Svar stjórnar LH við opnu bréfi Sveinbjörns

Landssamband hestamannafélaga
Landssamband hestamannafélaga

Ágæti Sveinbjörn.

Á Landsþingi Landssambands hestamanna (LH) haldið á Selfossi 17. og 18. október var eftirfarandi tillaga samþykkt:

„59. Landsþing Landssambands hestamanna, haldið á Selfossi 17. og 18. október 2014, beinir því til stjórnar Landssambands hestamanna að koma fram af þeim heiðarleika sem hestamönnum ber að sýna og standa við þá ákvörðun sem tekin var að loknu formlegu umsóknarferli um staðarval Landsmóts hestamanna árið 2016, og ljúki samningaviðræðum ef hægt er við Gullhyl um mótið“.

Fulltrúar stjórnar fóru í Skagafjörðinn til fundar við forsvarsmenn Gullhyls ehf., sveitarstjórnarfólk og formenn hestamannafélaga í Skagafirði föstudaginn 28. nóv. sl. Fundarefnið var að framfylgja ofannefndri tillögu , þ.e. að klára samningaviðræður við Gullhyl vegna Landsmóts 2016.  

Fundargerð frá þeim fundi er að finna á heimasíðu Landssambands hestamannafélaga (lhhestar.is) undir flipanum „fundargerðir“.  Þar kemur fram að farið var með fundarmenn í skoðunarferð á Vindheimamela og á Hóla í Hjaltadal og bæði svæðin kynnt.  Eftir kynninguna leist viðstöddum fulltrúum LH mun betur á svæði Hóla í Hjaltadal sem landsmótsstað heldur en Vindheimamela. Tekið var skýrt fram, að hér væru aðeins 3 fulltrúar stjórnar og því endurspeglaði þeirra álit ekki álit stjórnar í heild.

Á stjórnarfundi LH sem haldinn var þriðjudaginn 2. desember s.l. lagði formaður LH til að óskað yrði eftir því við Gullhyl að þeir færðu umsókn sína um Landsmót 2016 frá Vindheimamelum að Hólum í Hjaltadal.  Stjórnarmenn voru sammála því að aðstaðan á Hólum væri mun betri en á Vindheimamelum og æskilegra væri að Gullhylur óskaði eftir að fá að færa Landsmóts-umsókn sína að Hólum.

Stjórn LH sækir heimild í lög og reglur LH, nánar tiltekið í grein 6.1 „Ákvörðun um Landsmót“  í reglunum undirbúning og framkvæmd Landsmóta. Greinin er svohljóðandi.

,,Landsmót hestamanna skulu haldin annað hvert ár. Stjórn LH velur og ákveður landsmótsstað hverju sinni að höfðu samráði við rekstraraðila. Skal ákvörðun um mótsstað liggja fyrir a.m.k. fimm árum fyrir það mót sem um ræðir. Samningar skulu vera frágengnir og undirritaðir minnst þremur árum áður. Ef samningar nást ekki skal staðarval endurskoðað. Við staðarval skal stjórn LH hafa til hliðsjónar fjárhagslega hagkvæmni svo og yfirsýn á félagslegt réttlæti. Samhliða staðarákvörðun skal liggja fyrir samningur um eftirgjald (leigu) fyrir mótssvæðið“

Haft var samband við stjórnarmenn Gullhyls þar sem afstaða stjórnar var kynnt. Umsókn um færslu landsmótsstaðar frá Vindheimamelum að Hólum í Hjaltadal barst frá Gullhyl stuttu síðar. Erindið var tekið fyrir á stjórnarfundinum og samþykkti stjórn samhljóða að verða við beiðni Gullhyls ehf.  um breytt staðarval á Landsmóti hestamanna 2016. Samþykktin er þó með þeim fyrirvara að Gullhylur sendi staðfestingu þess efnis til LH, frá mennta- og menningarmálaráðherra og sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir 22. desember 2014. Samningarviðræður við Gullhyl munu því miðast við þá staðsetningu. Ekki verður slegið af  kröfum sem gerðar eru til landsmótsstaða s.s. með tilliti til umgjarðar, valla og annarar aðstöðu.

Stjórn LH hefur haft að leiðarljósi að finna lausnir á þeirri stöðu sem samtökin eru í varðandi staðsetningu á Landsmóti 2016.  Við gerum okkur ljóst að ekki muni öllum líka, en vonandi náum við eins mikilli sátt og mögulega getur orðið, hestamennskunni til hagsbóta.  Við höfum og munum starfa fyrir opnum tjöldum og teljum okkur vinna af heilindum enda öll gögn varðandi málið aðgengileg á heimasíðu sambandsins og fleiri netmiðlum. Stjórn Landssambands hestamannafélaga vill jafnframt minna á fyrirhugaða ráðstefnu um Landsmót sem áætlað er að verði haldið fyrri hluta næsta árs, samkvæmt samþykkt á síðasta Landsþingi.

Með jólakveðju,

Stjórn Landssambands hestamannafélaga