Lög og reglur LH uppfærð

Breytingar sem samþykktar voru á landsþingi LH 2020 og á FEIF-þingi 2021 hafa verð færðar inn í lög og reglur LH sem birt eru á vef LH.

Helstu breytingar sem gerðar voru á lögunum á landsþingi eru eftirfarandi:

  • Þátttökurétt á Íslandsmóti eiga efstu pör á stöðulista og fjöldi í hverri grein er takmarkaður.
  • Í gæðingakeppni er ný keppnisgrein, gæðingatölt.
  • Í gæðingakeppni er óheimilt að taka baug eða snúa við eftir að keppandi hefur lagt af stað í skeiðsýningu.
  • Árangur knapa í innahússmótum telur til árangurs keppnisárs ef vallarstærð er að lágmarki 19x50m.
  • Einkunn fyrir stjórnun og ásetu er gefin eftir hvert atriði í barnaflokki í gæðingakeppni.
  • Auglýsa skal opin íþróttamót og sækja skal um dómara með 7 daga fyrirvara.
  • Reglur um aðstæður til skeiðkappreiða til að lágmarka slysahættu.
  • Ekki er keppt í A-flokki ungmenna á landsmótum.
  • Í gæðingakeppni getur sami hestur aðeins keppt í einum flokki á sama móti.

 

Helstu breytingar sem gerðar voru á FEIF-þingi og voru færðar inn í lög LH eru eftirfarandi:

  • FEIF líður ekki mismunun byggða á uppruna, kyni, þjóðerni, trúar-og stjórnmálaskoðunum, kynhneigð, húskaparstöðu eða á öðrum grunni.
  • Reiðhjálmar skulu vera með CE vottun eða sambærilega vottun.
  • Hnakkur skal vera staðsettur þannig að meiri hluti gjarðar hvíli á bringubeini og hnakkur sitji hvorki á herðum hests né þungi hans hvíli á spjaldhryggssvæði.
  • Regla um hversu mikið má herða nefól á reiðmúl og það skuli mæla með sérstöku mælitæki (e. Noseband Taper Gauge).
  • Í íþróttakeppni er sama hesti heimilt að hefja keppni oftar en einu sinni á sama móti í sömu keppnisgrein ef það er í mismunandi aldursflokkum.
  • Heimild til að nota ýmsan aukabúnað í keppni eins og snjóbotna, ísfjaðrir, eyrnartappa og verndandi gel eða áburð ofan hófbotns (e. liquid bandage).
  • Regla um hvernig skuli reikna samanlagðan sigurvegara ef hestar eru jafnir að stigum.
  • Við ræsingu með rásbásum skulu básar vera lokaðir að framan og aftan.
  • Skerpt er á orðalagi um ræsingu og niðurtöku í gæðingaskeiði.
  • Ný grein PP3, léttara gæðingaskeið.