Stöndum saman hestamenn

Þetta eru einkennilegir tímar sem við lifum á. Við sem höfum haft það svo gott undanfarna áratugi, haft frelsi til athafna og litlar áhyggjur þurft að hafa af einhverju óvæntu sem umhverfið hefur fært okkur í fang. Þó einstaka jarðskjálftar og eldgos hafi aðeins ýtt við okkur hefur það ekki haft langvarandi áhrif á okkar daglega líf og efnahagslegt öryggi hvers tíma.

Í baráttunni við Covid19 faraldurinn höfum við í stjórn LH þurft að taka ákvarðanir sem gott hefði verið að vera laus við. Ákvarðanirnar höfum við tekið með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Við frestuðum landsmótinu sem halda átti 2020 aftur til 2022. Við ákváðum, í ljósi aðstæðna, að halda ekki Íslandsmótið sem vera átti í ágúst.

Stjórn LH hefur verið í góðu sambandi við önnur sérsambönd og íþróttahreyfinguna í heild. Það hefur verið mikill stuðningur og styrkur að hafa haft aðgang að okkar forystufólki í þessari baráttu í gegnum Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Við höfum í þessum darraðadansi leitað til hestamannafélaga og hestamanna og óskað eftir samstöðu við aðgerðir. Það hefur verið ánægjulegt að vinna með forsvarsmönnum félaganna og hestamönnum. Yfirleitt hefur okkar óskum verið vel tekið hvort sem það hefur snúið að lokun reiðhalla, aflýsingu móta eða almennum sóttvörnum í okkar umhverfi.

Núna stöndum við frammi fyrir því að taka ákvarðanir, í síbreytilegu umhverfi, um hvernig hægt er að halda fyrirhugað landsþing og svo í framhaldinu einhverskonar uppskeruhátíð.

Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að landsþingið sem halda átti í Skagafirði í boði Skagfirðings verður haldið í húsnæði ÍSÍ og í Laugardalshöll í Reykjavík. Verið er að skoða mögulegar útfærslur á þinginu en ekki hefur verið tekin ákvörðun hvaða leið verður farin en það mun verða gert á næstu dögum.

Það liggur fyrir að uppskeruhátíð getur ekki farið fram með þeim hætti sem við þekkjum en unnið er að tillögu varðandi hvernig best er að standa að uppskeruhátíðinni.

Vonandi fer að rofa til í þessari glímu þannig að starfið okkar á næsta ári verið ekki litað dökkum Covid19 litum heldur björtum litum miðnætursólar íslensks sumarkvölds.

Þrátt fyrir allt höfum við getað farið í hesthúsin, riðið út og notið okkar stórbrotna hests okkur til ánægju.

Verum ábyrg og auðmjúk gagnvart verkefninu og stöndum saman áfram sem hingað til. 

 

Lárus Ástmar Hannesson
Formaður Landssambands hestamannafélaga