Úrslit uppsveitadeildar Loga, Smára og Trausta

 

Uppsveitadeild Loga, Smára og Trausta lauk í gær með glæsilegri keppni í tölti og fljúgandi skeiði.

Fólk var orðið eftirvæntingarfullt kl. 20:00 þegar forkeppni í tölti hófst á lokadegi Uppsveitadeildar Loga,  Smára og Trausta, enda húsið fullt og langþráð vorveður í lofti.

Forkeppnin fór vel af stað, knapar og hestar í góðu formi. Sem fyrr voru það 24 keppendur sem leiddu saman hesta sína í keppni um að ná inn í úrslit.  Að henni lokinni stóðu Arnar Bjarki Sigurðarson og Töru-Glóð frá Kjartansstöðum í liði Hrosshaga/Sunnuhvols efst með einkunnina 7,30. A hæla þeirra komu svo Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum í Arion banka liðinu með 7,20. Þriðju inn í A úrslit urðu Sólon Morthens og Frægur frá Flekkudal í liði Hrosshaga/Sunnuhvols með 7,03 í einkunn. Síðasta örugga sætið í A - úrslitum féll í skaut Líneyjar Kristinsdóttur og Rúbíns frá Fellskoti í liði Jáverks með einkunnina 6,97.

Efst inn í B - úrslit urðu þau Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Lukka frá Bjarnastöðum í Arion banka liðinu með 6,63. Næst á eftir komu þeir Þorsteinn Gunnar Þorsteinsson og Leikur frá Glæsibæ 2 úr liði Forsætis með 6,33. Þriðju inn í B - úrslit urðu Finnur Jóhannesson og Körtur frá Torfastöðum í liði Gamla og guttanna með 6,23 í einkunn. Þau Jón William Bjarkason og Framsókn frá Litlu Gröf í liði Forsætis og Hermann Þór Karlsson og Rosi frá Efri Brúnavöllum I úr liði Þórisjötna urðu svo jöfn inn í B - úrslitin með einkunnina 6,17.

Þegar forkeppni í tölti var lokið tók við keppni í fljúgandi skeiði. Í boði voru 72 sprettir þar sem allir keppendur fóru þrjár umferðir og gilti besti tími til verðlauna. Það sáust mörg góð tilþrif í skeiðinu að þessu sinni og skiluðu allir keppendur gildum tíma. Finnur Jóhannesson og Tinna Svört frá Glæsibæ komu sáu og sigruðu skeiðið með þremur bestu tímunum sem mældust í gærkvöldi. Sigurtími þeirra þegar þau renndu sér í gegnum Reiðhöllina í annarri umferð var 2,91 sekúnda. Í öðru sæti á 3 sekúndum sléttum urðu Bjarni Bjarnason og Glúmur frá Þóroddsstöðum. Þriðja besta tímann áttu Jón William Bjarkason og Tígull frá Bjarnastöðum á 3,05 sekúndum. Jöfn í 3 - 4 sæti urðu Jón Óskar Jóhannesson og Ásadís frá Áskoti úr liði Gamla og guttanna og Hulda Finnsdóttir á Funa frá Hofi úr liði Landstólpa með tímann 3,07 sekúndur. Einum hundraðasta á eftir í 5 sæti urðu Birna Káradóttir og Skálmar frá Nýjabæ úr liði Þórisjötna á tímanum 3,08 sekúndur.

Þá tók við keppni í B - úrslitum í tölti. Efst urðu Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Lukka frá Bjarnastöðum með 7,33. Sjötta sæti í tölti féll í skaut Finns Jóhannssonar og Kartar frá Torfastöðum með einkunnina 6,78. Sjöundu urðu Jón William Bjarkason og Framsókn frá Litlu Gröf með 6,67. Áttunda sætið fengu þeir Þorsteinn Gunnar Þorsteinsson og Leikur frá Glæsibæ 2 með 6,33 í einkunn. Í níunda sæti urðu þeir Hermann Þór Karlsson og Rosi frá Efri Brúnavöllum I með 6,11 í einkunn.

Þegar ljóst var hver hafði unnið sér rétt til keppni í A - úrslitum í tölti var mikil eftirvænting meðal áhorfenda eftir því að sjá lokatilþrifin á skemmtilegri mótaröð sem Uppsveitadeild Loga, Smára og Trausta hefur verið í vetur.

Það var mál manna að sýningarnar í A - úrslitum hafi verið einstaklega vel úr garði gerðrar og glæsileg tilþrif sýnd, enda skilaði það keppendum góðum einkunnum.

En að lokinni keppni í A - úrslitum í tölti lá fyrir að Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum sigruðu með einkunnina 7,67. Í öðru sæti urðu Arnar Bjarki Sigurðarson og Töru-Glóð frá Kjartansstöðum með 7,50 í einkunn.  Úr B - úrslitum og upp í þriðja sæti fóru þau Guðjón Sigurliði Sigurðsson og Lukka frá Bjarnastöðum með 7,39 í einkunn. Í fjórða sæti urðu Líney Kristinsdóttir og Rúbín frá Fellskoti með 7,28 í einkunn og fimmta sætið hlutu Sólon Morthens og Frægur frá Flekkudal með einkunnina 6,94.

Stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum vill þakka öllum keppendum sem tóku þátt í Uppsveitadeild Loga, Smára og Trausta fyrir skemmtilega og spennandi keppni í vetur. Jafnframt vill stjórn þakka öllum þeim sem hafa komið að þessari mótaröð með einum eða öðrum hætti. Hollvinir Reiðhallarinnar hafa svo staðið vaktina sína með mikilli prýði og sáu til þess að húsið tók vel á móti gestum sínum á útmánuðum 2015.