna, og Eysteins Tjörva Kristinssonar í ungmennaflokki gæðingakeppninnar, en þeir lögðu sín lóð heldur betur á vogarskálar liðsins.

Matthías vann tölt T1 ungmenna á Roða frá Garði ásamt því að næla sér í silfurverðlaun í fjórgangi V1. Hann endaði svo í 3. Sæti í unglingaflokki gæðingakeppninnar á Caruzo frá Torfunesi.

Eysteinn Tjörvi Kristinsson var eini knapi íslenska liðsins sem tók keppnishest sinn frá Íslandi til þátttöku á mótinu. Laukur frá Varmalæk tók ferðalaginu og veðurbreytingum vel, og gerðu þeir félagar sér lítið fyrir og sigruðu ungmennaflokk nokkuð örugglega.

Leikur frá Lækjarmóti kom, sá og sigraði í A-flokki gæðinga með Helgu Unu Björnsdóttur í hnakknum, en Helga Una tók við hestinum í úrslitum fyrir James Faulkner sem kom tveimur hestum inn í úrslit í A-flokki, og hann reið sjálfur á Eldjárni frá Skipaskaga og enduðu þeir í 7. Sætinu.

Í fullorðinsflokki íþróttakeppninnar voru aðeins tveir knapar skráðir til leiks fyrir Íslands hönd, og það voru þeir Sigurður Vignir Matthíasson sem keppti í fimmgangi og gæðingaskeiði á Starkari frá Egisstaðakoti og Jakob Svavar Sigurðsson sem keppti í fjórgangi og tölti á Hálfmána frá Steinsholti. 

Jakob Svavar og Hálfmáni lentu í óhappi í forkeppni fjórgangsins og hættu keppni þar sem þeir urðu fyrir utanaðkomandi truflun og því miður fengu þeir félagar ekki tækifæri á því að endurtaka sína sýningu eftir töluverða reikistefnu hjá mótsstjórn.

Í tölti T1 komu þeir svo sterkir til leiks og komust í A-úrslit í sterkri keppni og enduðu svo í 6 .sæti töltsins.

 Heilt yfir má segja að árangur íslenska liðsins á mótinu hafi verið nokkuð góður og allir knapar í unglinga- og ungmennaliði Íslands náðu að komast í úrslit eða verðlaunasæti í einhverjum greinum. Knapar liðsins sýndu mikla fagmennsku og yfirvegun við að kynnast og keppa á nýjum hrossum eftir stutta viðkynningu og náðu í ljósi þessa mjög góðum árangri á mótinu.

Landslið Íslands á mótinu, þjálfarar og landsliðsnefnd geta vel við unað í mótslok og ljóst að það verður heilmargt um að hugsa þegar horft er fram á næsta stóra verkefni íslenska landsliðsins í hestaíþróttum sem er þátttaka á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi næsta sumar.

 

Norðurlandamót verðlaunahafar Íslands

T1 unglinga

Embla Lind Ragnarsdóttir og Smiður från Slätterne 4. Sæti eftir forkeppni 5,57

T1  ungmenna

Matthías Sigurðsson og Roði frá Garði 1. Sæti 7,06 (4. Sæti í forkeppni með 6,37)

Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir og Heiður från Boänge 7. Sæti  6,33 (8. Sæti fork. 6,23)

T1 Fullorðnir

Jakob Svavar Sigurðsson og Hálfmáni frá Steinsholti 6. Sæti 7,72 (5. Sæti 8,03 í forkeppni)

 

F1 ungmenni

Glódís Rún Sigurðardóttir og Glaumur frá Geirmundarstöðum 5. Sæti 6,33 (4.sæti 6,03 í forkeppni)

Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Hetja frá Árbæ 7. Sæti (3. Sæti 6,17 í forkeppni)

F1 fullorðnir

Sigurður Vignir Matthíasson og Starkar frá Egilsstaðakoti 8. Sæti 6,4 (6. Sæti 6,6  í forkeppni)

 

V1 unglinga

Embla Lind Ragnarsdóttir og Smiður från Slätterne 3. Sæti í forkeppni 6,27

V1 ungmenna

Matthías Sigurðsson og Roði frá Garði 2. Sæti 6,77 (2. Sæti í forkeppni 6,63)

Hákon Dan Ólafsson og Viktor frá Reykjavík 3. Sæti 6,60 (2. Sæti í forkeppni (6,63)

Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal og Kjarkur frá Lækjarmóti II 8. sæti  6,37 (7. Sæti i forkeppni 6,47)

 

T2 ungmenna

Eva Kærnested og Garri frá Fitjum 3. Sæti 6,46 (3. Sæti í forkeppni 6,63)

Védís Huld Sigurðardóttir og Stimpill frá Varmadal 4. Sæti 6,21 (3. Sæti í forkeppni 6,63)

Guðmar Hólm Ísólfsson og Kjarkur frá Lækjarmóti II 5. Sæti 5,58 (5. Sæti í forkeppni 6,50)

Kristófer Darri Sigurðsson og Valur frá Heggsstöðum 7. Sæti  6,50 (11. Sæti í forkeppni 5,90)

Selma Leifsdóttir og Fjalar frá Selfossi 9. Sæti  5,96 (7. Sæti í forkeppni 6,17)

Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Hetja frá Árbæ 11. Sæti  5,63 (8. Sæti í forkeppni 6,13)

 

PP1 gæðingaskeið fullorðinna

Sigurður Vignir Matthíasson og Starkar frá Egilsstaðakoti 7. Sæti 6,58

PP1 ungmenna

Hulda María Sveibjörnsdóttir og Hetja frá Árbæ 4. Sæti 5,17

Hekla Rán Hannesdóttir og Fylkir frá Oddsstöðum I 5. Sæti 5,04

 

Gæðingakeppni unglingaflokkur

Caruzo frá Torfunesi og Matthías Sigurðsson 3. Sæti 8,46 (4. Sæti í forkeppni 8,39)

Konráð från Navåsen og Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal 5. Sæti 8,44 (5. Sæti í forkeppni 8,38)

Gæðingakeppni ungmennaflokkur

Laukur frá Varmalæk og Eysteinn Kristinsson 1. Sæti 8,64 (1. Sæti í forkeppni 8,46)

Riddari frá Hofi og Védís Huld Sigurðardóttir 6. Sæti 8,38 (6. Sæti í forkeppni 8,36)

Glóð frá Háholti og Hulda María Sveinbjörnsdóttir 10. Sæti  8,26 (10. Sæti í forkeppni 8,21)

Gæðingakeppni B-flokkur

Leistur från Toftinge og Hanna Rún Ingibergsdóttir  7. Sæti 8,52 (6. Sæti í forkeppni 8,44)

Gæðingakeppni A-flokkur

Leikur frá Lækjamóti II og Helga Una Björnsdóttir  1. Sæti 8,71(6. Sæti í forkeppni 8,45 með James Faulkner)

Eldjárn frá Skipaskaga og James Faulkner 7. Sæti 8,32 (7. Sæti í forkeppni 8,45)

Blikar frá Fossi og Sigurður Vignir Matthíasson 11. Sæti 8,49 (12. Sæti í forkeppni 8,33)