Siggi hélt Suðra á toppnum

Sigurður Sigurðarson á Suðra frá Holtsmúla varð efstur í fjórgangi á öðru móti Meistaradeildar VÍS í gærkvöldi. Sigurður sigraði einnig í þessari grein í fyrra, þá á Yl frá Akranesi. Sigurður Sigurðarson á Suðra frá Holtsmúla varð efstur í fjórgangi á öðru móti Meistaradeildar VÍS í gærkvöldi. Sigurður sigraði einnig í þessari grein í fyrra, þá á Yl frá Akranesi. Suðri hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í fjórgangi, undir hnakk hjá hinni snjöllu reiðkonu Olil Amble. Það var því nokkur eftirvænting hjá áhorfendum að sjá hvernig Sigurður höndlaði verkefnið. Ekki leit það vel út í forkeppni. Suðri var ósáttur, einkum á tölti, og gangskiptingar óöruggar. Þeir félagar komust þó í A úrslit.

En það var annað uppi á teningnum í úrslitunum. Enda Sigurður þar jafnan í essinu sínu. Það er greinilegt að Sigurður hefur lagt mikið upp úr því að breyta stillingu hestsins á tölti – og honum virðist vera að takast það. Abstrakt brokkið hans Suðra var á sínum stað, og fékk hann 9,0 fyrir það hjá öllum dómurum í úrslitum. Það fór svo að Sigurður stóð uppi sem sigurvegari í lokin, með sjö stiga forskot á næsta keppanda, Jakob Sigurðsson á Auði frá Lundum. Báðir eru þeir í liði Skúfslækjar.

Nýjir hestar og knapar létu að sér kveða í A úrslitum í fjórgangi. Daníel Jónsson hafnaði í fimmta sæti á Tóni frá Ólafsbergi. Þess má geta að Tónn er með 9,0 fyrir skeið, þannig að samkvæmt þessari frammistöðu ættu þeir félagar að geta gert ágæta hluti í fimmgangi. Daníel sýndi á sannfærandi hátt að færni hans er ekki bundin við kynbótabrautina. Framúrskarandi góður reiðmaður Daníel, hesturinn mjúkur og framsækinn.




Kjuði frá Kirkjuferjuhjáleigu er nýr hestur í keppni. Ræktaður og taminn af Trausta Þór Guðmundssyni á Kirkjuferjuhjáleigu. Knapi Hulda Gústafsdóttir. Hulda reið verulega gott prógramm í forkeppni en hesturinn var síðri í úrslitum. Ljóst er að hér er á ferðinni hestur sem gæti hæglega komist á toppinn í þessari grein. Stór, léttbyggður og glæsilegur.

Hinn ungi Klerkur frá Bjarnanesi, sex vetra stóðhestur, stóð sig vel hjá Eyjólfi Þorsteinssyni. Klerkur sló í gegn á FM2007 á Iðavöllum en náði sér ekki á strik á sýningum í fyrra. Hann er nú á uppleið aftur og kunnu áhorfendur greinilega að meta hans mikla og ýkta fótaburð.

Annar stóðhestur vakti verulega athygli. Það var Náttar frá Þorláksstöðum, knapi Hinrik Bragason. Hinrik hafnaði í B úrslitum eftir forkeppni, vann hana og deildi öðru til þriðja sæti í lokin ásamt Jakobi og Auði. Náttar er stórglæsilegur stóðhestur, tinnusvartur og höfðinglegur. Gangtegundir hans bjóða auk þess upp á mikla möguleika í íþróttakeppni. Reiðmennska Hinriks eins og ævinlega, í senn fáguð og krefjandi. Snjall reiðmaður.


Úrslit:

1 Sigurður Sigurðarson Skúfslækur Suðri frá Holtsmúla 7,80

2 Jakob S Sigurðsson Skúfslækur Auður frá Lundum 7,73

2 Hinrik Bragason Hestvit Náttar frá Þorláksstöðum 7,67

4 Hulda Gústafsdóttir Hestvit Kjuði frá Kirkjuferjuhjáleigu 7,20

5 Daníel Jónsson Top Reiter Tónn frá Ólafsbergi 7,17

6 Eyjólfur Þorsteinsson Málning Klerkur frá Bjarnanesi 1 7,13