Framboð til aðalstjórnar: Sóley Margeirsdóttir

Framboð til aðalstjórnar Landssambands Hestamanna 2024-2026 (LH)

Sóley Margeirsdóttir

 

Kæru hestamenn.

Nú er Landsþing hestamanna á næsta leiti og stöndum við frammi fyrir því tækifæri að geta haft áhrif á að móta framtíð hestamennskunnar, hvort sem við lítum á hana sem íþrótt, áhugamál eða lífsstíl. Landsþingið er mikilvægasti vettvangur okkar til að ræða málefni sem okkur varða og tækifæri til að hafa áhrif á stefnu sambandsins og ákvarðanir innan þess.

Að mínu mati er mikilvægt að félagsmenn taki virkan þátt í félagsstörfum og leggi sitt af mörkum hafi þeir tök á. Með það í huga hef ég ákveðið að bjóða mig fram til áframhaldandi setu í stjórn Landssambands hestamannafélaga.

Ég heiti Sóley Margeirsdóttir og hef setið í stjórn síðastliðið tímabil en gaf fyrst kost á mér 2016 til varastjórnar. Hestamennska hefur verið órjúfanlegur hluti af mínu lífi frá barnsaldri. Ég ólst upp í Hestamannafélaginu Mána og ásamt fjölskyldu minni hef ég alla tíð verið virkur þátttakandi í hestamennsku á einn eða annan hátt. Í dag starfa ég sem grunnskólakennari ásamt því að brenna fyrir málefnum hestamanna. Undanfarin ár hef ég lagt mig fram í að styðja við samfélag hestamanna á margan hátt. Ég hef setið í æskulýðsnefnd LH en æskulýðsmál hafa ávallt verið mér mjög hugleikin. Einnig hef ég starfað í tölvunefnd og landsliðsnefnd, komið að þróunarvinnu Sportfengs og fylgt landsliðinu í ýmis verkefni. Ég hef lagt ýmislegt af mörkum við mótahald, þá helst á félagssvæði Geysis en einnig á stórmótum eins og Íslandsmótum og Landsmótum. Ég sit í stjórn Hestamannafélagsins Geysis og í 3 ár hef ég starfað í stjórn Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum.

Þennan tíma hef ég einnig reynt að styðja við hestamenn og hestamannafélög um land allt með þeirri þekkingu og reynslu sem ég hef öðlast í gegnum tíðina og er ávallt boðin og búin til að aðstoða þegar þess er óskað. Þessi tími hefur verið mér dýrmæt reynsla, þar sem ég hef lært mikið um starfsemi sambandsins og mikilvægi þess að skapa samstöðu meðal hestamanna.

Þau eru fjölmörg málefnin sem eru mér ofarlega í huga, en ég vil fyrst og fremst líta fram á veginn, vinna að sameiginlegum markmiðum okkar hestamanna og tryggja bjarta framtíð fyrir hestamennskuna. Ég vil að unnið sé hart að því að styrkja tengsl milli hestamannafélaga og efla samstarf okkar á milli, því ég trúi að það muni leiða af sér sterkara og samheldnara samfélag okkar hestamanna. Við þurfum að huga að því að auka þátttöku allra aldurshópa í greininni og tryggja að félagsmenn og hestamannafélög á landsbyggðinni fái stuðning til að halda úti virku félagsstarfi. Ég er stolt af því að sjá hversu vel hefur tekist hjá mörgum félögum að efla sitt æskulýðsstarf - en með því að leggja áherslur á þennan málaflokk erum við að fjárfesta í framtíð okkar hestamanna, hestamannafélaganna og ekki síst barnanna sjálfra. Með stuðningi Landssambandsins vil ég finna leiðir til að styðja við minni félög og þau félög þar sem reynst hefur erfitt að halda úti fjölbreyttu starfi. Eins langar mig að unnið sé að því að bæta aðstöðu hestamanna um allt land, með áherslu á gæði og öryggi. Við þurfum að hlúa að ímynd hestamennskunnar með fagmennsku að leiðarljósi, auka sýnileika og efla tengsl við fjölmiðla. Alþjóðlegt samstarf er mikilvægt fyrir framþróun Íslands hestamennskunnar, ég vil efla tengsl okkar við önnur lönd, stuðla að auknu samstarfi og skipulagningu alþjóðlegra viðburða hérlendis og erlendis.

Ef við hestamenn sameinum krafta okkar og einsetjum okkur að ná árangri, eru engin takmörk fyrir því sem við getum afrekað.

Ég hef lagt mitt af mörkum og er tilbúin að halda því áfram fyrir okkur hestamenn.

Með kærri kveðju,

Sóley Margeirsdóttir