Tilkynning frá stjórn LH

Stjórn Landssambands hestamannafélaga lýsir yfir óánægju með tilnefningar Samtaka íþróttafréttamanna til íþróttamanns ársins. 
 
Heldur eru jólakveðjur Samtaka íþróttafréttamanna til okkar hestamanna kaldar.
Íþróttafréttamenn telja afreksknapann, þrefaldan heimsmeistara í hestaíþróttum Jóhann Rúnar Skúlason ekki þess umkominn að vera á lista þeirra 10 íþróttamanna sem hafa unnið stór afrek á árinu.  Landsliðið okkar kemst ekki á blað sem lið ársins þrátt fyrir besta árangur frá upphafi. Landsliðsþjálfarinn kemst heldur ekki á blað.
 
Oft höfum við hestamenn eygt von um að afrek okkar landsliðsknapa hafi verið rétt metin en svo hefur ekki verið um árabil. Nú bar svo við að afrek Jóhanns Rúnars Skúlasonar er þess eðlis að einstakt telst. Ekki vann hann einungis þrjá heimsmeistaratitla á HM í Berlín í sumar, hann fékk einnig sérstök verðlaun fyrir frábæra reiðmennsku á mótinu.
 
Það eru okkur mikil vonbrigði að íþróttafréttamenn opinberi með svo augljósum hætti vankunnáttu og eða áhugaleysi á hestaíþróttum sem raun ber vitni. Þessi niðurstaða kastar óverðskuldaða rýrð á hestamennsku sem íþróttagrein en gjaldfellir þó meira störf íþróttafréttaritara.
 
Landssamband hestamannafélaga hefur unnið ötullega að afreksmálum undanfarin ár svo eftir hefur verið tekið. Við teljum að það sé nauðsynlegt að Íþróttasamband Íslands endurskoði það fyrirkomulag sem viðhaft er við árlegt val á íþróttamanni ársins og því komið í faglegan farveg þar sem tryggt sé að íþróttagreinar sitji við sama borð en sé ekki háð áhuga og þekkingu íþróttafréttaritara.
 
Landssamband hestamannafélaga óskar landsmönnum gleðilegra jóla. 
 
F.h. Landssambands hestamannafélaga 
Lárus Ástmar Hannesson 
Formaður.