Tilkynning vegna Íslandsmóts í hestaíþróttum

Sameiginleg tilkynning frá mótshöldurum Íslandsmóts í hestaíþróttum Hestamannafélaginu Geysi, Landssambandi hestamannafélaga og keppnisnefnd LH


Íslandsmót ungmenna og fullorðinna í hestaíþróttum 2020

Margar spurningar hafa vaknað eftir að heilbrigðisyfirvöld settu þröngar fjöldatakmarkanir sem tóku gildi í gær föstudag 31. júlí og standa til 13.ágúst. Ekki er hægt að svara þeim öllum né vita hvað tíminn muni leiða í ljós, hvort frekari fjöldatakmarkanir verði settar eða hvort ástandið verði stöðugt.

Gefið var grænt ljós á að íþróttir án snertingar geti haldið áfram sinni starfsemi sé farið eftir fjöldatakmörkunum, sóttvarnarreglum og öllu hreinlæti sé sinnt mjög vel.

Mótshaldarar, LH og keppnisnefnd LH munu senda greinargerð til heilbrigðisyfirvalda um hvernig áætlunin er að halda þennan viðburð með allar sóttvarnarreglur að leiðarljósi til að tryggja heilsu keppenda og starfsmanna. Viðburðurinn verður án áhorfenda ef þörf krefur.

Með þetta að leiðarljósi og jákvæð svör frá heilbrigðisyfirvöldum er stefnan að halda Íslandsmót í hestaíþróttum. Mótið gæti orðið með öðru sniði en áætlað var, til dæmis kemur til greina skipta mótinu upp í ungmenni og fullorðna. Endanleg ákvörðun verður tekin í næstu viku.

Varðandi skráningu mun allt gerast með mjög stuttum fyrirvara og stuttur tími verður frá lok skáningar þar til keppni hefst. Við biðjum því alla að fylgjast vel með framvindu mála.


Mótshaldarar Hestamannafélagið Geysir, Landssamband hestamannafélaga og keppnisnefnd LH