Stóðhestavelta landsliðsins - sjö frábærir gæðingar

Arður, Óskar, Pensill, Brynjar, Roði, Hákon og Leikur eru með í stóðhestaveltu til styrktar landsliði Íslands í hestaíþróttum. 

Miðasala hefst á tix.is 1. maí og dregið verður úr seldum miðum í beinni útsendingu á facebooksíðu LH. Miðaverð er kr. 40.000, girðingagjald er ekki innifalið.

Pensill frá Hvolsvelli 8,39.  Pensill fór 4ra vetra í mjög góðan dóm. Hann hefur hlotið 8,76 fyrir byggingu og 8,15 fyrir hæfileika, 9,5 fyrir bak og lend og samræmi, 9,0 fyrir háls/herðar/bóga, prúðleika og brokk.

Roði frá Brúnastöðum 8,60. Roði er upprennandi kynbóta- og keppnishestur. Hann hefur hlotið í kynbótadómi 9,0 fyrir tölt, fegurð í reið og hófa.

Óskar frá Breiðstöðum 8,45. Óskar er Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2018 og 2019. Hann hefur í kynbótadómi hlotið 9,5 fyrir tölt, stökk, vilja og geðslag og fegurð í reið og 9,0 fyrir brokk, hægt tölt og hægt stökk.

Leikur frá Vesturkoti 8,16. Leikur hefur átt farsælan keppnisferil í fjórgangi og hefur hæst fengið einkunnina 7,93 árið 2019. Hann bar sigur úr býtum í fjórgangi á „Allra sterkustu“ 2019, var í úrslitum í fjórgangi á Íslandsmóti 2018 og 2019.

Arður frá Brautarholti 8,49. Arður hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og Sleipnisbikarinn á landsmóti 2016. Undan honum eru mörg þekkt keppnis- og kynbótahross.

Brynjar frá Bakkakoti 8,68. Brynjar er upprennandi keppnis- og kynbótahestur og hefur hlotið í kynbótadómi 9,0 fyrir tölt, brokk, stökk, hægt stökk, fegurð í reið og hófa.

Hákon frá Ragnheiðarstöðum 7,97. Hákon hlaut fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi á landsmóti 2018. Hann hefur gefið mörg hátt dæmd afkvæmi, þar á meðal eru Hansa frá Ljósafossi og Ljósvaki frá Valstrýtu.