Reglur um gæðingafimi frá starfshópi LH

Á síðasta landsþingi LH á Akureyri var samþykkt að LH yrði leiðandi í því að gera gæðingafimi að fullgildri keppnisgrein í lögum og reglum sambandsins og gert að skipa starfshóp til þess verks. Stjórn LH skipaði starfshóp með fulltrúum þeirra aðila sem greinargerðin með samþykktinni lagði til. Hópinn skipa Hulda Gústafsdóttir fulltrúi keppnisnefndar LH, Súsanna Sand Ólafsdóttir fulltrúi FT, Mette Mannseth fulltrúi Hólaskóla, Sigurður Ævarsson fulltrúi HÍDÍ, Erlendur Árnason fulltrúi GDLH. Stjórn bætti svo í hópinn, Ísólfi Líndal, Heklu Katharínu Kristinsdóttur, Guðmundi Björgvinssyni, Viðari Ingólfsyni og Hjörnýju Snorradóttur starfsmanni LH sem var falið að leiða hópinn.

Hópurinn var mjög metnaðarfullur og áhugasamur um verkefnið og mikil orka á löngum fundum. Afrakstur vinnunnar eru drög að nýrri reglugerð um gæðingafimi sem ætlunin er að bera undir Landsþing LH í haust til samþykktar. Hópurinn vonast til þess að keppt verði eftir þessum reglum í gæðingafimi á þessu keppnistímabili og að sem flest hestamannafélög haldi slík mót. Ekki síst vegna þess að mikilvægt er að það komi reynsla á reglurnar til þess að geta borið undir þingið eins mótaða reglugerð og mögulegt er.

Opin kynningarfundur verður auglýstur síðar

Við hvetjum knapa, stjórnir og keppnisnefndir hestamannafélaganna til að kynna sér reglurnar. Fyrir nánari upplýsingar sendið á hjorny@lhhestar.is