Benjamín Sandur Ingólfsson heimsmeistari í gæðingaskeiði 2019
Landssamband hestamannafélaga kynnir nýjan landsliðshóp U21-landsliðsins fyrir árið 2021.
Hekla Katharína Kristinsdóttir landsliðsþjálfari hefur gert breytingar á U21-landsliðshópi LH, inn í hópinn koma sjö nýir knapar, það eru: Hekla Rán Hannesdóttir, Hulda María Sveinbjörnsdóttir, Kristján Árni Birgisson, Signý Sól Snorradóttir, Sigrún Högna Tómasdóttir, Sigurður Baldur Ríkharðsson og Svanhildur Guðbrandsdóttir.
Við val á knöpum í landsliðshópa LH er tekið tillit til árangurs í keppni, reiðmennsku, hestakosts og íþróttamannslegrar framkomu. Landsliðsþjálfari vegur og metur knapana eftir árangri þeirra en ekki síður hestakosti árið 2021 og stillir hópnum þannig upp að styrkleikar séu í öllum greinum íþróttakeppninnar sem keppt er í á íslenska hestinum.
Framundan er heimsmeistaramótsár en Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið í Herning í Danmörku í byrjun ágúst. Knapar í landsliðshópum LH eru í forvali þegar kemur að landliðsverkefnum en einnig er landsliðsþjálfara heimilt að velja knapa utan hópsins þegar þurfa þykir.
Úrtakið er stórt og mikið af frambærilegum unglingum og ungmennum sem sýna mikinn metnað og góða frammistöðu. Gaman verður að halda áfram að fylgjast með þeim sem eru að banka á dyrnar hjá U21 árs hópnum en komust ekki inn að þessu sinni.
Hér fyrir neðan koma upplýsingar um þá knapa sem hafa tryggt sér sæti í U21 árs landsliðshópnum 2021. Allt eru þetta knapar sem stefna á þátttöku á HM íslenska hestsins í Herning í Danmörku.
Samkeppnin er því mikil og einungis munu fimm ungmenni fá þátttökurétt á mótinu.
Eftirtaldir knapar taka sæti í U-21 árs landsliðshópnum 2021:
Benedikt Ólafsson:
Benedikt er fæddur 2003. Hann er í hestamannafélaginu Herði og stundar nám við Tækniskólann á 2. ári og er þar að læra húsasmíði ásamt því að taka stúdent.
Benedikt varð m.a. Íslandsmeistari í tölti í flokki unglinga og tók 1. sæti í tölti, fjórgangi og gæðingaskeiði og var stigahæsti knapinn á Reykjavíkurmeistaramóti 2020
Glódís Rún Sigurðardóttir:
Glódís Rún er fædd 2002. Hún er í hestamannafélaginu Sleipni og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og er þar á síðasta ári.
Glódís varð m.a. í 1. sæti í slaktaumatölti og fjórgangi og varð efst í samanlögðum fjórgangsgreinum á Reykjavíkurmeistaramóti í ungmennaflokki 2020.
Guðmar Freyr Magnússon:
Guðmar Freyr er fæddur 2000. Hann er í hestamannafélaginu Skagfirðing og starfar við tamningar og þjálfun heima á Íbishóli.
Guðmar er efstur á stöðulista ungmennaflokks í fimmgangi á Snillingi frá Íbishóli.
Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir:
Gyða Sveinbjörg er fædd 2001. Hún er í hestamannafélaginu Sleipni og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og er þar á lokaönn sinni.
Gyða varð m.a. í 1. sæti á Reykjavíkurmeistaramóti í tölti í ungmennaflokki 2020.
Hafþór Hreiðar Birgisson:
Hafþór Hreiðar er fæddur 2000. Hann er í hestamannafélaginu Spretti og stundar nám í viðskiptafræði í HÍ á 2. ári.
Hafþór varð m.a. í 1. sæti í gæðingaskeiði ungmennaflokki 2020 og samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum á Reykjavíkurmeistaramóti.
Hákon Dan Ólafsson:
Hákon Dan er fæddur 2001. Hann er í hestamannafélaginu Fáki og stundar nú tamningar og þjálfun á Hólaborg við Selfoss.
Hákon hefur átt góðan keppnisárangur á árinu í fimmgangi ungmenna.
Hekla Rán Hannesdóttir:
Hekla Rán er fædd 2005. Hún er í hestamannafélaginu Spretti og er í 10. bekk í Vatnsendaskóla sem er í Kópavogi.
Hekla Rán varð m.a. Íslandsmeistari og var í 1. sæti á Reykjavíkurmeistaramóti í slaktaumatölti í unglingaflokki 2020.
Hulda María Sveinbjörnsdóttir:
Hulda María er fædd 2004. Hún er í hestamannafélaginu Spretti og er á 1. ári í námi sínu við Verslunarskóla Íslands.
Hún átti góðan keppnisárangur á árinu í unglingaflokki.
Katla Sif Snorradóttir:
Katla Sif er fædd 2002. Hún er í hestamannafélaginu Sörla og stundar nám við Flensborgarskólann og klárar þar núna í vor.
Katla átti góðan keppnisárangur á árinu í fjórgangi ungmennaflokki.
Kristján Árni Birgisson:
Kristján Árni er fæddur 2004. Hann er í hestamannafélaginu Geysi og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands á 1. ári hestabrautar.
Kristján Árni varð m.a. Íslandsmeistari í gæðingaskeiði í unglingaflokki 2020.
Signý Sól Snorradóttir:
Signý Sól er fædd 2004. Hún er í hestamannafélaginu Mána og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á 1. ári.
Signý Sól varð m.a. Íslandsmeistari í 100 m. skeiði í unglingaflokki 2020.
Sigrún Högna Tómasdóttir:
Sigrún Högna er fædd 2003. Hún er í hestamannafélaginu Smára og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands á 2. ári.
Sigrún Högna varð m.a. Íslandsmeistari og tók 1.sæti á Reykjavíkurmeistaramóti í fimmgangi 2020 í unglingaflokki.
Sigurður Baldur Ríkharðsson:
Sigurður Baldur er fæddur 2004. Hann er í hestamannafélaginu Spretti og stundar nám við Fjölbrautarskólann í Garðabæ á 1. ári.
Sigurður Baldur átti góðan keppnisárangur í tölti unglingaflokki á árinu.
Svanhildur Guðbrandsdóttir:
Svanhildur er fædd 2000. Hún er í hestamannafélaginu Kóp og stundar nú nám við Hólaskóla á hestabraut og er komin á 2. ár.
Svanhildur átti góðan keppnisárangur í fjórgangi ungmenna á árinu.
Thelma Dögg Tómasdóttir:
Thelma Dögg er fædd 2000. Hún er í hestamannafélaginu Smára og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og klárar nám sitt þar núna um jólin.
Thelma Dögg varð m.a. í 1.sæti á Reykjavíkurmeistaramóti í fimmgangi ungmenna 2020.
Védís Huld Sigurðardóttir:
Védís Huld er fædd 2004. Hún er í hestamannafélaginu Sleipni og stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands á 2. ári.
Védís átti góðan keppnisárangur á árinu í unglingaflokki, var Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum og Íslandsmeistari í fimi 2020.
Ylfa Guðrún Svafarsdóttir:
Ylfa Guðrún er fædd 2000. Hún er í hestamannafélaginu Fák og stundar nú nám við Hólaskóla á hestabraut og er komin á 2. ár.
Ylfa átti góðan keppnisárangur í ungmennaflokki á árinu.