Samningur um reiðleiðaferla

 

Landssamband hestamannafélaga ( LH ) og Neyðarlínan ohf ( 112 ) hafa gert með sér samning um afnot 112 af reiðleiðaferlum og öðrum gögnum þeim tengd.

Samningurinn er um  heimild 112,  til að nota reiðleiðaferla og önnur þau gögn tengd þeim sem LH hefur sett upp með aðstoð myndkorta í eigu Loftmynda ehf.

Reiðferlar í eigu LH um reiðleiðir og önnur gögn tengd þeim verður bundin við kortagrunn 112 og notaður ef slys, náttúruhamfarir eða önnur óhöpp verða.

LH hefur safnað og birt í Kortasjá um 10.800 km af reiðleiðum, allar reiðleiðir sem þar birtast eru á staðfestu skipulagi viðkomandi sveitarfélaga. Áframhaldandi vinna við uppsetningu og söfnun reiðferla og tengdra gagna er verkefni sem unnið er á vegum LH. Vefslóð á kortasjána er um heimasíðu LH www.lhhestar.is og heimasíður flestra hestamannafélaga.

Önnur gögn tengd reiðleiðaferlum eru m.a. vegvísar sem eru númeraðir og byrjað er að setja upp áningahólf sem bera nöfn o.fl.

Nú er um að gera fyrir hestamenn að læra að staðsetja sig ef slys eða aðra vá ber að garði. Þeir hestamenn sem ríða t.d. inn í Heiðmörk vita væntanlega að þeir eru staddir þar, en geta kannski ekki staðsett sig nákvæmlega ef eitthvað óvænt henti. Það myndi auðvelda sjúkraflutningamönnum eða björgunarsveitum ef viðkomandi gæti upplýst um að hann hefði nýlega farið framhjá vegvísi nr. 11 og væri rétt ókominn að áningu Selgjá. Neyðarlínan hefði nákvæma staðsetningu viðkomandi í því tilfelli.

Allar reiðleiðir í kortasjánni eru númeraðar og er það gert í samvinnu við Vegagerðina. Allir þeir sem stunda hestaferðamennsku eða fara í hestaferðir ættu að leggja á minnið eða skrifa hjá sér númer þeirra reiðleiða sem ferðast er um. Sama á við um skála, neyðarskýli, áningar, fjárréttir og girðingarhólf ofl.

Til að stytta biðtíma ef slys eða aðra vá ber að garði er nauðsynlegt fyrir viðkomandi að geta staðsett sig nokkurn veginn.

 

Á meðfylgjandi mynd innsigla þeir samninginn Halldór Halldórsson formaður samgöngunefndar LH og Tómas Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri 112