Vinir Skógarhóla

Skógarhólar í þjóðgarðinum á Þingvöllum eru í eigu Hestamannafélaganna í landinu. Saga Skógarhóla er samofin sögu Landssambands hestamannafélaga og á þessu ári eru 70 ár síðan fyrsta Landsmót hestamanna var haldið á Þingvöllum. Landssamband hestamannafélaga hefur unnið að endurbótum á aðstöðunni á Skógarhólum en margt er enn ógert.

Í haust var stofnaður félagsskapur sjálfboðaliða um endurbætur á Skógarhólum, “Vinir Skógarhóla”, sem vilja leggja sitt að mörkum til að bæta aðstöðuna þar.

Stjórn LH hefur samþykkt að veita fé í framkvæmdir á Skógarhólum á þessu ári til að bæta aðstöðuna á staðnum og vonast þannig til að fleiri hestamenn sjái sér fært að nýta staðinn. Það sem til stendur að gera á Skógarhólum í sumar er m.a. að skipta um járn á þakinu, gera lagfæringar á eldhúsi, salernis- og sturtuaðstöðu, smíða sólpalla og laga girðingar. Auk framkvæmda á svæðinu stendur til að safna sögulegum upplýsingum um staðinn.

Til stendur að hafa 2-3 vinnuhelgar í vor t.d. í apríl/maí og auglýsir LH hér með eftir sjálfboðaliðum til að gerast Vinir Skógarhóla og taka þátt í framkvæmdum á svæðinu. Allir eru velkomnir og ekki er gerð krafa um sérstaka verkkunnáttu, allir geta fundið verkefni við sitt hæfi. Í lok vinnutarnar verður grillað og þeir sem vilja geta tekið með sér hesta og skellt sér í reiðtúr um þjóðgarðinn. 

Margar hendur vinna létt verk og allra hagur er að sem best takist til við endurbætur á staðnum. 

Skráðu þig í Vini Skógarhóla hér.

Bókanir á Skógarhólum fara í gegnum skrifstofu LH, (514 4030 skogarholar@lhhestar.is), umsjónarmaður á staðnum er Eggert Hjartarson (847 9770, eggerthorse@hotmail.com) og stýrir hann framkvæmdum.