Framboð til formanns: Guðni Halldórsson

Guðni Halldórsson

Ágætu landsþingsfulltrúar,

Ég hef gefið það út að ég sé tilbúinn til að leiða okkar mikilvægu samtök áfram og á von á því að þingfulltrúar sýni mér það traust að veita mér áframhaldandi brautargengi til þeirra starfa.

Frá því að ég hóf að starfa fyrir hestafólk fyrir um sjö árum, fyrst í landsliðsnefnd og síðar sem formaður LH, hef ég lagt nánast allan þann tíma sem ég hef átt aflögu í það að reyna að vinna hestafólki og hestaíþróttinni í sínum víðasta skilningi, gagn. Ég hef starfað af heiðarleika, einurð og samviskusemi að framgangi hestamennskunnar í landinu öllu og kappkostað að hafa fagmennsku, samvinnu og sátt sem meginstef í starfi mínu, eins og í lífinu.

Ég trúi því staðfastlega að þingfulltrúar muni veita mér áframhaldandi umboð enda ekkert sem kallar á það að skipt sé um stjórn eða skipstjóra í brúnni á þessari stundu. Sér í lagi væri það undarlegt í ljósi góðrar stöðu og mikilla framfara á flestum sviðum innan sambandsins á undanförnum árum.

Ég er stoltur af sambandinu okkar og tel að við eigum öll að vera það. Við getum borið höfuðið hátt. Það hefur margt áunnist þó að enn sé af nógu að taka og verkefnin fram undan mörg, krefjandi og spennandi.

Ég vil þakka frábærri og samheldinni stjórn fyrir sitt framlag í þágu okkar hestafólks. Öllu nefndarfólki, en í nefndum sambandsins starfar mikill fjöldi fólks og leggur þar fram óeigingjarnt starf í þágu okkar allra.

Starfsfólk LH eru klettarnir sem halda starfinu gangandi og tel ég á engan hallað þó að ég leyfi mér að fullyrða að sjaldan eða aldrei hafi skrifstofa LH verið mönnuð jafn frábæru, duglegu og kláru starfsfólki.

Þá erum við einstaklega heppin með það fólk sem valist hefur til starfa fyrir landsliðin okkar, eins og árangur þeirra vitnar um.

Stórt samband eins og LH getur ekki vaxið og dafnað nema þeir sem innan þess starfa séu boðnir og búnir til að leggja sitt af mörkum og tilbúnir til að nálgast verkefnin með jákvæðum og uppbyggjandi hætti. Við hestafólk erum heppin með að það hefur okkur tekist á undanförnum árum.

Í krafti samtakamáttarins eigum við eftir að byggja ofan á það góða starf sem verið hefur unnið og ná enn betri árangri á næstu árum!

Guðni Halldórsson formaður LH