Um þolreiðar og Survive Iceland

Iðunn Bjarnadóttir á Molda frá Syðstu-Fossum, sigurvegari Þolreiðarkeppni LH 2021 ríður í mark á Skó…
Iðunn Bjarnadóttir á Molda frá Syðstu-Fossum, sigurvegari Þolreiðarkeppni LH 2021 ríður í mark á Skógarhólum.

Þolreiðar (e. Endurance ride) er keppnisgrein sem er gífurlega vinsæl út um allan heim en hefur hins vegar ekki verið keppt mikið í á Íslandi. Á níunda áratugnum var keppt í þolreiðum í nokkur ár þar sem riðið var frá Laxnesi til Þingvalla.  

FEI (Federation Equestre Internationale), alþjóðleg samtök hestaíþrótta, hafa viðurkennt þolreiðar sem alþjóðlega keppnisgrein allt frá 1978, en upphaf keppnigreinarinnar má rekja til herþjálfunar á hestum í byrjun 20. aldar. Vegalengdir í þolreiðarkeppnum erlendis eru misjafnar, algengt er að dagleiðir séu 80-160 km. sem knapi og hestur verða að klára á 12 -24 klst. en einnig eru til styttri þolreiðar þar sem keppt er í 25-35 km. vegalengdum. Knapar mega hlaupa, ganga eða skokka með hesta sína hvenær sem er en verða þó að koma ríðandi í mark.

Það hestakyn sem hefur þótt henta best til þolreiða er arabíski hesturinn en hann er gífurlega úthaldsmikill en einnig er keppt á mörgum öðrum hestakynjum við góðan árangur. Samanburður á íslenska hestinum hefur leitt í ljós að sá íslenski hentar vel í allt að 70 km. en í lengri keppnum henta önnur hestakyn betur.

Landssamband hestamannafélaga hefur sett á laggirnar þolreiðarkeppni þar sem reglurnar hafa verið aðlagaðar íslenskum aðstæðum og íslenskum hestum. Keppnin hefur hlotið nafnið Survive Iceland þar sem að hámarki 10 knapar keppa, bæði íslenskir og erlendir.

Sumarið 2021 var haldið eins konar prufumót, til að fá reynslu á keppnisreglur sem Helgi Sigurðsson dýralæknir tók að sér að aðlaga að íslenskum aðstæðum. Þar kepptu fjórir knapar, 2 Íslendingar og 2 erlendir knapar, og var riðið á fjórum dögum úr Skagafirði, yfir Kjöl og endað á Þingvöllum. Prufumótið gekk vel og var ástand hesta gott eftir þá þolreið og töldu skipuleggjendur og knapar mótið almennt vel lukkað.

Survive Iceland fer fram dagana 25. til 28. ágúst þar sem riðið verður um Landsveit, Rangárvelli og Fjallabak nyrðra og munu 6-8 lið taka þátt. Hvert lið samanstendur af einum knapa, tveimur aðstoðarmönnum og þremur hestum. Fyrirkomulag Survive Iceland þetta árið er þannig að hver knapi ríður 50-70 km. á dag á tveimur hestum þar sem hvor hestur fer um 25-35 km. legg, þannig er alltaf einn hestur í hverju liði í hvíld á hverjum degi. Keppendur er ræstir með 5 mín. fresti og tíminn tekinn á hverjum legg fyrir sig. Keppendur verða með staðsetningarbúnað á sér og hægt verður að fylgjast með keppendum á vefsíðu Landssambands hestamannafélaga, www.lhhestar.is.

Áður en keppnin hefst er framkvæmd dýralæknaskoðun þar sem ástand hestsins er kannað í þaula. Framkvæmd er áverkaskoðun, skoðað upp í munn, þreifað fyrir eymslum í baki, prófað fyrir helti o.fl. Velferð, öryggi og virðing fyrir hestunum er algjört leiðarljós keppninnar. Í lok hvers áfanga er framkvæmd dýralæknaskoðun þar sem mæld er öndun og púls, fætur og bak skoðað og hvort hesturinn hefur hlotið einhverja áverka. Ef púls hestsins er yfir ákveðnum mörkum 30 mín. eftir að komið er í mark fær knapi refsistig og mínútur bætast við tímann. Einnig fær knapi refsistig ef áverkar eru sýnilegir. Þannig er ekki endilega sá sem kemur fyrstur í mark með besta tímann á hverjum legg.

Helgi Sigurðsson sérgreinadýralæknir í hestum er dýralæknir þolreiðarinnar en hann var frumkvöðull í framgangi þolreiða á Íslandi á árunum 1987-1992. Helgi er hestamönnum vel kunnur og hefur hann verið á meðal okkar fremstu dýralækna í yfir 40 ár, hlaut meðal annars viðurkenningu sem sérfræðingur í hestasjúkdómum árið 1994 og heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga 2021.

Þolreið er mjög tæknileg keppnisgrein. Knapinn þarf að lesa hestinn og landslagið, ekki er farsælt að ríða mikið á stökki, oft er riðið á feti og á þeim kjörgangi sem hesturinn kýs. Skynsamur knapi ríður þannig að hestinum miðar vel áfram en er sjaldan á stökki eða mjög miklum hraða og það að taka endasprett á miklum hraða þannig að púls hestsins fari upp getur leitt til refsistiga. Þolreið er ekki þeysireið.

Hestarnir sem notaðir eru í þolreiðinni eru allir þrautþjálfaðir hestar, reyndir hestaferðahestar sem hafa verið í löngum ferðum um hálendið á hverju sumri í mörg ár. Lágmarksaldur hesta í keppninni er 8 ár. Segja má að ákveðin hestgerð henti betur til þolreiða en aðrar, það er þessi djarfi, sterki, þolni, sjálfstæði gæðingur sem nýtur sín best í þolreiðum, hann fer sparlega með orkuna sína en er viljugur áfram, reiðhestur sem allir hestamenn vilja eiga.

Knapar eru valdir til þátttöku og fara í gegnum ákveðið umsóknarferli. Knapinn þarf að hafa gífurlegt úthald þegar riðið er 50-70km á dag, vera vanur löngum dagleiðum, reynslumikill, næmur knapi sem á auðvelt með að lesa hestinn og aðstæður.

Gætt verður vel að velferð hestanna í keppninni með reglubundnum skoðunum og Ytra eftirlit Matvælastofnunar mun fara fram að keppni lokinni..

Tilgangurinn með að endurvekja þolreiðar á Íslandi er margþættur. Fyrst og fremst er verið að hefja aftur til vegs og virðingar hið forna aðalsmerki íslenska hestsins, þ.e.  þol og úthald. Þá er tilgangurinn líka að auka áhuga hestamanna á þoli og þreki eigin hesta og gera þolreiðar að keppnisgrein hér á landi. Þolreið er vel til þess fallin að auka áhuga almennings sem jafnan stundar ekki hestamennsku, til að fylgjast með hestaíþrótt sem er einföld og auðskiljanleg.

Íslenski hesturinn er þjóðargersemi. Hann hefur fylgt þjóðinni frá landnámi, var þarfasti þjónninn og þurfti að vera sterkur, úthaldsmikill og fara hratt yfir. Okkur Íslendingum ber skylda til að varðveita styrk hans og úthald.

Hér má sjá reglur keppninnar.