Styrktartónleikar í Salnum 19. janúar

Hljómsveitirnar Band nútímans, Geirfuglarnir, Agent Fresco, Menn ársins, Aldinborg og Lame dudes koma fram á styrktartónleikum í Salnum fimmtudaginn 19. janúar næstkomandi. Hljómsveitirnar Band nútímans, Geirfuglarnir, Agent Fresco, Menn ársins, Aldinborg og Lame dudes koma fram á styrktartónleikum í Salnum fimmtudaginn 19. janúar næstkomandi.


Allur ágóði af miðasölu rennur til styrktar sonum Rafnars Karls Rafnarsonar en móðir þeirra og eiginkona Rafnars, Regína Sólveig Gunnarsdóttir, féll frá í október á síðasta ári. Vinir Rafnars og Regínu hafa ákveðið að leggja feðgunum lið og hafa skipulagt styrktartónleika í Salnum. Allir sem taka þátt í tónleikunum gefa vinnu sínu.

Miða er hægt að kaupa á www.salurinn.is. Miðaverð er aðeins 1500 kr. en auk þess er hægt að leggja feðgunum lið með því að leggja beint inn á sérstakan söfnunarreikning: Reikningsnúmer: 130-05-060930. Kennitala: 160768-5689.

Hljómsveitirnar sem koma fram:
Það verður skemmtilegur kokteill í tónum sem boðið verður upp á þetta kvöld, nýtt rokk, blús og popp og gamlar eitís-stjörnur úr Kópavogi skjóta upp kollinum svo fátt eitt sé nefnt.

Geirfuglarnir eru ein af skemmtilegtri hljómsveitum landsins og aðall þeirra er að leika útdauða tónlist í takt við tíðarandann, en það leiðist aldrei nokkrum manni þegar þessir öðlingar stíga á stokk.

Agent Fresco kom, sá og sigraði í músíktilraunum árið 2008 og vakti verðskuldaða athygli fyrir breiðskífinu A Long Time Listening, sem kom út í lok ársins 2010.

Hljómsveitin Lame Dudes er ein virkasta blúshljómsveit landsins um þessar mundir á þönum um allt land til að rífa landann upp úr öskustónni með hressandi bláma. Sveitarmeðlimir eru hressir og myndarlegir sexmenningar og það gneistar af þeim öllum.

Menn ársins gáfu út breiðskífu árið 2008 sem fékk glimrandi dóma og brátt hyllir undir útgáfu nýrrar skífu.

Aldinborg hefur gefið út tvö lög á youtube sem hafa vakið nokkra athygli. Hljómsveitin vinnur að gerð breiðskífu sem kemur út á árinu.

Band nútímans er ein af lífseigari unglingahljómsveitum Kópavogs og hún neitar að leggja árar í bát, enda meðlimir í fullu fjöri og halda traustataki í forna frægð.