Ráðleggur Tryggva að mæta ekki

Baldvin Ari Guðlaugsson handhafi Ormsbikarsins eftirsótta, sem er veittur fyrir sigur í tölti á Ístölt Austurland, er ekki af baki dottinn. Hann er bjartsýnn fyrir keppnina á laugardaginn og segist taka stefnuna á að vinna allar greinarnar þrjár, A-flokk, B-flokk og tölt. Baldvin Ari Guðlaugsson handhafi Ormsbikarsins eftirsótta, sem er veittur fyrir sigur í tölti á Ístölt Austurland, er ekki af baki dottinn. Hann er bjartsýnn fyrir keppnina á laugardaginn og segist taka stefnuna á að vinna allar greinarnar þrjár, A-flokk, B-flokk og tölt. "Stefnan er að sjálfsögðu sigur í öllum greinum. Ég tel að Tryggvi Björnsson ætti ekki að vera að stressa sig á þessu, það er jafnvel óþarfi fyrir hann að mæta. Það er mjög ólíklegt að hann eigi nokkurn séns." segir Baldvin Ari og leggur svo mikla áherslu á orð sín að ómögulegt er að vita hvort hann talar í gríni eða alvöru.


"Ég ætla að mæta með Sindra frá Vallanesi í B-flokk og tölt. Sindri er jafnvel sterkari í B-flokk en A-flokki, það er nú ástæðan fyrir því að ég stilli honum upp þar. Í A-flokknum er ég með líklegan sigurvegara, Bylgju frá Efri-Rauðalæk. Það er meri á sjötta vetri með 9 fyrir skeið í kynbótadómi, hún er að stíga sín fyrstu skref í keppni og er systir Glampa frá Efri-Rauðalæk." segir Baldvin.

Það er ljóst að í Egilsstaðavíkinni á laugardag mætast stálin stinn, og ljóst að hart verður tekist á í keppninni um Ormsbikarinn eftirsótta. Fyrrverandi handhafar hans eru: Leó Geir Arnarson, Guðmundur Björgvinsson, Daníel Jónsson, Hinrik Bragason og nú síðast Baldvin Ari Guðlaugsson. Engum hefur enn tekist að hampa bikarnum tvö ár í röð og því spurning hvort Baldvin Ara tekst það ómögulega.


Einnig þykir það athyglisvert að heimamaðurinn og töltmeistarinn Hans Friðrik Kjerúlf hefur enn ekki náð að snerta Ormsbikarinn og hefur eignað sér annað sætið undanfarin ár.

Mynd: Baldvin Ari og hinn flugvakri Sindri frá Vallanesi, sem þykir líklegur sigurvegari í B-flokk.