Sameining Loga, Smára og Trausta

Á aðalfundum hestamannafélaganna í uppsveitum Árnessýslu, Loga, Trausta og Smára,  var samþykkt að félögin skyldu sameinast í eitt og stærra hestamannafélag.  Starfssvæði sameinaðs félags verður, talið frá vestri til norðurs og austurs; Grímsnes-, og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur og Skeiða-og Gnúpverjahreppur í austri. 

Aðdragandinn

Stjórnir félaganna lögðu samhljóða tillögur fyrir aðalfundi Smára, Loga og Trausta, í jan og feb 2020, þar sem samþykkt var að stjórnir félaganna gengju til sameiningarviðræðna, undir þeim formerkjum að stofnað verði nýtt sameinað hestamannafélag í Uppsveitum Árnessýslu.  Ákveðið var að skipa í sameiningarnefnd, tveir frá hverju félagi og tók sú nefnd til starfa í maí 2020.

Nefndin lagði fram greinargerð um vinnu nefndarinnar til stjórna félaganna núna á vordögum og hún síðan kynnt fyrir félagsfólki allra félaganna með opnum kynningarfundum og dreift rafrænt.  Mjög góðar umræður sköpuðust hjá öllum félögunum og ljóst að félagsfólki allra félaganna er í mun að sameiningin takist vel og öll svæðin haldi sínum sérkennum, hefðum og venjum og að framkvæmd sameiningar sé tæknilega rétt unnin.

Það varð síðan ljóst að loknum aðalfundum félaganna að vilji til að sameinast er mikill og nánast einhugur um að ganga til sameiningar.  Skipað hefur verið í starfstjórn nýs félags sem mun hefja störf á næstu dögum.

Bragi Viðar Gunnarsson formaður Smára

Svavar Jón Bjarnason formaður Loga

Birgir Leó Ólafsson formaður Trausta